Kjartan Magnússon borgarfulltrúi:
Fyrir komandi alþingiskosningar þarf að ræða hvort hækka eigi skatta á landsmenn enn frekar. Ljóst er að skattar verða hækkaðir, komist Samfylkingin til valda, eins og málflutningur þingmanna hennar sýnir. Þá er ekki launungarmál að flestir aðrir flokkar á Alþingi, þ.m.t. Framsóknarflokkur og VG, vilja fremur hækka skatta en lækka þá.
Reynslan er ólygnust. Síðasta vinstri stjórn, sem var við völd 2009-2013 stóð fyrir fjölmörgum skattahækkunum og jók þannig mjög álögur á almenning. Þessar hækkanir drógu úr framtaki einstaklinga og fyrirtækja og töfðu viðsnúning hagkerfisins eftir bankahrunið 2008. Verði vinstri stjórn mynduð eftir næstu kosningar mun hún höggva í sama knérunn og gera skattahækkanir að keppikefli sínu.
Skattalækkanir skila sér
Sjálfstæðisflokkurinn stendur hins vegar gegn skattahækkunum og hefur náð ýmsum árangri í þeim efnum síðastliðinn áratug. Nefna má afnám tolla (800 talsins), afnám milliþreps tekjuskatts, nýtt lægra þrep tekjuskatts, vísitölutengingu persónuafsláttar, lækkun almenna virðisaukaskattsþrepsins, lækkun bankaskatts, lækkun fjármagnstekjuskatts leigutekna, skattfrjálsa ráðstöfun séreignasparnaðar til lækkunar íbúðalána, frítekjumark fjármagnstekna, afnám stimpilgjalds af lánsskjölum og niðurfellingu almennra vörugjalda.
Efast má um að nokkur þessara skattalækkana hefði náð fram að ganga án frumkvæðis Sjálfstæðisflokksins. Nýlega var upplýst að vegna þessara lækkana hefðu einstaklingar greitt 333 milljörðum króna lægri tekjuskatt en ella hefði orðið undanfarinn áratug. Tryggingagjald og fjársýsluskattur á laun voru 190 milljörðum lægri og tollar og almenn vörugjöld 150 milljörðum lægri en ella hefði orðið. Það munar um minna fyrir skattgreiðendur.
Sjálfstæðisflokkurinn hefur vissulega orðið að gera margar málamiðlanir í skattamálum í núverandi ríkisstjórnarsamstarfi. Viðurkenna verður þá staðreynd að skattbyrði Íslendinga er afar þung og árið 2020 var hún hin næstmesta meðal OECD-ríkja.
Heildarútgjöld hins opinbera, sem hlutfall af landsframleiðslu, hafa hækkað mjög og eru nú sennilega hæst á Íslandi meðal aðildarríkja OECD. Námu þau 42,5% af vergri landsframleiðslu Íslendinga árið 2021 en meðaltal OECD ríkjanna nam 34%. (Útgjöld til varnarmála og lífeyrismála eru undanþegin í þessum útreikningi til að auðvelda samanburð við önnur ríki.)
Stöðvun skattahækkana
Margir þingmenn eru reiðubúnir til að samþykkja lög eða viljayfirlýsingar um ófjármögnuð verkefni, sem fela í sér stóraukin opinber útgjöld. Verði verkefnin að veruleika er ljóst að þau lenda á almenningi með einum eða öðrum hætti og þyngja þannig skattbyrðina.
Brýnt er að Sjálfstæðisflokkurinn komi í veg fyrir þær skattahækkanir, sem óhjákvæmilegar eru ef ráðist yrði í margvísleg óarðbær opinber verkefni, sem hugmyndir eru uppi um. Flokkurinn þarf að gefa skýrt loforð um að skattar muni a.m.k. ekki hækka frekar undir hans stjórn.
Danska skattastoppið
Fyrirmynd í þessu efni gæti verið svonefnt skattastopp, sem borgaraflokkarnir í Danmörku beittu sér fyrir á árunum 2001-2009 undir stjórn Anders Fogh-Rasmussen forsætisráðherra. Aðgerðinni var í upphafi beint gegn tillögum þáverandi stjórnar jafnaðarmanna, sem boðaði frekari skattahækkanir.
Skattastopp borgaraflokkanna fól í sér að horfið var frá öllum fyrirætlunum um hækkun skatta. Tilfærsla á skattbyrði var ekki útilokuð en ríkisstjórnin lofaði því að ef hún neyddist til að hækka einhvern skatt eða gjald, myndu tekjurnar renna óskiptar til að lækka annan skatt eða gjald á móti. Hugsunin var sú að skatt- og gjaldabyrðin yrði ekki aukin
Einn helsti sérfræðingur Dana í skattamálum, hagfræðingurinn og rithöfundurinn Otto Brøns-Petersen, flutti fyrir skömmu fróðlegt erindi hérlendis, á vegum Rannsóknarmiðstöðvar um samfélags- og efnahagsmál, um reynslu Dana af umbótum í hagkerfinu. Þar kom fram að árangur af umbótum borgaraflokkanna hefði verið góður. Stöðvun skattahækkana hefði leitt af sér nýjan þankagang og skilyrði voru sköpuð til að auka atvinnufrelsi og lækka skatta. Það hefði örvað hagvöxt og haft margvísleg áhrif til góðs fyrir danskt samfélag.
Við Íslendingar getum litið til góðrar reynslu Dana í þessum efnum. Að lágmarki þarf að gefa skýrt loforð um að skattar og aðrar opinberar álögur aukist ekki frekar. Æskilegast væri þó að lækka skattana.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 25. júlí 2024.