Efnahagsstefnan fær fyrstu einkunn

Efnahagsstefna Íslands fær fyrstu einkunn í árlegri skýrslu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (AGS) auk þess sem þar kemur fram að aðhald peninga- og ríkisfjármálastefnu sé nokkuð hæfilegt og að efnahagshorfur séu almennt góðar. Í skýrslunni er einnig bent á að heppilegt væri að bæta afkomu ríkissjóðs hraðar heldur en kveðið er á um í nýsamþykktri fjármálaáætlun.  Þetta kemur fram í færslu Konráðs S. Guðjónssonar efnahagsráðgjafa ríkisstjórnar Íslands í færslu á X (áður Twitter), en þar fer hann yfir áhugaverða punkta úr skýrslu AGS sem snúa að Íslandi.

AGS tekur fram í skýrslunni að opinberar skuldur séu viðráðanlegar og á niðurleið, þrátt fyrir áhrifin af heimsfaraldri sé skuldsetning í hlutfalli við stærð hagkerfisins á svipuðum slóðum og fyrir faraldur.

Hann bendur á að opinberar skuldir á Íslandi séu í meðallagi meðal þróaðra þjóða, en ef tekið er tillit til uppbyggingu lífeyriskerfisins séu þær mjög litlar í þeim samanburði.

Það sé ekki nóg með að skuldir ríkissjóðs séu að lækka, ríkisfjármálin hafi lagst gegn hagsveiflunni á síðasta ári. Nýbirtur ríkisreikningur segi svipaða sögu þar sem frumjöfnuður sé jákvæður um 79 milljarða króna og batni um 100 milljarða frá árinu 2022.

Verðbólgan sé enn of há, en þokist í rétta átt. AGS spáir því að sú þróun haldi áfram. Aðhald peningastefnunnar er því orðið heldur þétt eftir að hafa verið full laust fram á árið 2022. Það sé því að skapast svigrúm til vaxtalækkana ef verðbólgan heldur áfram að þokast niður á við.

Ytri staða þjóðarbúsins sé sterk, gengið sé stöðugt og gott jafnvægi á utanríkisviðskiptum og gjaldeyrisflæði. AGS meti að gengi krónunnar sé í stórum dráttum í samræmi við undirliggjandi stærðir. Íslenska hagkerfið hafi vaxið hraðar en flest önnur þróuð hagkerfi frá árinu 2019 og raunar lengur. AGS sé bjartsýnn á að það mun áfram vaxa hraðar.

Þá bendir Konráð á að þetta sé engin tilviljun og greinilegt að stóraukinn stuðningur við rannsóknir og þróun sé farinn að skila árangri við að bæta lífskjör.

„Til mikils að vinna að halda áfram að besta það kerfi,“ segir hann.