Að skapa eigin arfleifð

Óli Björn Kárason alþingismaður:

Öllum má vera ljóst hve mikilvægt það er að vel takist til við sölu á eignarhlutum ríkisins í Íslandsbanka. Fyrir ríkisstjórnina og stjórnarflokkana er það pólitískt nauðsynlegt að framkvæmd sölunnar verði hnökralaus. Fyrir þróun fjármálamarkaðarins skiptir miklu að salan verði til að efla traust almennings á fjármálamarkaðinum í heild sinni og á hlutabréfamarkaðinum sérstaklega.

Í júní síðastliðnum samþykkti Alþingi að heimila fjármála- og efnahagsráðherra að selja hlut ríkisins (42,5%) í tvískiptu markaðssettu útboði. Í A-hluta útboðsins geta aðeins einstaklingar tekið þátt og er lágmarksfjárhæð 100 þúsund krónur og hámarksfjárhæðin 20 milljónir. Í B-hluta geta einstaklingar og lögaðilar gert tilboð yfir 20 milljónum. Þessi aðferðafræði gefur tilefni til bjartsýni um að vel geti tekist til.

Í lögunum er ráðherra gert skylt, í aðdraganda sölunnar, að tryggja virka upplýsingagjöf um undirbúning og framkvæmd ráðstöfunar eignarhlutanna. Þá ber honum að birta opinberlega sundurliðaðar upplýsingar um hver og ein viðskipti og nöfn endanlegra kaupenda. Óháðum aðila verður falið að gera úttekt á því hvort meginreglum laganna um gagnsæi, hagkvæmni, hlutlægni og jafnræði hafi verið fylgt við útboðið.

Setjum markið hærra

En auðvitað á að setja markið hærra en að sala hlutabréfanna takist með skilvirkum hætti þannig að ekki myndist jarðvegur fyrir tortryggni eða vantraust. Markmið á að vera að ryðja braut fyrir allan almenning til að taka þátt í útboðinu.

Í frumútboði á 35% hlut ríkisins í Íslandsbanka í júní 2021 eignuðust yfir 23 þúsund einstaklingar hlut í bankanum. Bankinn varð þar með fjölmennasta almenningshlutafélag landsins. Samkvæmt upplýsingum sem komu fram í umsögn Nasdaq á Íslandi um frumvarpið um sölu Íslandsbankabréfanna tæplega fjórfaldaðist fjöldi þeirra einstaklinga sem eiga skráð hlutabréf frá 2019 til 2023. Á liðnu ári áttu tæplega 31 þúsund einstaklingar skráð bréf.

Þróunin hefur því verið í rétta átt. Fleiri einstaklingar hafa, með beinum hætti, tekið þátt í fjármögnun atvinnulífsins með þátttöku á hlutabréfamarkaði. Og um leið gert hann skilvirkari. En það er langt í land. Markmiðið á að vera að allt íslenskt launafólk öðlist fjárhagslegt svigrúm til að fjárfesta í hlutabréfum – ekki síst skráðum bréfum.

Í aðdraganda að sölu hlutabréfanna í Íslandsbanka hefur ríkisstjórnin gullið tækifæri til að stuðla að víðtækri þátttöku almennings í atvinnulífinu með kaupum á skráðum hlutabréfum. Það er langt í frá óraunsætt að á þessu og næsta ári fjölgi einstaklingum sem eiga hlutabréf í fyrirtækjum sem eru skráð á hlutabréfamarkaði um allt að 25 þúsund. Með öðrum orðum: Að fjöldi einstaklinga sem eiga hlutabréf verði milli 50 og 60 þúsund áður en árið 2025 er úti. Og þá er hægt að setja markið enn hærra.

Hlutabréfaafsláttur

Með skattalegum ívilnunum, þar sem einstaklingum er veitt heimild til að draga frá tekjuskatti kaup á skráðum hlutabréfum og hlutdeildarskírteinum verðbréfa- og hlutabréfasjóða, opnast möguleikar fyrir launafólk til að byggja enn frekar upp eignastöðu sína. Setja nýja stoð undir eigið fjárhagslegt sjálfstæði.

Ég hef nokkrum sinnum lagt fram frumvarp þessa efnis ásamt nokkrum félögum mínum í þingflokki Sjálfstæðisflokksins. Í greinargerð er því haldið fram að skattafsláttur vegna hlutabréfakaupa hvetji til aukins sparnaðar af hálfu heimila ásamt því að búa til meiri dýpt á markaði með fjölgun þátttakenda og því fjármagni sem þeim fylgir. Þá segir: „Skattafslátturinn hvetur heimilin til þátttöku í atvinnurekstri og tvinnar því saman hagsmuni þeirra og atvinnulífs, sem leitt getur til meiri meðvitundar meðal almennings um stöðu hagkerfisins og þær afleiðingar sem breytingar í rekstrarumhverfi fyrirtækja, t.d. skattbreytingar eða almenn launaþróun, kunna að hafa í för með sér.“

Þingmannafrumvörp eiga yfirleitt ekki greiða leið í gegnum þingið – ólíkt stjórnarfrumvörpum. Sé það vilji ríkisstjórnarinnar að stuðla að þátttöku almennings í útboði á bréfum Íslandsbanka og almennt á hlutabréfamarkaðinum, hlýtur innleiðing á almennum hlutabréfaafslætti að verða eitt af forgangsmálum á komandi vetri. Ég hef ástæðu til að ætla að frumvarp þessa efnis njóti stuðnings fleiri en stjórnarþingmanna.

Góð arfleifð

2017 – árið sem Vinstri grænir, Framsóknarflokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn ákváðu að taka höndum saman og mynda ríkisstjórn – áttu innan við sjö þúsund einstaklingar hlutabréf í skráðum félögum. Með skattalegum hvötum, eins og hér er lagt til og ég hef lengi barist fyrir, er raunhæft að við lok kjörtímabilsins á komandi ári hafi þessi fjöldi áttfaldast. Það er ekki slæmur árangur á átta árum. Raunar árangur sem allir stjórnarflokkarnir geta verið hreyknir af. Að stuðla að eignamyndun launafólks og skjóta styrkari stoðum undir fjárhagslegt sjálfstæði einstaklinga er og á alltaf að vera eitt helsta markmið stjórnvalda á hverjum tíma.

Ríkisstjórn sem byggir undir beina þátttöku launafólks í atvinnulífinu – ryður brautina með skattalegum hvötum – leggur grunn að fjárhagslegu frelsi almennings en ekki frelsi fyrir fáa útvalda – er ríkisstjórn sem hugar að framtíðinni. Slík ríkisstjórn skrifar merkan kafla í sögu stjórnmála og efnahagsmála. Stjórnarflokkarnir geta skapað sér merkilega arfleifð. Þeirra er valið.

Morgunblaðið, 17.júlí 2024.