Óli Björn Kárason alþingismaður:
Það er gömul klisja að vika sé langur tími í pólitík. Oftar en ekki er hún merkingarlaus orðaleppur – innihaldslaus orð stjórnmálamanna, fjölmiðlunga og álitsgjafa þegar lítið er lagt til málanna. En svo gerist það. Á örfáum dögum gjörbreytist pólitískt landslag líkt og kjósendur í Bandaríkjunum hafa fengið að kynnast.
Eftir hryllilega frammistöðu Joes Bidens Bandaríkjaforseta í kappræðum við Donald Trump undir lok júní, voru demókratar örvinglaðir. Úrræðaleysi og glundroði gróf um sig. Í huga þeirra var fátt sem gæti komið í veg fyrir endurkjör Trumps í Hvíta húsið. Repúblikanar ættu tryggan meirihluta í fulltrúadeildinni og möguleika á að ná meirihluta í öldungadeildinni. Þar með hefði Trump öll tök á bandarískri stjórnsýslu – demókratar yrðu í raun áhrifalausir á komandi árum.
Allir sem horfðu á kappræðurnar áttuðu sig á því að sitjandi forseti gengi ekki heill til skógar. Elli kerling væri búin að ná tökum á honum. Jafnvel hliðhollir fjölmiðlar gátu ekki lengur þagað yfir „leyndarmáli“ um hve andlegu atgervi Joes Bidens hefði hrakað. Og flóttinn frá forsetanum hófst. Fyrstir voru minni spámenn innan Demókrataflokksins en síðan stigu fram áhrifamiklir einstaklingar. Fyrrverandi forsetar og forystufólk á þingi þrýstu á Biden að víkja. Gamli maðurinn gaf sig ekki fyrr en í fulla hnefana. Flokkseigendafélagið tók við; Kamala Harris varaforseti skyldi verða forsetaefni flokksins. Hliðhollir fjölmiðlar fögnuðu – og endurritun pólitískrar sögu varaforsetans hófst með tilheyrandi herferð á samfélagsmiðlum. Og eins og alltaf þegar mikið liggur við stigu stjörnur Hollywood fram og lögðu sín lóð á vogarskálar demókrata.
Efniviður í Hollywood-mynd
Margt bendir til að þessi pólitíska leikflétta geti tekist. Í stað örvæntingar og vonleysis hafa demókratar öðlast pólitískt sjálfstraust og trú á því að þeim takist að leggja Trump að velli í kosningunum í nóvember næstkomandi.
Atburðarásin í bandarískum stjórnmálum síðustu vikur er eins og skáldsaga sem skrifar sig sjálf. Banatilræði, andleg hrörnun forsetans, afhjúpun á þöggun fjölmiðla, valdataka flokkseigenda og krýning forsetaframbjóðanda án forkosninga. Í leikstjórn Hollywood endar bíómyndin með því að karlinn tapar og konan stendur uppi sem ótvíræður sigurvegari.
En Hollywood er ekki að skrifa handritið fyrir bandaríska kjósendur. Það er hins vegar langt í frá ólíklegt að niðurstaða kosninganna verði eins og stjörnurnar í draumaborginni óska; Kamala Harris verði fyrsta konan sem kjörin verður forseti Bandaríkjanna.
Ráðast úrslitin af óvinsældum?
Charles C. W. Cooke, einn ritstjóra tímaritsins National Review (NR), verður seint sakaður um að vera í hópi aðdáenda Harris, ekki frekar en Trumps. Cooke hefur ítrekað gagnrýnt varaforsetann fyrir róttæka hugmyndafræði og forræðishyggju. Hann heldur því fram að Harris skorti getu til að móta skýra pólitíska hugsun og stefnu. Harris hafi litla hæfileika sem ræðumaður eða sem brúarsmiður ólíkra hópa og skoðana. Spurningunni um hvort Kamala Harris sé góður frambjóðandi, svarar Cooke eindregið neitandi. En önnur efnisspurning sé mikilvægari: Getur Kamala Harris og varaforsetaefni hennar, (sem á eftir að útnefna) unnið kosningar gegn Donald Trump og J. D. Vance? Þessari spurningu svarar Cooke afdráttarlaust játandi þrátt fyrir óvinsældir sitjandi ríkisstjórnar.
Joe Biden er óvinsælasti forseti síðustu áratuga. Kamala Harris er óvinsælasti varaforseti síðan skoðanakannanir hófust. Í huga margra kjósenda hefur stjórnartíð tvíeykisins, Bidens/Harris, einkennst af verðbólgu, sóun, vanhæfni, bylgju ólöglegra innflytjenda, aukinni alþjóðaspennu og ófriði og lakari lífskjörum. Og nú síðast samsæri til að hylma yfir andlega hrörnun forsetans. En þrátt fyrir allt þetta eru kjósendur langt í frá sáttir við repúblikana. Donald Trump á fjölmennan og harðan hóp stuðningsmanna en hann er einnig óvinsæll og umdeildur ekki síst meðal óflokksbundinna kjósenda. J. D. Vance, sem Trump teflir fram sem varaforseta, er óvinsæll.
Svo gæti farið að úrslit kosninganna í nóvember ráðist fyrst og síðast af óvinsældum frambjóðenda og flokka hjá óháðum kjósendum. Mislíkar kjósendum meira Harris en Trump eða öfugt?
Stjórnmál í ógöngum
National Review er áhrifamikið tímarit meðal bandarískra hægrimanna. Byggir á arfleifð Williams Buckleys sem stofnaði NR árið 1955. Buckley, sem skilgreindi sjálfan sig sem blöndu af íhaldsmanni og frjálshyggjumanni, var einn áhrifamesti hugsuður hægrimanna á seinni hluta 20. aldarinnar. Ritstjórn NR var alla tíð gagnrýnin á Trump sem forseta. Forsetatíð hans einkenndist af skipulagsleysi og óreiðu. Trump hafi verið óútreiknanlegur og hegðað sér fremur eins og álitsgjafi á eigin ríkisstjórn en forseti. Gaf út tilskipanir á Twitter. „Trump hafði takmarkaðan skilning á stjórnskipun okkar og þegar öllu er á botninn hvolft bar hann litla virðingu fyrir henni,“ skrifaði leiðarahöfundur NR árið 2022 um leið og tímaritið biðlaði til flokksbundinna repúblikana um að hafna forsetanum fyrrverandi án þess að hika eða efast.
NR varð ekki að ósk sinni og Repúblikanaflokkurinn er í heljargreipum Trumps. Flokkurinn er ekki lengur flokkur Reagans og Jacks Kemps. Gildum hægrimanna hefur verið vikið til hliðar. Lýðhyggja og einangrunarstefna tekið völdin. Með sama hætti er Demókrataflokkurinn ekki lengur flokkur Johns F. Kennedys, heldur vinstrisinnaður flokkur þar sem pólitískur rétttrúnaður ræður för. Tengslin við venjulegt launafólk hafa rofnað. Elíta og yfirstétt eru við völdin.
Bandarísk stjórnmál hafa ratað í ógöngur og það getur haft víðtæk áhrif um allan heim, ekki síst hér á landi. Pólitísk kerfi sem býður 342 milljóna manna þjóð ekki upp á betri kosti en Trump eða Harris (áður Biden) er í vanda. Og sá vandi getur orðið vandi alls hins frjálsa heims.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 31. júlí 2024.