Illugi Gunnarsson fyrrverandi mennta- og menningarmálaráðherra og formaður þingflokks Sjálfstæðisflokksins er gestur Guðnýjar Halldórsdóttur í fimmtánda þætti hlaðvarpsþáttaraðar um samofna 95 ára sögu Sjálfstæðisflokksins og 80 ára sögu lýðveldis. Hljóðútgáfu af þættinum má nálgast hér.
Illugi var kjörinn á þing árið 2007 og átti þr sæti í 9 ár erða til ársins 2016. Hann var mennta- og menningarmálaráðherra frá 2013-2017 og formaður þingflokks Sjálfstæðisflokksins 2009-2010 og 2012-2013. Áður hafði hann m.a. verið aðstoðarmaður Davíðs Oddssonar forsætisráðherra á árunum 2000-2005 og formaður Heimdallar, félags ungra sjálfstæðismanna í Reykjavík 1997-1998.
„Ég náði að klára MR sem vinstri maður. En á síðasta árinu í MR var ég farinn að efast og verða veikari í trúnni,“ segir hann þegar þáttastjórnandi nefndi að hann hefði upphaflega verið vinstri maður.
Illugi segist hafa farið að lesa Hayek um tvítugt, m.a. Leiðina til ánauðar. Sú bók hafi haft mikil áhrif á hann.
„Sérstaklega þessi þáttur þekkingar hvernig frjáls markaðshagkerfi nýta þekkingu, bæði til þess að verða ríkari og geta búið þegnunum betra líf, en ekki bara það heldur líka samhengið á milli frjáls markaðar og síðan frelsis. Að hver einstaklingur geti lifað því lífi, haft sínar vonir og væntingar, leitað sinnar hamingju sem frjáls einstaklingur. Að forsenda þess væri hinn frjálsi markaður,“ segir hann.
Hann segir að um leið og menn missi hinn frjálsa markað frá sér þá hverfi einstaklingsfrelsið.
„Það var þetta samhengi sem rann upp fyrir mér á þessum tíma,“ segir hann.
Hann segir einnig að það hafi haft áhrif á sig að vinna í verbúð á sumrin. Þá hafi farið að renna upp fyrir honum samhengi þess hvernig gangi með rekstur fyrirtækis annars vegar og hins vegar hvað væri mikið eftir í vasanum á haustin þegar hann kom aftur heim.
„Það voru nokkrir þættir sem virka saman sem gerir að verkum að ég færðist til hægri,“ segir Illugi.
Var aðstoðarmaður Davíðs Oddssonar
Illugi nam hagfræði og fór í framhaldssnám til Lundúna. Eftir það var hann ráðinn sem aðstoðarmaður Davíðs Oddssonar í desember 2000 og starfaði sem aðstoðarmaður ráðherra til 2005.
„Er með honum í forsætisráðuneytinu og síðar í utanríkisráðuneytinu. Það voru fyrir mig rosalega forréttindi, að vinna fyrir einhvern eins og Davíð Oddsson. Það var óskaplega skemmtilegt og lærdómsríkt. En líka að fá að kynnast manni eins og Davíð Oddssyni, fylgjast með því hvernig hann vinnur en ekki síður persónunni. Mér finnst það ein mestu forréttindi sem ég hef fengið í lífinu,“ segir Illugi.
Alltaf haft áhuga á stjórnmálum
Spurður að því hvað hafi orðið til þess að hann leiddist út í stjórnmál segir Illugi að það hafi blundað í honum frá barnæsku.
„Ég hafði alltaf svo mikinn áhuga á samfélagsmálum. Hafði alltaf mikinn áhuga á pólitík. Pabbi var í bæjarstjórn fyrir Alþýðubandalagið á Siglufirði. Það var pólitík allt í kringum mig,“ segir Illugi.
Hann segist hafa hugsað um þetta síðan í barnæsku.
„Þetta var ekki eins og þetta hefði verið draumur en þetta var það sem áhugi minn beindist að,“ segir hann.
Segist hann m.a. hafa valið nám með þetta í huga og nefnir að það sé einn kosturinn við Ísland að fólk hafi tækifæri til að finna kröftum sínum viðnám við það sem það hafi áhuga á.
„Það er svo æðislegt einmitt í frjálsum opnum samfélögum. Fyrir Sjálfstæðisflokkinn og okkar hugmyndafræði er að tryggja að sem flestir geti fundið kröftum sínum viðnám í því sem þeir hafa áhuga á. Hamingjan einmitt felst í þessu. Í kjarnanum í sjálfstæðisstefnunni er akkúrat þessi hugsun,“ segir hann en hann fór í prófkjör í aðdraganda kosninga 2007 og tekur í framhaldi af því sæti á Alþingi.
„Ég er mjög prófkjörsmegin í umræðinni. Ég tel að það sé betra fyrir Sjálfstæðisflokkinn að hafa prófkjör út af tvennu. Prófkjör eru til þess fallin að vekja athygli á frambjóðendunum og athygli á flokknum. Hann fer í umræðu. Þeir sem eru að bjóða sig fram leggja sig fram um að koma sínum sjónarmiðum og sjónarmiðum flokksins á framfæri í prófkjörsbaráttunni. Það skiptir máli en það er líka það að við sjáum í prófkjörunum svolítið úr hverju frambjóðendur eru gerðir,“ segir Illugi sem er mikill fylgismaður þess að prófkjör séu meginreglan við að stilla upp framboðslistum.
„Prófkjör eru ekki gallalaus – ég er alveg klár á því. En ég held að þau séu betur til þess fallin að laða fram talent og ég held að þau séu lýðræðislegri. Þú þarft þá ekki að vera vinur flokksforystunnar til þess að komast áfram. Ég held að Sjálfstæðisflokkurinn, þó það sé ekki alltaf nauðsynlegt, en ég held að það eigi að vera meginreglan heldur en hitt,“ segir hann.
Mennta- og menningarmálaráðherra 2013-2017
Illugi verður mennta- og menningarmálaráðherra árið 2013 og gegnir því starfi til ársins 2017 þegar hann lét af þingmennsku.
„Það er þannig á Íslandi í það heila að það er ekki mikil hugmyndafræðileg átök um menntun. Að hluta til held ég að það sé af því að það er erfitt að koma því við allsstaðar við á landinu hugmyndum um einkaskóla, það er hægt meira heldur en við gerum, en í það heila þá held ég að það sé tiltölulega mikil samstaða á grunnskólastiginu og framhaldsskólastiginu það fyrirkomulag sem við höfum í það heila. Ég held þó að við myndum hagnast á því öll ef við hefðum fleiri sjálfstætt rekna skóla, sérstaklega á grunnskólastiginu. Það væru fleiri valkostir fyrir fólk. Við sjáum þetta á leikskólastiginu. Þar höfum við stóran hluta barna í sjálfstætt reknum leikskólum, Hjallastefnan sérsaklega. Hugmyndafræðilega held ég að það sé þátturinn í þessu,“ segir Illugi spurður út í árin í menntamálaráðuneytinu.
„Ég held að það sé mjög rík samstaða um það að við viljum hafa menntakerfi sem að er opið öllum, með jafnan aðgang o.frv. Það er meira bara þessi spurning um hvernig við gerum það. Ég myndi ekki segja að ég hefði fairð inn í menntamálaráðuneytið með mjög stóra hugmyndafræðilega nálgun. Það sem blasti við mér þegar ég kom þangað inn voru málefni sem m.a. sneru að framhaldsskólunum, tónlistarmenntun í landinu, en framhaldsskólinn að stórum hluta. Eins á háskólastiginu. Þetta voru þættirnir sem maður var að horfa á í menntamálaráðuneytinu,“ segir hann.
Hann nefnir einnig grunnskólann varðandi árangur, læsi og stærðfræðikunnáttu.
„Það eru ekki stórar hugmyndafræðilegar deilur um hvernig kenna eigi lestur, það eru deilur en þær eru ekki pólitískar. Á að nota aðferðafræði byrjendalæsis eða hefðbundna hljóðkennslu? Það eru svoleiðis tæknilegar umræður,“ segir hann.
Hann ræddi einnig breytingar á framhaldsskólum úr fjórum árum í þrjú ár.
„Ef þú hugsar um framhaldsskólakerfið á Íslandi árið 2014. Ef maður skoðaði opinber gögn um það þá sátum við á botninum af OECD ríkjunum á mörgum mælikvörðum. Í fyrsta lagi vorum við eina landið í OECD sem tók 14 ár í að undirbúa barn sem fóru í gegnum grunnskóla og framhaldsskóla. Helmingurinn af OECD ríikjunum leysti þetta á 13 árum og hinn helmingurinn á 12 árum. Við vorum með kerfi sem tók lengri tíma,“ segir hann.
Þá hafi brottfallið einnig mest verið hér og námsframvindan hafi verið mun lakari.
„Sem dæmi þá var það þannig í Danmörku á þeim tíma að 60% af nemendum kláruðu framhaldsskóla 19 ára, á þremur árum eins og til var ætlast. Við náðum þessu 60% marki þegar krakkarnir okkar voru 22 ára. Þegar ég segi var framhaldsskólinn var næstum því eins og 6 ár er ég að vísa til þess,“ segir hann.
Hann segir að það hafi lengi verið rætt um að breyta kerfinu hér eða í næstum 30 ár á undan. En það hafi aldrei tekist að klára það gagnvart kennurum og verkalýðsfélögum þeirra annars vegar og hins vegar pólitískt.
„Okkur tókst að gera breytingar í kjarasamningum gagnvart kennurunum að lengja skólaárið og opna það betur. Afnema skilin á milli prófa og kennslutíma og fleiri þættir sem gerðu að verkum að við gátum tæknilega ráðist í þetta verkefni. Það var mjög mikil vinna sem fór í þetta. Ég fór um landið, held að ég hafi haldið 32 opna fundi í öllum þéttbýliskjörnum landsins þar sem ég var að kynna þessar hugmyndir ásamt því sem við vorum að ræða varðandi læsi. Það sem blasti við var að krakkar sem ná ekki tökum á lestri þegar þau koma upp úr grunnskóla þeim mun ekki farnast vel í framhaldsskóla. Þú þarft að laga gæðin í grunnskólanum og svo endurskipuleggja fyrirkomulagið í framhaldsskólanum,“ segir Illugi.
Segist hann hafa tekið eftir því við lestur opinberra gagna að námsframvinda hér hafi batnað mikið og að við séum að ná á svipaðan stað og Danir sem sé gríðarlegur árangur og að brottfall sé minna.
„Þessi breyting þegar upp er staðið virðist hafa gengið ágætlega eftir,“ segir Illugi.
Hefði viljað byrja fyrr á breytingum á LÍN
„Eitt af því sem ég hefði viljað byrja fyrr voru breytingar á Lánasjóði íslenskra námsmanna. Þegar ég fór að setja mig inn í það mál, ég hafði ekki hugsað um það síðan ég var í stúdentapólitíkinni og var vel inni í þessu. Svo kemur maður inn í ráðuneytið og fer að hugsa um þetta. Það sem blasti við manni var að það voru miklir styrkir í gamla kerfinu. Ríkið lánaði út ákveðna upphæð en fær miklu minna til baka. Mismunurinn er styrkur. Spurningin er hvernig sá styrkur dreifðist – hverjir fengu styrkinn. Það kerfi var mjög ógagnsætt og ekkert endilega réttlátt,“ segir Illugi spurður að því hvort það sé eitthvað sem hann hefði viljað gera öðruvísi sem ráðherra.
„Ég hugsaði með mér að það væri skynsamlegra að afmarka að þessi styrkur, mismunur á því sem er greitt til baka og lánað út, við skulum reyna að taka þann hluta og gera hann gagnsæjan, þ.e.a.s. hvernig hann er ákveðinn og hvert hann rennur. Þannig sé hægt að taka ákvörðun um upphæð hans, ef menn vilja hækka eða lækka eftir atvikum. Við lögðum heilmikla vinnu í þetta en ég hefði viljað byrja á henni strax. Það leið alveg eitt ár rúmlega áður en við virkilega fórum af stað í þessa vinnu. Það var ekki af því að við værum ekki að vinna að lánasjóðnum, það var bara fullt annað sem þurfti að gera á undan,“ segir hann.
Hafði gamaldags sýn á RÚV
„Ég hef auðvitað velt mikið fyrir mér málefnum Ríkisútvarpsins. Ég setti þegar var um ár eftir hjá mér af stað vinnunefnd sem hafði það verkefni að skoða rekstur Ríkisútvarpsins. Það voru ekkert allir hamingjusamir með að það væri gert. Það var ekki húrrahróp í kringum það. Það kom áhugaverð skýrsla út úr þeirri vinnu. Í framhaldi setti ég af stað áframhaldandi vinnu varðandi hvernig ætti að huga að stöðu sjálfstæðu fjölmiðlanna. Ég held að ég hafi alveg verið svolítið, innan gæsalappa, sekur um að hafa svolítið gamla sýn á Ríkisútvarpið. Ég var alltaf þeirrar skoðunar að Ríkisútvarpið væri nauðsynlegt út frá menningarlegu hlutverki,“ segir Illugi.
Hann hafi talið mikilvægt fyrir þjóðina að hafa þannig fjölmiðil, þáttagerð í sjónvarpi um íslenska menningu og sögu og eins Rás1. Þetta væri gluggi út í heiminn og að það gæti reynst erfitt fyrir einkarekna fjölmiðla í litlu markaðsumhverfi að sinna slíku.
„Það var mín nálgun á þessa stofnun. Eftir á að hyggja þá held ég að ég hafi verið aðeins of gamaldags hvað það varðar. Ég hef orðið hrifnari af hugmyndinni um menningarsjóð, taka það fjármagn sem við setjum til Ríkisúvarpsins og endurskoða hvernig við náum þeim markmiðum sem við setjum okkur varðandi stuðning við íslenska menningu og hvernig við náum því best fram,“ segir hann.
Hann segir að í dag með tæknibreytingum og efnisveitum sé þessi heimur breyttur.
„Ég hefði viljað fara aðeins fyrr í þessa vinnu í kringum Ríkisútvarpið. Hún er pólitískt svolítið flókin af því að um leið og þú ferð að tala um þetta þá gerist svolítið, fréttirnar fara að líta öðruvísi út um þig af því að kerfið, hvort sem er Ríkissjónvarpið eða annað þau verja sig alltaf. Það er eðli þeirra. Ekki af því að það sé vont fólk þarna inni heldur af því að svona virka kerfin. En ég held að það sé að myndast og muni gera út af tæknibreytingunum þá mun þessi þróun halda áfram frá hinu línulega yfir í þessar efnisveitur og við munum á einhverjum tímapunkti standa frammi fyrir þessari spurningu: Er ekki hægt að gera þetta betur, nýta þessa fjármuni betur og gera meira úr þeim?“ segir hann.
Þá nefnir hann fréttastofu RÚV og veltir því upp hvort einkareknum fjölmiðlum sé ekki treystandi fyrir því að flytja fréttir, veita aðgang að innlendum og erlendum fréttum og skapa grundvöll fyrir umræðu í samfélaginu, hvort það verði að vera ríkisrekin fréttastofa. Núverandi kerfi hjá RÚV sé byggt upp í kringum 1930 með útvarpinu og svo 1966 með sjónvarpinu. Það hafi í grundvallaratriðum ekki breyst mikið síðan en að tæknibreytingar muni hafa áhrif.
„Varðandi Ríkisútvarpið sem gerði að verkum að ég var að hugsa um mikilvægi þess á þessum árum og er enn snýr að þessu sameiginlega og sameinandi í samfélaginu. Þar er ég ekki að tala um fréttirnar. Ég held í eðli sínu að þær séu meira sundrandi. Það er íslensk saga, íslensk menning og íslenskt mál. Þetta skiptir máli ekki bara á tyllidögum og til skrauts heldur er þetta kjarni þess til að geta látið lýðræðið virka í samfélagi þá þarf að vera nægilega mikið sameiginlegt til þess að við getum tekið sameiginlegar ákvarðanir. Geta haft sameiginleg viðmið og skilið hvort annað í samtali og það sem meira er að við sættum okkur við það til dæmis að tapa kosningum. Þeir sem að sigra eiga nægilega mikið sameiginlegt með okkur að það sé alveg hægt að lifa við þeirra stjórn,“ segir Illugi.
Hagkerfið verður alltaf auðlindadrifið
„Við erum ótrúlega heppin þjóð í góðu landi. Tækifærin sem eru á Íslandi eru rosa lega mikil. Þau meira og minna standa og falla með hvernig okkur tekst að skipuleggja okkur. Ef við horfum til baka í Íslandssögunni þá er þetta svo oft grátleg lesning. Maður sér öll þessi tækifæri sem voru hérna. Þau blöstu við svona eftir á að hyggja. En okkur tókst ekki að nýta út af allskonar kerfislægum þáttum,“ segir Illugi þegar umræðan barst að efnahagsmálunum.
„Ísland er og verður auðlindadrifið hagkerfi. Ég held að í því sé fólgið stórkostlegt tækifæri. Sú hugsun að auðlindirnar séu afmarkaðar og það sé bara takmarkað sem hægt sé að fá út úr þeim, maður sér stundum þessa umræðu að það sé ekki gott að vera auðlindadrifið hagkerfi af því að þetta sé takmarkað. Sú umræða er mjög röng. Við sjáum það í því varðandi fiskveiðarnar. Það eru mikil verðmæti fólgin í fiskinum sjálfun og að verka hann og selja sem matvæli. En það eru allskonar önnur starfssemi, afleidd, þar sem við tökum vísindi og tækni og beitum henni á auðlindina og áfram inn í viðskipti og markað. Við eigum tækifæri til að búa til miklu miklu meiri verðmæti heldur en raunverulega eru búin við varðandi fiskveiðarnar,“ segir hann.
Hann segir að möguleikar manna á að nýta fiskveiðiauðlindina sé ekki bara í höndum þeirra sem búa við kvóta og eiga sóknarrétt á fiskinn.
„Verðmætin sem fólgin eru í þessari auðlind eru miklu miklu meiri. Þau nýtast þegar mönnum tekst að nota vísindi, tækni, þekkingu og beita því á þessa auðlind og uppgvötva nýja hluti. Um það eru mjög nýleg dæmi í okkar hagkerfi. Ég held að maður geti verið mjög bjartsýnn á íslensk efnahagsmál hvað þetta varðar. Ef að við erum dugleg að leggja áherslu á vísindi og rannsóknir annars vegar og hins vegar að við séum með gott kerfi í kringum auðlindanýtinguna okkar. Þá sé ég sem hægri maður að ég vil séreign sem mest á þessu, þess vegna styð ég kvótakerfið. Fyrir mér gengur það fullkomnlega upp. Það er þjóðin sem á fiskimiðin og fiskistofnana. En það er sér eign á nýtingunni. Rétt eins og við Íslendingar eigum Ísland en það er séreign bændanna á nýtingu á þeim afmörkuðu jarðarskikum sem þeir hafa. Það eru ekki aðrir sem geta slegið túnin og farið burt með grasið. Það er eins með sjávarútveginn. Við eigum þetta saman en nýtingarrétturinn er í einkaeigu. Ég held að það skipti rosalega miklu máli varðandi framtíð okkar efnahagsmála að við búum vel og skynsamlega að auðlindanýtingunni,“ segir Illugi
Með því ýtum við undir fjárfestingu, undir rannsóknir og að fólk sé til í að taka áhættu og reyni að finna nýjar auðlindir. Hann bendir á að auðlindir séu ekki auðlindir fyrr en fólki takist að búa til auð úr þeim.
„Auðlind verður ekki auðlind fyrr en einhver getur skapað út henni auð. Það gerist ekki sjálfkrafa. Ég held reyndar að það sé ákveðið vandamál vinstra megin af því að fólk hefur öðruvísi bakgrunn og reynslu og lítur svo á að það sé sjálfgefið hvað er auðlind,“ segir Illugi.
„Ef að sú hugsun fer að grípa um sig að allar auðlindir og þær auðlindir þar með sem ekki er búið að uppgvötva að þær séu fyrirfram eign ríkisins þá mun það hafa áhrif á vilja manna til að fjárfesta og vilja fólks til þess að leita lausna til þess að gera lindina að auðlind. Lindin eins og sér, ef maður notar það þannig, hún býr ekki til auð. Fiskur sem syndir í hafinu hefur ekkert gagn nema þegar það er hægt að veiða hann með lægri tilkostnaði heldur en hægt er að fá fyrir hann á markaði. Það gerist ekki af sjálfu sér. Mér hefur fundist umræðan um auðlindanýtingu vera pínulítið komin á villugötur. Maður sér þetta á ýmsum sviðum, þegar farið er að tala jafnvel um að fiskarnir í fiskeldinu séu einhvernvegin þjóðareign sem er auðvitað fráleit hugsun,“ segir hann.
Hann ræðir ferðaþjónustu og segist ekki vilja að hún verði ein aðal stoðin í hagkerfinu.
„Þegar ég horfi í kringum mig í verlöldinni að lönd þar sem ferðaþjónusta er stór hluti hagkerfanna að þau eru ekki rík. Það er einkenni af þeim. Ég veit ekki alveg með land sem byggir allt sitt af ferðaþjónustu sem er ríkt. Við sjáum það í löndum núna sem við Íslendingar erum að fara oft þar sem almenningur á þessum stöðum er að streytast gegn þessum atvinnugreinum. Með öðrum öðrum það hefur að gera með húsnæðisverð umframeftirspurn eftir húsnæði sem gerir húsnæðið verðmeira heldur en launastigið stendur undir. Ýmsir svona neikvæðir þættir sem skipta máli. Þess vegna held ég að ferðaþjónustan sé ágæt með en hún má ekki verða of umsvifamikil,“ segi hann.
„Reyndar tel ég að eitt af því sem þurfi að gerast og ég veit að þeir sem eru í ferðaþjónustu elska ekki það sem ég ætla að segja núna, en ég er hvort sem er hættur í pólitík, ég held að við þurfum að fara í kerfi þar sem við rukkum fyrir náttúruauðlindir. Mér finnst alveg fráleitt að fólk komi hingað til Íslands til að skoða Gullfoss, Geysi og annað án þess að borga fyrir það,“ segir hann.
„Þeir sem eru að koma hingað til þess að skoða íslenska náttúru verða að borga fyrir það. Þar með myndast kaptal. Þar með myndast meiri hagnaður. Það verða færri ferðamenn, ég geri mér grein fyrir því, en markmiðið er ekki fjöldi ferðamanna. Markmiðið er hagnaður. Ég átta mig á því að þetta er ekki vinsæl skoðun en til lengri tíma fyrir Ísland held ég að það sé betra að gera þetta svona, byggja meira á framleiðslu, orkunýtingunni, auðlindunum, framleiðslu úr þeim með vísindum og tækni. Ferðaþjónustan mjög góð með, alveg frábær og fyrir ákveðin svæði á landinu gríðarlega mikilvæg. Ég er alls ekki með nokkrum hætti að gera lítið úr því. En ef þetta þróast þannig að hún verði einhverskonar burðarás íslensks efnahagslífs yrði ég ekki ánægður með það. Ég myndi telja að það væri ekki leiðin sem við ættum að fara,“ segir hann.
Þáttinn má nálgast á Spotify hér.