Stefanía Kolbrún Ásbjörnsdóttir hefur verið ráðin framkvæmdastjóri þingflokks Sjálfstæðisflokksins.
Stefanía er hagfræðingur með BS-gráðu frá Háskóla Íslands og meistaragráðu frá Barcelona School of Economics. Hún starfaði áður sem hagfræðingur á efnahagssviði Samtaka atvinnulífsins frá árinu 2018 ásamt því að sinna kennslu við hagfræðideild Háskóla Íslands og viðskiptafræðideild Háskólans í Reykjavík.
Hjá SA sinnti Stefanía ýmiss konar greiningarvinnu, greinaskrifum og kynningum í tengslum við gerð kjarasamninga og efnahags- og atvinnulífsmál almennt. Stefanía hefur jafnframt sinnt fjölmörgum félagsstörfum og stóð meðal annars að stofnun Hagsmunafélags kvenna í hagfræði.
„Ég er full tilhlökkunar fyrir komandi þingvetri og að takast á við þau ýmsu spennandi og krefjandi verkefni sem fram undan eru, með öllu því góða fólki sem starfar fyrir þingflokk Sjálfstæðisflokksins, svo ekki sé minnst á þingmenn flokksins,“ segir Stefanía.
Hún tekur við starfinu af Tryggva Mássyni sem hefur verið ráðinn til þess að fara fyrir viðskiptaþróun hjá Klíníkinni.