Samfélagi jafnra tækifæra ógnað
'}}

Óli Björn Kárason þingmaður Sjálfstæðisflokksins:

Það er al­var­leg­ur mis­skiln­ing­ur að halda að skipu­lag og gæði grunn­skól­ans – og raun­ar mennta­kerf­is­ins alls – sé einka­mál sam­taka kenn­ara, emb­ætt­is­manna í ráðuneyti mennta­mála eða sér­fræðinga í und­ir­stofn­un­um. Mennt­un er eitt mik­il­væg­asta sam­eig­in­lega verk­efni okk­ar allra. Bætt lífs­kjör byggj­ast á mennt­un enda grunn­ur ný­sköp­un­ar og vís­inda. Öflugt mennta­kerfi styrk­ir sam­keppn­is­hæfni lands­ins.

Grunn­skól­inn er horn­steinn mennta­kerf­is­ins. Fyrr í þess­um mánuði gerði ég hnign­un grunn­skól­ans að um­tals­efni í pistli hér í Morg­un­blaðinu. Til­efnið var sér­lega fróðlegt viðtal við Jón Pét­ur Zimsen, aðstoðarskóla­stjóra Rétt­ar­holts­skóla, í Dag­mál­um mbl.is. Þar skrifaði ég meðal ann­ars:

„Mennta­kerfið er beitt­asta og skil­virk­asta verk­færið sem hvert sam­fé­lag hef­ur til að tryggja jöfn tæki­færi óháð efna­hag, upp­runa, bú­setu eða fjöl­skyldu­hög­um. Bregðist grunn­skól­inn verður verk­færið bit­lítið. Kerfið er að svipta börn tæki­fær­um til að rækta hæfi­leika sína og njóta þeirra.“

Myrk­ur leynd­ar­inn­ar

Mennta- og barna­málaráðuneytið hef­ur kynnt áform um breyt­ing­ar á lög­um um grunn­skóla þar sem ráðherra fær heim­ild „til að afla gagna um stöðu nem­enda og skóla­kerf­is­ins í stað sam­ræmdra könn­un­ar­prófa og inn­leiða mats­fer­il sem nýtt náms­mats­fyr­ir­komu­lag“. Svo­kallað áforma­skjal var birt í sam­ráðsgátt stjórn­valda 5. júlí síðastliðinn. Þegar þetta er skrifað hafa átta um­sagn­ir borist.

Í frétt Morg­un­blaðsins síðastliðinn fimmtu­dag kom fram að nýja sam­ræmda náms­matið – mats­fer­ill – sem á að leysa sam­ræmdu próf­in af hólmi verði ekki inn­leitt að fullu fyrr en skóla­árið 2026 til 2027. „Verða þá að minnsta kosti sex ár liðin frá því að hæfni grunn­skóla­nema í lestri og stærðfræði var síðast könnuð inn­an­lands með sam­ræmdri mæl­ingu á landsvísu,“ seg­ir í frétt­inni. Og leynd­ar­hyggj­an verður áfram við völd því „óheim­ilt verður að birta op­in­ber­lega niður­stöður ein­stakra skóla eða sveit­ar­fé­laga úr mats­ferl­in­um svo ekki verður hægt að gera sam­an­b­urð þar á milli. Munu skól­ar aðeins fá upp­lýs­ing­ar um hvernig þeir standi gagn­vart landsmeðaltal­inu.“

For­eldr­ar verða því áfram í myrkr­inu og kenn­ar­ar fá að því er virðist ekki mikið meiri upp­lýs­ing­ar.

Kannski á leynd­ar­hyggj­an ekki að koma á óvart. Mennta­málaráðuneytið hef­ur neitað að birta niður­stöður PISA-kann­ana. For­stjóri Miðstöðvar mennt­un­ar og skólaþjón­ustu tel­ur sam­keppni skóla af hinu vonda. „En það er ekki góðs viti að fara að búa til ein­hvers kon­ar sam­keppni milli skóla,“ sagði for­stjór­inn í sam­tali við Morg­un­blaðið.

Sem sagt: Það á með öll­um til­tæk­um ráðum að koma í veg fyr­ir að upp­lýs­ing­ar um ár­ang­ur ein­stakra skóla verði birt­ar, enda væri með því ýtt und­ir sam­keppni milli skóla og þar með aukið aðhald for­eldra. „Kerfið“ ótt­ast að ef hægt verði að bera sam­an skóla fái kraf­an um val­frelsi for­eldra um skóla eig­in barna byr und­ir báða vængi. Val­frelsi sam­hliða jafn­rétti til náms verður ekki án þess að tryggt sé að fé fylgi hverj­um nem­anda. Skól­ar keppa ekki aðeins um nem­end­ur held­ur ekki síður um kenn­ara. Þeir fjöl­mörgu af­burðakenn­ar­ar sem starfa inn­an mennta­kerf­is­ins fá loks að njóta hæfi­leika sinna og rétt­látr­ar umb­un­ar. Kald­ur hroll­ur fer um allt „kerfið“ við til­hugs­un­ina um val­frelsi for­eldra og hvetj­andi um­hverfi fyr­ir kenn­ara.

Jafn­ræðis ekki gætt

Hvort sem okk­ur lík­ar það bet­ur eða verr þá er hnign­un grunn­skól­ans staðreynd. Þar að baki geta verið nokkr­ar sam­verk­andi ástæður. Í um­sögn um áform um nýtt fyr­ir­komu­lag náms­mats bend­ir Viðskiptaráð á að frá því að sam­ræmd próf voru lögð niður árið 2009 hafi aft­ur­för ís­lenskra grunn­skóla­barna verið sam­felld: „Það ár hættu próf­in að skipta máli bæði fyr­ir nem­end­ur og starfs­fólk grunn­skól­anna, því þau höfðu hvorki þýðingu fyr­ir fram­gang í námi né við um­bót­astarf í skól­um. Niður­fell­ing­in er stærsta stefnu­breyt­ing sem gerð hef­ur verið á grunn­skóla­kerf­inu á þess­ari öld – og náms­ár­ang­ur­inn hef­ur legið niður á við all­ar göt­ur síðan.“

Í um­sögn Viðskiptaráðs kem­ur fram að Versl­un­ar­skóli Íslands (en ráðið er bak­hjarl skól­ans) hafi lagt könn­un­ar­próf fyr­ir ný­nema í upp­hafi skóla­árs til að kanna raun­færni þeirra: „Sam­an­b­urður á niður­stöðum þess­ara prófa og skóla­ein­kunna hef­ur leitt í ljós mis­ræmi í skóla­ein­kunn­um. Nem­end­ur sumra grunn­skóla búa yfir góðri færni í sam­ræmi við skóla­ein­kunn­ir sín­ar, en nem­end­ur annarra grunn­skóla eru veik­ari á sama sviði þrátt fyr­ir að vera með sömu skóla­ein­kunn­ir.“

Það er rök­rétt hjá Viðskiptaráði að halda því fram að jafn­ræðis sé ekki gætt í grunn­skól­um lands­ins. Þegar stuðst er við ein­kunn­ir sem ekki eru sam­an­b­urðar­hæf­ar við val á um­sækj­end­um um fram­halds­skóla er börn­um mis­munað eft­ir bú­setu. Ein­kunna­verðbólga í hverf­is­skóla get­ur þannig ráðið tæki­fær­um barns til fram­halds­náms.

„Af­nám sam­ræmdra ár­ang­urs­mæli­kv­arða hef­ur þannig leitt til brots á jafn­ræði meðal grunn­skóla­barna,“ seg­ir Viðskiptaráð
og und­ir það skal tekið. Ráðið leggst gegn því að sam­ræmd könn­un­ar­próf verði end­an­lega
felld niður.

Það dug­ar ekki fyr­ir for­ystu Kenn­ara­sam­bands­ins að halda því fram að til­lög­ur Viðskiptaráðs séu gam­aldags. Það er ekki merki um úr­elta hugs­un að leita leiða til að tryggja jafn­ræði grunn­skóla­barna held­ur þvert á móti. Björg Pét­urs­dótt­ir, fyrr­ver­andi skrif­stofu­stjóri í mennta- og barna­málaráðuneyt­inu, seg­ir í um­sögn um vænt­an­leg­ar breyt­ing­ar á grunn­skóla­lög­un­um að mjög mik­il­vægt sé að ein­hver sam­ræmd mæl­ing fari fram inn­an grunn­skóla­kerf­is­ins. „Það auðveld­ar skóla­yf­ir­völd­um að veita skól­um fag­leg­an stuðning við hæfi sem er um leið ein for­senda jafn­rétt­is til náms óháð bú­setu.“

For­eldr­ar geta ekki setið þegj­andi hjá ef brotið er á börn­um og jafn­ræðis ekki gætt. Stjórn­mála­menn hafa ekki leyfi til að sitja með hend­ur í skauti og láta reka á reiðanum.

End­ur­reisn grunn­skól­ans er próf­steinn á hvort við höf­um getu til þess að leysa sam­eig­in­lega flókið verk­efni. Það er mikið und­ir. Sam­fé­lagi jafnra tæki­færa er ógnað á meðan grunn­skól­inn stend­ur ekki traust­um fót­um. Mennt­un er lyk­ill barn­anna að framtíðinni.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 24. júlí 2024.