Aukið vald heim í hérað
'}}

Ragnar Sigurðsson oddviti Sjálfstæðisflokksins og formaður bæjarráðs Fjarðabyggðar:

Við þurf­um að leita allra leiða til að styrkja lýðræði á Íslandi og dreifa valdi í sam­fé­lag­inu.

Í nú­tíma­stjórn­sýslu er auk­in áhersla á ná­lægðarreglu. Hún mæl­ir fyr­ir um að æðra stjórn­vald geti ein­göngu aðhafst í þeim atriðum þar sem annað stjórn­vald get­ur ekki á full­nægj­andi máta náð mark­miðum án at­beina stjórn­valds­ins. Þessi krafa um ná­lægð er mik­il­væg lýðræði og sveit­ar­fé­lög­un­um.

Í fyrsta lagi er aukið vald sveit­ar­fé­laga þannig að ákv­arðanir eru tekn­ar eins ná­lægt og kost­ur gefst.

Í öðru lagi að dreifa valdi á stjórn­sýslu­stig dreg­ur úr mætti miðlægs yf­ir­valds.

Í þriðja lagi er hvatt til þátt­töku borg­ara í ákv­arðana­töku sem ýtir und­ir til­finn­ingu fyr­ir eign­ar­haldi og ábyrgð íbúa.

Í fjórða lagi hvet­ur ná­lægðarregl­an til auk­inn­ar skil­virkni. Sveit­ar­fé­lög eru bet­ur í stakk búin til að skilja og stjórna staðbundn­um mál­um.

Í fimmta lagi hef­ur ná­lægðarregla víða um heim tryggt til­lit varðandi sér­stak­ar þarf­ir í stjórn­un. Ákvarðanir tekn­ar í nánd varðveita sér­kenni dreif­býl­is­sam­fé­laga, sem miðstýrt vald lít­ur oft fram­hjá.

Hlut­verka­skipt­ing rík­is og sveit­ar­fé­laga

Hlut­verka­skipt­ing rík­is og sveit­ar­fé­laga, tekju­skipt­ing þeirra og sjálf­stæði sveit­ar­fé­lag­anna hef­ur oft verið þrætu­epli ís­lenskra stjórn­mála. Í orði hef­ur verið lögð áhersla á fjár­hags­legt sjálf­stæði sveit­ar­fé­laga, sjálf­stæða tekju­stofna og ábyrgð á eig­in mála­flokk­um.

Sjóðsárátta rík­is­valds­ins þar sem tekj­um til upp­bygg­ing­ar í héraði er skilað suður með til­heyr­andi rekstr­ar- og stjórn­un­ar­kostnaði sem sveit­ar­fé­lög­um er ætlað að sækja til með betlistaf.

Að sama skapi legg­ur rík­is­valdið aukn­ar kröf­ur og verk­efni á herðar sveit­ar­fé­lög­um án tekju­stofna. Slík­ar kröf­ur eru oft rædd­ar á Alþingi án mik­il­vægr­ar aðkomu sveit­ar­fé­laga sem ætlað er að standa und­ir kostnaðarsamri þjón­ustu en gefst kost­ur á að sækja fjár­muni í sjóði sam­kvæmt kröf­um rík­is­ins.

Sam­eig­in­leg ábyrgð

Þörf er á auknu sam­starfi rík­is og sveit­ar­fé­laga, ekki ein­vörðungu í formi verka­skipt­ing­ar held­ur einnig sam­eig­in­legr­ar ábyrgðar í efna­hags­mál­um. Efl­ing sveit­ar­stjórn­arstigs­ins kall­ar á ábyrgð og aukna sam­vinnu um op­in­bera hag­stjórn.

Sveit­ar­fé­lög­um ætti að vera meir í sjálfs­vald sett að ákv­arða út­deil­ingu fjár­muna sem til­heyra sjóðsstjórn­um. Jafn­framt ættu þau að hafa aukið frelsi til að ákveða álagn­ingu fast­eigna­gjalda vilji þau draga úr skatt­byrði án skerðing­ar úr jöfn­un­ar­sjóði.

Nýr sveit­ar­stjórn­arsátta­máli

Aukið frelsi, ákvörðun­ar­vald og ábyrgð heima í héraði ætti að vera upp­legg nýs sátt­mála fyr­ir sveit­ar­stjórn­arstigið á Íslandi. Sú sátt­ar­gjörð ætti að vera byggð á ná­lægðarreglu, auknu frelsi, meðal­hófi og ríkri ábyrgð. Styrk­ari sveit­ar­stjórn­ir stuðla að virk­ara lýðræði og betri stjórn­ar­hátt­um.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 30. júlí 2024.