Diljá Mist Einarsdóttir þingmaður:
Eldra fólk er stór og öflugur hópur í grasrót Sjálfstæðisflokksins. Á vettvangi Samtaka eldri sjálfstæðismanna eru haldnir opnir fundir í hverri viku yfir vetrartímann og nýlega var Félagi eldri sjálfstæðismanna í Reykjavík komið á fót. Þessi hópur heldur okkur kjörnum fulltrúum sannarlega við efnið og eldri sjálfstæðismenn eru mjög öflugir í réttindabaráttu fyrir eldra fólk. Eftir þingfrestun hef ég m.a. fundað með nokkrum fulltrúum úr þessum hópi sjálfstæðismanna til að fara yfir stöðu og kjör eldra fólks.
Við erum vonandi öll meðvituð um þær áskoranir sem fylgja hækkandi lífaldri íslensku þjóðarinnar. Þessari þróun fylgja þó sömuleiðis tækifæri, m.a. vegna betri heilsu í lengri tíma. Betri heilsa getur þýtt lengri starfsaldur og sveigjanlegri starfslok og því þarf að taka meira tillit til áhuga og færni fólks fremur en eingöngu aldurs þess. Þjónusta við eldra fólk þarf sömuleiðis að vera í sífelldri endurskoðun og þar má margt fara betur. Meðal annars þurfum við að leggja meiri áherslu á að eldra fólk hafi möguleikann á að búa sem lengst í eigin húsnæði.
Ríkisstjórnin hefur lagt ríka áherslu á að bæta fjárhagsstöðu eldra fólks. Það hefur enda sýnt sig í því að kjör þessa hóps hafa batnað umtalsvert á starfstíma hennar, hvort sem litið er til tekna, kaupmáttar eða til eigna- og skuldastöðu. Útgjöld ríkisins til málefna aldraðra hafa sömuleiðis aukist verulega á þessum tíma. Þannig hafa útgjöldin aukist um 25% að raunvirði frá árinu 2017 og um 91% frá árinu 2014. Þessi aukning skýrist að miklu leyti af verulegum breytingum sem voru gerðar á almannatryggingakerfinu árið 2017 með það að markmiði að bæta kjör eldra fólks.
Þótt fjárhagsleg staða eldra fólks á Íslandi sé almennt sterk og kjör þessa hóps hafi batnað mikið á undanförnum árum, þýðir það ekki að ekki megi gera enn betur. Það á ekki síst við um ýmis réttindamál og um þjónustu við þennan hóp. Þá hefur Sjálfstæðisflokkurinn lagt áherslu á að auka svigrúm til atvinnuþátttöku eldra fólks án umtalsverðra skerðinga m.a. með tvöföldun frítekjumarks. Þetta er eldra fólki ofarlega í huga, auk skerðinga vegna annarra tekna.
Ég mun m.a. nýta þinghléið í sumar til að vinna að málum í þágu eldra fólks. Ég óska því eftir ábendingum varðandi málaflokkinn og hvet eldra fólk og aðra sem áhuga hafa á til að senda mér tölvupóst á dilja.mist@althingi.is.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 11. júlí 2024.