Kjartan Magnússon borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík:
Fjöldi hjólreiðaslysa á Íslandi hefur tvöfaldast á sl. tíu árum að því er fram kemur í skýrslu Samgöngustofu um umferðarslys á árinu 2023. Slys á rafhlaupahjólum er helsta skýringin á þessari þróun þar sem hjólaslysum í borginni fjölgaði eftir að þau urðu vinsæll ferðamáti. Fyrstu slysin á rafhlaupahjólum voru skráð árið 2020 og hefur þeim fjölgað mjög síðan. Í fyrra var 131 slys skráð á rafhlaupahjóli en talið er að þau séu mun fleiri.
Þessi þróun á sinn þátt í því að slysamarkmið umferðaröryggisáætlunar stjórnvalda hafa ekki náðst. Í fyrra nam fjöldi látinna og alvarlegra slasaðra í umferðinni 237 manns, sem er um 60% yfir markmiðum.
28% þeirra sem slösuðust alvarlega í umferðinni á síðasta ári voru á reiðhjóli eða rafhjóli. Þar af var tæpur helmingur á rafhlaupahjóli eða um 13% af þeim sem slösuðust alvarlega. Þó er talið að umferð rafhlaupahjóla sé aðeins um 1% af allri umferð. Einn hjólreiðamaður beið bana og 246 slösuðust, þar af 65 alvarlega.
Ofsaakstur á hjólastígum
Mikil brögð eru að því að léttum bifhjólum, bæði rafknúnum og bensíndrifnum, sé ekið eftir göngu- og hjólastígum, langt yfir þeim 25 kílómetra hámarkshraða sem gildir þar. Meirihluti bifhjólamanna fer að reglum en ljóst er að of margir virða ekki hraðareglur. Mörg dæmi eru um að rafhjólum sé ekið svo hratt nálægt gangandi eða hjólandi vegfarendum að liggi við stórslysi. Þá eru dæmi um að foreldrar banni ungum börnum sínum að fara út á hjólastíga borgarinnar því þeir séu orðnir að hraðbrautum fyrir vélknúin farartæki, þ.e. rafhjól.
Draga þarf lærdóm af hinum mörgu rafhjólaslysum, sem orðið hafa á undanförnum árum. Í skýrslu rannsóknarnefndar samgönguslysa um banaslys, sem varð árið 2021 við árekstur rafhlaupahjóls og létts bifhjóls í flokki II, kemur m.a. fram að báðum hjólum hafi sennilega verið ekið of hratt. Áreksturinn varð á hjólastíg þar sem akstur létta bifhjólsins var óheimill og hraðatakmarkari (innsigli) rafhlaupahjólsins var aftengdur.
Hjólbarðar rafhlaupahjóla eru litlir og stöðugleiki þeirra því minni en reið- og bifhjóla. Ökumenn þeirra þurfa að fylgjast vel með yfirborðinu sem hjólað er á, en það getur leitt til þess að þeir horfi ekki langt fram fyrir sig við aksturinn. Eftir því sem hraðinn er meiri verða slysin alvarlegri.
Í júní samþykkti Alþingi breytingar á umferðarlögum, sem m.a. er ætlað að auka öryggi vegna rafhlaupahjóla. Slík hjól hafa nú verið sett í flokk smáfarartækja og er ölvunarakstur á þeim orðinn refsiverður. Þá er nú bannað að eiga við hraðatakmarkara hjólanna til að auka hraðann.
Tillaga Sjálfstæðisflokksins
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins lögðu til í september 2022 að gripið yrði til aðgerða í því skyni að auka öryggi vegna aksturs léttra bifhjóla í borginni og stemma stigu við hraðakstri þeirra á göngu- og hjólastígum borgarinnar, sem og á gangstéttum. Aðgerðirnar yrðu þrenns konar.
1. Betri merkingar. Skýrar merkingar verði settar upp við göngu og hjólreiðastíga borgarinnar um að á þeim gildi 25 km hámarkshraði léttra bifhjóla.
2. Aukin fræðsla. Ráðist verði í fræðsluátak í skólum borgarinnar til að kynna reglur um hámarkshraða á göngu- og hjólastígum, hjálmaskyldu o.s.frv.
3. Löggæsla. Óskað verði eftir því að lögreglan taki upp umferðareftirlit á göngu- og hjólastígum og komi í veg fyrir að vélknúnum hjólum sé ekið þar yfir löglegum hámarkshraða.
Undirritaður flutti tillöguna í borgarstjórn í september 2022. Urðu góðar umræður um málið og var tillögunni einróma vísað til umhverfis- og skipulagsráðs borgarinnar til frekari meðferðar. Þar hefur tillagan þó ekki enn verið tekin fyrir þrátt fyrir að margoft hafi verið minnt á hana. Er þetta eitt margra dæma um slaka stjórnsýslu hjá Reykjavíkurborg. Því miður er það rík tilhneiging hjá meirihluta borgarstjórnar að taka ekki tillögur minnihluta til efnislegrar meðferðar og svæfa þær þannig. Slæmt er þegar það hefur í för með sér að brýnar úrbætur í umferðaröryggismálum komast ekki á dagskrá eins og raunin er í þessu tilviki.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 11. júlí 2024.