Óli Björn Kárason þingmaður Sjálfstæðisflokksins:
Það er alvarlegur misskilningur að halda að skipulag og gæði grunnskólans – og raunar menntakerfisins alls – sé einkamál samtaka kennara, embættismanna í ráðuneyti menntamála eða sérfræðinga í undirstofnunum. Menntun er eitt mikilvægasta sameiginlega verkefni okkar allra. Bætt lífskjör byggjast á menntun enda grunnur nýsköpunar og vísinda. Öflugt menntakerfi styrkir samkeppnishæfni landsins.
Grunnskólinn er hornsteinn menntakerfisins. Fyrr í þessum mánuði gerði ég hnignun grunnskólans að umtalsefni í pistli hér í Morgunblaðinu. Tilefnið var sérlega fróðlegt viðtal við Jón Pétur Zimsen, aðstoðarskólastjóra Réttarholtsskóla, í Dagmálum mbl.is. Þar skrifaði ég meðal annars:
„Menntakerfið er beittasta og skilvirkasta verkfærið sem hvert samfélag hefur til að tryggja jöfn tækifæri óháð efnahag, uppruna, búsetu eða fjölskylduhögum. Bregðist grunnskólinn verður verkfærið bitlítið. Kerfið er að svipta börn tækifærum til að rækta hæfileika sína og njóta þeirra.“
Myrkur leyndarinnar
Mennta- og barnamálaráðuneytið hefur kynnt áform um breytingar á lögum um grunnskóla þar sem ráðherra fær heimild „til að afla gagna um stöðu nemenda og skólakerfisins í stað samræmdra könnunarprófa og innleiða matsferil sem nýtt námsmatsfyrirkomulag“. Svokallað áformaskjal var birt í samráðsgátt stjórnvalda 5. júlí síðastliðinn. Þegar þetta er skrifað hafa átta umsagnir borist.
Í frétt Morgunblaðsins síðastliðinn fimmtudag kom fram að nýja samræmda námsmatið – matsferill – sem á að leysa samræmdu prófin af hólmi verði ekki innleitt að fullu fyrr en skólaárið 2026 til 2027. „Verða þá að minnsta kosti sex ár liðin frá því að hæfni grunnskólanema í lestri og stærðfræði var síðast könnuð innanlands með samræmdri mælingu á landsvísu,“ segir í fréttinni. Og leyndarhyggjan verður áfram við völd því „óheimilt verður að birta opinberlega niðurstöður einstakra skóla eða sveitarfélaga úr matsferlinum svo ekki verður hægt að gera samanburð þar á milli. Munu skólar aðeins fá upplýsingar um hvernig þeir standi gagnvart landsmeðaltalinu.“
Foreldrar verða því áfram í myrkrinu og kennarar fá að því er virðist ekki mikið meiri upplýsingar.
Kannski á leyndarhyggjan ekki að koma á óvart. Menntamálaráðuneytið hefur neitað að birta niðurstöður PISA-kannana. Forstjóri Miðstöðvar menntunar og skólaþjónustu telur samkeppni skóla af hinu vonda. „En það er ekki góðs viti að fara að búa til einhvers konar samkeppni milli skóla,“ sagði forstjórinn í samtali við Morgunblaðið.
Sem sagt: Það á með öllum tiltækum ráðum að koma í veg fyrir að upplýsingar um árangur einstakra skóla verði birtar, enda væri með því ýtt undir samkeppni milli skóla og þar með aukið aðhald foreldra. „Kerfið“ óttast að ef hægt verði að bera saman skóla fái krafan um valfrelsi foreldra um skóla eigin barna byr undir báða vængi. Valfrelsi samhliða jafnrétti til náms verður ekki án þess að tryggt sé að fé fylgi hverjum nemanda. Skólar keppa ekki aðeins um nemendur heldur ekki síður um kennara. Þeir fjölmörgu afburðakennarar sem starfa innan menntakerfisins fá loks að njóta hæfileika sinna og réttlátrar umbunar. Kaldur hrollur fer um allt „kerfið“ við tilhugsunina um valfrelsi foreldra og hvetjandi umhverfi fyrir kennara.
Jafnræðis ekki gætt
Hvort sem okkur líkar það betur eða verr þá er hnignun grunnskólans staðreynd. Þar að baki geta verið nokkrar samverkandi ástæður. Í umsögn um áform um nýtt fyrirkomulag námsmats bendir Viðskiptaráð á að frá því að samræmd próf voru lögð niður árið 2009 hafi afturför íslenskra grunnskólabarna verið samfelld: „Það ár hættu prófin að skipta máli bæði fyrir nemendur og starfsfólk grunnskólanna, því þau höfðu hvorki þýðingu fyrir framgang í námi né við umbótastarf í skólum. Niðurfellingin er stærsta stefnubreyting sem gerð hefur verið á grunnskólakerfinu á þessari öld – og námsárangurinn hefur legið niður á við allar götur síðan.“
Í umsögn Viðskiptaráðs kemur fram að Verslunarskóli Íslands (en ráðið er bakhjarl skólans) hafi lagt könnunarpróf fyrir nýnema í upphafi skólaárs til að kanna raunfærni þeirra: „Samanburður á niðurstöðum þessara prófa og skólaeinkunna hefur leitt í ljós misræmi í skólaeinkunnum. Nemendur sumra grunnskóla búa yfir góðri færni í samræmi við skólaeinkunnir sínar, en nemendur annarra grunnskóla eru veikari á sama sviði þrátt fyrir að vera með sömu skólaeinkunnir.“
Það er rökrétt hjá Viðskiptaráði að halda því fram að jafnræðis sé ekki gætt í grunnskólum landsins. Þegar stuðst er við einkunnir sem ekki eru samanburðarhæfar við val á umsækjendum um framhaldsskóla er börnum mismunað eftir búsetu. Einkunnaverðbólga í hverfisskóla getur þannig ráðið tækifærum barns til framhaldsnáms.
„Afnám samræmdra árangursmælikvarða hefur þannig leitt til brots á jafnræði meðal grunnskólabarna,“ segir Viðskiptaráð
og undir það skal tekið. Ráðið leggst gegn því að samræmd könnunarpróf verði endanlega
felld niður.
Það dugar ekki fyrir forystu Kennarasambandsins að halda því fram að tillögur Viðskiptaráðs séu gamaldags. Það er ekki merki um úrelta hugsun að leita leiða til að tryggja jafnræði grunnskólabarna heldur þvert á móti. Björg Pétursdóttir, fyrrverandi skrifstofustjóri í mennta- og barnamálaráðuneytinu, segir í umsögn um væntanlegar breytingar á grunnskólalögunum að mjög mikilvægt sé að einhver samræmd mæling fari fram innan grunnskólakerfisins. „Það auðveldar skólayfirvöldum að veita skólum faglegan stuðning við hæfi sem er um leið ein forsenda jafnréttis til náms óháð búsetu.“
Foreldrar geta ekki setið þegjandi hjá ef brotið er á börnum og jafnræðis ekki gætt. Stjórnmálamenn hafa ekki leyfi til að sitja með hendur í skauti og láta reka á reiðanum.
Endurreisn grunnskólans er prófsteinn á hvort við höfum getu til þess að leysa sameiginlega flókið verkefni. Það er mikið undir. Samfélagi jafnra tækifæra er ógnað á meðan grunnskólinn stendur ekki traustum fótum. Menntun er lykill barnanna að framtíðinni.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 24. júlí 2024.