Rætt við Árna M. Mathiesen um 18 ára stjórnmálaferil
'}}

Árni M. Mathiesen fyrrverandi sjávarútvegsráðherra og fyrrverandi fjármálaráðherra er gestur Ingvars P. Guðbjörnssonar í þrettánda þætti hlaðvarpsþáttaraðar um samofna 95 ára sögu Sjálfstæðisflokksins og 80 ára sögu lýðveldis. Hljóðútgáfu af þættinum má nálgast hér.

Árni hóf þátttöku í stjórnmálum í ungliðastarfi SUS en settist á þing árið 1991 fyrir Reykjaneskjördæmi til ársins 2003 þegar Suðvesturkjördæmi varð til og síðar varð oddviti Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi frá 2007-2009. Hann varð sjávarútvegsráðherra árið 1999 og fjármálaráðherra árið 2005. Hann sat á þingi samfellt í 18 ár og var ráðherra þar af í 10 ár.

Árni segir að það hafi verið skemmtilegt að starfa í ungliðastarfinu í Hafnarfirði og í stjórn SUS. Það hafi verið mikið í gangi og hugmyndafræðilega starfið snúist um frelsi og frjálshyggju sem hafi verið að vinna lönd á Íslandi á þeim tíma. Þá hafi fyrstu hlutirnir farið að gerast í frelsi og aukinni samkeppni. Þegar hann kom heim frá námi í Skotlandi hafi verið þrennt sem hann taldi nauðsynlegt að gera til að hægt yrði að búa á Íslandi, að leyfa hundahald, að leyfa frjálst útvarp og að leyfa bjórinn. Allt þetta hafi svo gerst næstu árin á eftir.

En hann segir að fleira hafi verið í umræðunni eins og sjávarútvegurinn og kvótakerfið, innleiðing þess og þróun og svo hafi verið mikil umræða um landbúnaðarmál og verðlagsmál því allt hafi verið í höftum. Mikið hafi verið rætt um viðskiptafrelsi. Eins hafi innleiðing kreditkorta átt sér stað á þessum árum. Síðan hafi þeir hlutir verið að gerast í sjávarútvegi að fiskmarkaðir hafi verið settir af stað og einnig hafi hlutabréfamarkaðir verið að byrja. Þetta hafi svo haldið áfram þegar ríkisstjórn Davíðs Oddsonar tók við 1991.

EES-samningurinn skipti okkur miklu

„Þetta var erfitt tímabil. Framan af þessu tímabili var samdráttur og það þurfti að halda vel á spöðunum til þess að hlutir færu ekki á verri veg og það var gert. Stóra málið þarna er EES-samningurinn. Hann skiptir sköpum í því hvernig mál síðan þróast hjá okkur því hann styttir svo óskaplega mikið leið. Það er ekki hægt að segja að það hafi verið andstaða við þá hluti sem þar voru að gerast, en ég held að við hefðum bara ekki gert þá eins hratt og við annars gerðum,“ segir Árni aðspurður um málin í þingu fyrstu árin.

„Ég held að miðað við það hafi verið tiltölulega góður friður um þessi mál. Mér finnst ekkert slæmt að það sé rætt um þetta og að hlutir sem þar eru að gerast að þeir séu gagnrýndir. Við þurfum alltaf að vera á varðbergi og megum ekki falla óvart í einhverjar gryfjur. En við þurfum líka að passa okkur á því að fylgja þeirri þróun sem er að eiga sér stað alþjóðlega. Við þurfum ekki endilega að gera allt eins og allir aðrir, en það eru ákveðnir hlutir sem við þurfum að fylgja og við fáum möguleika til með þessu samstarfi,“ segir hann um EES-samninginn.

Hann segir það gera að verkum að þróunin í Evrópu og síðustu Evrópuþingskosningar geta haft áhrif hér á landi. Það gætu orðið ákveðin vatnaskil í stefnu Evrópusambandsins í kjölfar þeirra. Það hafi verið mikil sveifla 2019 þegar græningjaflokkar hafi unnið stóran sigur í Evrópuþinginu. En nú sé það aftur á hægri vængnum. Alveg frá EPP hjá systurflokkum Sjálfstæðisflokksins og þaðan til hægri. Það hjálpi EPP í samstarfi við hina miðlægu flokkana. Þessir flokkar hafa almennt stefnu sem hjálpi okkur í samskiptum við Evrópusambandið.

Skipti miklu að koma okkur út úr kreppuástandi

„Það var náttúrulega að koma okkur út úr þessu kreppuástandi sem var og koma okkur inn í alþjóðavæðinguna. Að koma á meira frelsi og meiri samkeppni í okkar efnahagslífi hér innanlands. Ég held að það hafi skilað okkur gríðarlega miklu og ég held reyndar að það sé ennþá að skila okkur,“ segir hann um árangurinn af Viðeyjarstjórninni frá 1991-1995 horft út frá Sjálfstæðisstefnunni.

„Auðvitað hafa komið upp vandamál og bankahrunið er auðvitað það stærsta og erfiðasta, gríðarlega erfitt. En ef við ætlum að vera opin fyrir allþjóðvæðingunni og alheimssamfélaginu þá verðum við líka að vera tilbúin til að taka við svona skellum sem að því er samfara. Þarna var auðvitað stór skellur og að mörgu leyti vorum við vel undir það búin, þó að hann hafi komið skyndilega og enginn raunverulega séð hann fyrir,“ segir hann.

Verður sjávarútvegsráðherra 1999

„Stærstu málin á þessum árum voru klárlega ofmatið á þorstofninum sem tók okkur tvö ár að koma ofmatinu í gegn og koma okkur nokkurn vegin á rétta tölu, þó það sé aldrei til nein rétt tala þegar þú ert að mæla náttúruna. En það tók okkur tvö ár að komast nokkurnvegin á rétt ról og byrja síðan aftur,“ segir hann um stóru málin í sjávarútvegsráðuneytinu þegar hann varð ráðherra 1999 en síðan þá hafi verið nokkuð stöðugur þorskafli.

„Það var mjög erfitt og tók á, sérstaklega hvað varðaði aflaregluna. Það þurfti að breyta henni til þess að hún gæti dempað svona óvissuþætti í tölunum. Síðan var henni breytt ennþá meira seinna í tíð Einars K. þegar hlutirnir voru í góðu gengi og við höfðum aðstæður til að breyta,“ segir hann.

Hann nefnir einnig löggjöfina og nefir tvö mál, annars vegar að koma smábátunum inn í kvótakerfi. Það að hafa þá alla fyrir utan kvótakerfi hafi skapað óstöðugleika og óvissu og átt sitt að segja í ofmatinu. Það hafi tekist og á tímabili hafi allir smábátar verið í kvótakerfi. Hins vegar hafi það verið veiðigjaldið.

„Sennilega stærsta málið á þessum tíma var veiðigjaldið. Það var tekið upp og ég held að það sé alveg hægt að segja að hin pólitíska ákvörðun um veiðigjaldið hafi verið tekin á landsfundi Sjálfstæðisflokksins,“ segir Árni og að það hafi verið svo stór ákvörðun að það hafi verið birt mynd af honum á forsíðu Morgunblaðsins í ræðustól á landsfundi ákvörðunin hafi verið tekin.

„Ég held að það sé hægt að segja með undantekningunni um dagakerfið og ákveðnum breytingum sem hafa verið á því að hækka og lækka veiðigjaldið að þá hafi ekki orðið neinar stórar breytingar á fiskveiðistjórnunarkerfinu síðan þarna þegar þessar breytingar urðu,“ segir Árni.

„Sjávarútvegurinn hjá okkur getur þróast og hann hefur bætt sig. Við erum að fá meira út úr landanum sem við löndum, mikil nýsköpun og jafnvel orðið vafamál hvort verðmætustu fyrirtækin í sjávarútvegi séu í nýsköpun fremur en í veiðum og vinnslu,“ segir hann.

Ríkissjóður skuldlaus í hans tíð í fjármálaráðuneytinu

„Á þessum tíma verður ríkisstjóður skuldlaus. Það er ekki staða sem þekkist víða. Þar að leiðandi eitthvað fyrir okkur til að vera ánægð með og sýnir okkur hvað er hægt að gera ef vel er haldið á hlutunum. En það sem skiptir mestu máli er hvernig þetta lítur við hinum almenna borgara. Á þessum tíma vorum við að lækka skattana. Mér sýnist að við höfum á hverju einasta ári sem ég var fjármálaráðherra verið að lækka skattana“ segir Árni um tíma sinn í fjármálaráðuneytinu.

Hann segir jafnframt að í úttekt sem gerð var hafi skattarnir verið lægstir í hans tíð sem fjármálaráðherra.

„Þetta voru uppgangsár og það sem þá skiptir máli er að peningarnir sem koma í ríkissjóð séu notaðir til þess að lækka skuldir eða byggja upp sjóði og það gerðum við,“ segir Árni en ríkissjóður varð skuldlaus í hans tíð sem fjármálaráðherra.

Nefnir hann jafnframt að á þessum tíma hafi sérfræðingur sagt að staða ríkissjóðs væri þannig að ríkissjóðir ætti að komast í gegnum þrjár kreppur.

„En ég held að honum hafi ekki dottið í hug hvernig kreppa var framundan,“ segir Árni og vísar til efnahagshrunsins 2008.

Flutti sig yfir í Suðurkjördæmi 2007

„Þetta var svolítið erfitt. Það var verið að breyta kjördæmafyrirkomulaginu. Í seinustu kosningunum fyrir kjördæmabreytinguna var ég efstur í gamla Reykjaneskjördæmi“, segir Árni en árið 2007 flutti hann sig yfir í Suðurkjördæmi.

Árni er svo einnig efstur í Suðvesturkjördæmi eftir kjördæmabreytingu. Árni Ragnar Árnason oddviti flokksins í Suðurkjördæmi fellur frá kjörtímabilinu áður og í prófkjörinu 2007 tekur Árni Mathisen þátt.

„Það var ýtt á mig að ég myndi fara með og fara aftur í hinn hlutann af gamla kjördæminu mínu,“ segir Árni og ákvað hann að taka slaginn. Þar tókst hann á við Árna heitinn Johnsen um 1. sætið en hafði sigur úr bítum og Árni Johnsen skipaði 2. sætið.

„Sú niðurstaða hafði aldrei nein áhrif á okkar vináttu eða samskipti. Hann tók því mjög vel,“ segir Árni um niðurstöður prófkjörsins.

„Hún var nú ekkert rosalega mikið því auðvitað hafði stór hluti verið áður í kjördæminu hjá mér og ég hafði alltaf verið með Kjósina í Reykjaneskjördæminu líka. Ég hafði alltaf verið með landsbyggð og landbúnaðar einhversstaðar. Svo var ég nú líka búinn að vera dýralæknir á Suðurlandinu og var það svo aftur eftir að ég hætti,“ segir Árni spurður að því hvort ekki hafi verið mikil breyting að fara úr Reykjaneskjördæmi í stórt landsbyggðarkjördæmi eins og Suðurkjördæmi er.

„En auðvitað tekur þetta tíma. En maður er í pólitík af því að maður hefur gaman af því að vera innan um fólk og að mörgu leyti er jaðarinn, eins og Halldór Blöndal segir, skemmtilegri heldur en þéttbýlið. Fólkið þar býr við annars konar aðstæður,“ segir hann.

„Suðurkjördæmi var í þessum kosningum í prósentum á pari við höfuðborgarsvæðiskjördæmin,“ segir Árni um kosningarnar 2007.

Árni segir að það sé ekkert sérstakt eftirminnilegt við að fara í ríkisstjórn með Samfylkingunni 2007 annað en að það hafi sjaldan gengið eins vel að klára fjárlög og það árið þó það hafi auðvitað ekki gengið eftir vegna efnahagshrunsins.

„Niðurstaðan varð ekki alveg eins góð á því samstarfi eins og maður hefði viljað. En samstarfið var ágætt,“ segir hann.

Tóku réttar ákvarðanir í hruninu

Spurður út í það hvernig tíminn hafi að verið sem fjármálaráðherra þegar hrunið skall á segir hann: „Hann var sjálfsagt sérstakur. Hann markast af óvissu. Við erum komin inn í þessa alþjóðlegu hringiðu. Þeir hlutir sem eru að gerast hérna eru farnir að markast af hvað var að gerast á mörkuðunum erlendis. Það var fyrsta sem maður athugaði þegar maður vaknaði á morgnana hvað hefði gerst við opnun markaða í Asíu,“ segir Árni.

„Það endurkastaðist síðan yfir hnöttinn með sólarganginum,“ segir hann.

Hann segir þó að þegar upp hafi verið staðið megi gagnrýna flokkinn fyrir margt sem hafi gerst áður, að hafa ekki gætt nægilega vel að þenslunni, að hafa leyft bönkunum að vera eins stórir og þeir á endanum urðu.

„Ég held nú reyndar að vaxtastig í seðlabankanum hafi líka haft sitt að segja í þessu - jöklabréfaútgáfan. Það hefði hins vegar enginn getað sagt mér nákvæmlega hvað við hefðum átt að gera eða hvenær við hefðum átt að gera það,“ segir hann.

Segir hann að það læðist að honum sá grunur að það sem hefði þurft að gera til að minnka þensluna hefði þurft að gerast löngu fyrr.

„Ég held að þær aðgerðir sem við fórum í þegar þetta var að ganga yfir okkur að þær hafi allar reynst réttar og sumar þeirra hafa síðan verið teknar upp og eru núna það sem almennt gildir eins og til dæmis að ábyrgjast innistæður í bönkunum,“ segir hann.

„Síðan það að taka yfir bankana,“ bætir hann við og segir að þetta gerist ekki af sjálfu sér. Það þurfi að taka ákvörðun og fylgja henni eftir.

„Á tímabili voru menn orðnir hræddir um að við værum of sein að taka á þessum málum. Ég held að menn sjái það núna að það var ekki fyrr en Bjarni Benediktsson sem fjármálaráðherra tók á þessari snjóhengju að úrlausnin fannst,“ segir Árni en segir að auðvitað hafi fleiri komið að þessu.

Segir hann að við séum búin að læra mikið af bankahruninu. Það hafi m.a. nýst okkur vel í Covid-faraldrinum og eins því sem stríðir í Úkraínu hefur ýtt yfir okkur.

Spurður að því hvort það hafi komið sér á óvart hversu illa gekk að fá lán í efnahagshruninu segir hann: „Já ég held að það verði að segja það. Hvað fjármálamarkaðarnir gersamlega frusu. Að sumu leyti er það ekki alveg rökrétt – en markaðarnir eiga það til að fara út í öfgar. Alveg eins og hvað það var auðvelt að ná í fé fyrir hrun þá kannski kom það okkur á óvart hvað það var auðvelt og þess vegna höfðum ekki tök á að takmarka það og vaxtamunaviðskiptin sem því fylgdu og jöklabréfin og það allt saman. Svo kemur þetta að markaðrnir frjósa og það sem maður hafði ímyndað sér ef eitthvað svona gerðist að þá voru bankarnir á þessum tíma allir einkabankar og það var engin ríkisábyrgð á þeim en það voru öll matsfyrirtækin að elta okkur og búin að elta okkur í mörg ár og spyrja hvað við myndum gera ef bankarnir stæðu illa – hvort við myndum þá bjarga þeim. Við sögðum auðvitað aldrei neitt um það. En raunin var sú að nánast allir aðrir björguðu bönkunum sínum en við. Við vorum í raun einu alvöru kaptalistarnir sem létu menn bara finna fyrir því ef þeir tóku rangar ákvarðanir,“ segir hann.

Hann segist ekki hafa ímyndað sér að ef íslensku bankarnir lentu í þessari stöðu að þá væri allur heimurinn að lenda í þessari stöðu samstundis og að það myndi enginn vilja kaupa íslensku bankana.

„Það sem ég hafði séð sem svörtustu stöðuna að þeir hefðu farið úr íslenskum höndum í erlendar hendur – en þeir höfðu bara engann áhuga á þeim. Þeir fengu ekki peninga heldur. Þeir voru sjálfir í vandræðum með að fjármagna sig dag frá degi. Það voru allir í þeirri sömu stöðu,“ segir Árni.

Hann segir að það hafi verið tekin stór ákvörðun á fundi Alþjóðagjaldeyrissjóðsins

„Það var tekin ákvörðun á fundi í nóvember um að það ætti að endurreisa fjármálakerfið. Þetta var það erfitt ástanda að það var tekin ákvörðun á sérstökum fundi,“ segir hann.

Stoltastur af fiskveiðistjórnarkerfinu og skattkerfinu

„Það er tvennt sem ég held að ég myndi segja að ég væri stoltastu af því sem ég gerði – en ég gerði það auðvitað ekki einn. Það er fyrst og fremst fiskiveiðistjórnunarkerfið, þar eru þrír ráðherrar á 20 ára tímabili sem byggja upp það það kerfi, Halldór Ásgrímsson, Þorsteinn Pálsson og ég. Það hefur lítið breyst síðan,“ segir hann.

Hann segir að kerfið sé gott og að skila mjög miklu og góðu fyrir okkur og muni gera áfram ef því verði leyft að virka eins áfram. Það hafi svo hjálpað okkur í gegnum efnahagsáföllin.

„Ef við hefðum verið með veikt sjávarútvegskerfi, þá hefðum við ekki komist í gegnum þetta eins og við gerðum þó ég sé alveg klár á því að það eru margir sem komu laskaðir út úr þessu,“ segir hann.

„Hitt sem mér finnst skipta máli líka er skattkerfið sem við vorum með í upphafi bankahrunsins. Það er skattakerfi sem var að mestu leyti líka byggt upp af þremur ráðherrum, Friðrik Sophussyni, Geir Haarde og mér. Mjög einfalt og skilvirkt og fékk góða einkunn í úttekt Alþjóðagjaldeyrissjóðsins sem gerð var í hruninu en samt er búið að flækja það alveg ótrúlega og hækka prósentuna og jaðarskattana alveg ótrúlega, en það er ekki eins skilvirkt fyrir vikið vegna flækjustigsins“ segir Árni.

Segir hann jaðarskatana orðna svo háa að þeir séu letjandi.

„En þetta sýnir okkur hvað það er auðvelt að rífa eitthvað niður og eyðuleggja en hvað það getur síðan verið erfitt að byggja það upp aftur þrátt fyrir allan góðan vilja til þess,“ segir Árni en að kringumstæðurnar til að gera það séu dálítið öðruvísi en þær voru þegar þessi kerfi tvö voru byggð upp. Allt aðrar pólitískar aðstæður.

„Ég stórefast um að það væru nokkrir sem hefðu þann pólitíska styrk til þess að koma á kvótakerfi á Íslandi eins og við gerðum á þessu tuttugu ára tímabili sem ég var að nefna,“ segir hann að lokum.

Þáttinn á Spotify má finna hér.