Uggvænleg fjölgun rafhjólaslysa
'}}

Kjartan Magnússon borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík:

Fjöldi hjól­reiðaslysa á Íslandi hef­ur tvö­fald­ast á sl. tíu árum að því er fram kem­ur í skýrslu Sam­göngu­stofu um um­ferðarslys á ár­inu 2023. Slys á raf­hlaupa­hjól­um er helsta skýr­ing­in á þess­ari þróun þar sem hjóla­slys­um í borg­inni fjölgaði eft­ir að þau urðu vin­sæll ferðamáti. Fyrstu slys­in á raf­hlaupa­hjól­um voru skráð árið 2020 og hef­ur þeim fjölgað mjög síðan. Í fyrra var 131 slys skráð á raf­hlaupa­hjóli en talið er að þau séu mun fleiri.

Þessi þróun á sinn þátt í því að slysamark­mið um­ferðarör­ygg­is­áætl­un­ar stjórn­valda hafa ekki náðst. Í fyrra nam fjöldi lát­inna og al­var­legra slasaðra í um­ferðinni 237 manns, sem er um 60% yfir mark­miðum.

28% þeirra sem slösuðust al­var­lega í um­ferðinni á síðasta ári voru á reiðhjóli eða raf­hjóli. Þar af var tæp­ur helm­ing­ur á raf­hlaupa­hjóli eða um 13% af þeim sem slösuðust al­var­lega. Þó er talið að um­ferð raf­hlaupa­hjóla sé aðeins um 1% af allri um­ferð. Einn hjól­reiðamaður beið bana og 246 slösuðust, þar af 65 al­var­lega.

Ofsa­akst­ur á hjóla­stíg­um

Mik­il brögð eru að því að létt­um bif­hjól­um, bæði raf­knún­um og bens­índrifn­um, sé ekið eft­ir göngu- og hjóla­stíg­um, langt yfir þeim 25 kíló­metra há­marks­hraða sem gild­ir þar. Meiri­hluti bif­hjóla­manna fer að regl­um en ljóst er að of marg­ir virða ekki hraðaregl­ur. Mörg dæmi eru um að raf­hjól­um sé ekið svo hratt ná­lægt gang­andi eða hjólandi veg­far­end­um að liggi við stór­slysi. Þá eru dæmi um að for­eldr­ar banni ung­um börn­um sín­um að fara út á hjóla­stíga borg­ar­inn­ar því þeir séu orðnir að hraðbraut­um fyr­ir vél­knú­in far­ar­tæki, þ.e. raf­hjól.

Draga þarf lær­dóm af hinum mörgu raf­hjóla­slys­um, sem orðið hafa á und­an­förn­um árum. Í skýrslu rann­sókn­ar­nefnd­ar sam­göngu­slysa um bana­slys, sem varð árið 2021 við árekst­ur raf­hlaupa­hjóls og létts bif­hjóls í flokki II, kem­ur m.a. fram að báðum hjól­um hafi senni­lega verið ekið of hratt. Árekst­ur­inn varð á hjóla­stíg þar sem akst­ur létta bif­hjóls­ins var óheim­ill og hraðatak­mark­ari (inn­sigli) raf­hlaupa­hjóls­ins var af­tengd­ur.

Hjól­b­arðar raf­hlaupa­hjóla eru litl­ir og stöðug­leiki þeirra því minni en reið- og bif­hjóla. Öku­menn þeirra þurfa að fylgj­ast vel með yf­ir­borðinu sem hjólað er á, en það get­ur leitt til þess að þeir horfi ekki langt fram fyr­ir sig við akst­ur­inn. Eft­ir því sem hraðinn er meiri verða slys­in al­var­legri.

Í júní samþykkti Alþingi breyt­ing­ar á um­ferðarlög­um, sem m.a. er ætlað að auka ör­yggi vegna raf­hlaupa­hjóla. Slík hjól hafa nú verið sett í flokk smáfar­ar­tækja og er ölv­unar­akst­ur á þeim orðinn refsi­verður. Þá er nú bannað að eiga við hraðatak­mark­ara hjól­anna til að auka hraðann.

Til­laga Sjálf­stæðis­flokks­ins

Borg­ar­full­trú­ar Sjálf­stæðis­flokks­ins lögðu til í sept­em­ber 2022 að gripið yrði til aðgerða í því skyni að auka ör­yggi vegna akst­urs léttra bif­hjóla í borg­inni og stemma stigu við hraðakstri þeirra á göngu- og hjóla­stíg­um borg­ar­inn­ar, sem og á gang­stétt­um. Aðgerðirn­ar yrðu þrenns kon­ar.

1. Betri merk­ing­ar. Skýr­ar merk­ing­ar verði sett­ar upp við göngu og hjól­reiðastíga borg­ar­inn­ar um að á þeim gildi 25 km há­marks­hraði léttra bif­hjóla.

2. Auk­in fræðsla. Ráðist verði í fræðslu­átak í skól­um borg­ar­inn­ar til að kynna regl­ur um há­marks­hraða á göngu- og hjóla­stíg­um, hjálma­skyldu o.s.frv.

3. Lög­gæsla. Óskað verði eft­ir því að lög­regl­an taki upp um­ferðareft­ir­lit á göngu- og hjóla­stíg­um og komi í veg fyr­ir að vél­knún­um hjól­um sé ekið þar yfir lög­leg­um há­marks­hraða.

Und­ir­ritaður flutti til­lög­una í borg­ar­stjórn í sept­em­ber 2022. Urðu góðar umræður um málið og var til­lög­unni ein­róma vísað til um­hverf­is- og skipu­lags­ráðs borg­ar­inn­ar til frek­ari meðferðar. Þar hef­ur til­lag­an þó ekki enn verið tek­in fyr­ir þrátt fyr­ir að margoft hafi verið minnt á hana. Er þetta eitt margra dæma um slaka stjórn­sýslu hjá Reykja­vík­ur­borg. Því miður er það rík til­hneig­ing hjá meiri­hluta borg­ar­stjórn­ar að taka ekki til­lög­ur minni­hluta til efn­is­legr­ar meðferðar og svæfa þær þannig. Slæmt er þegar það hef­ur í för með sér að brýn­ar úr­bæt­ur í um­ferðarör­ygg­is­mál­um kom­ast ekki á dag­skrá eins og raun­in er í þessu til­viki.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 11. júlí 2024.