Bjarni Benediktsson forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins:
Á leiðtogafundi Atlantshafsbandalagsins, NATO, sem lýkur í dag, er haldið upp á 75 ár af árangursríku samstarfi ríkja við að tryggja frið, frelsi og öryggi í okkar heimshluta. Óhætt er að segja að NATO hafi aldrei staðið sterkar og sé öflugasta varnarbandalag ríkja í sögunni. Þessum árangri hefur verið náð með áherslu á sameiginlegar varnir, friðsamlega lausn deilumála og stuðning við lýðræðisleg gildi.
Við Íslendingar getum verið stolt af því að hafa verið meðal tólf ríkja sem komu saman í Washington vorið 1949 til að undirrita Atlantshafssáttmálann. Leiðtogar aðildarríkjanna, sem nú eru orðin 32, komu saman við upphaf fundarins á þriðjudag í sömu salarkynnum.
Tímamótunum er fagnað í skugga vaxandi ógnar, bæði í heimahögum bandalagsríkja og hjá vinaþjóð okkar. Úkraína verst ólögmætu innrásarstríði Rússa, þar sem tugir þúsunda hafa látið lífið. Ráðist er með markvissum hætti að mikilvægum innviðum og upplýsingahernaði beitt þar sem falsfréttir og áróður brengla heilbrigða samfélagsumræðu. Spenna litar samskipti víðar um heim á einhverjum mestu óróatímum frá lokum síðari heimsstyrjaldar.
Þessi veruleiki er okkur áminning um að baráttunni fyrir friði er aldrei lokið. Ófriðaröfl verða ávallt að störfum og besta vörnin felst í því að vera á varðbergi, huga sífellt að vörnum og öryggi, eiga samstarf við þær þjóðir sem skipa sér í hóp lýðræðisríkja og leggja af mörkum í þágu friðar og frelsis.
Aukin framlög
Stórfelld aukning hefur orðið á framlögum til varnar- og öryggismála hjá bandalagsríkjum. Hið sama á við á Íslandi, við höfum margfaldað framlög okkar til málaflokksins undanfarinn áratug, en betur má ef duga skal. Það er þjóðaröryggismál að huga að getu okkar til viðbragðs vegna hvers kyns ytri hættu sem ógnað getur velsæld og öryggi landsmanna.
Sem herlaus þjóð treystum við á hernaðarlegan stuðning frá bandalagsríkjum en það leysir okkur ekki undan þeirri skyldu að huga sjálfstætt að varnar- og öryggismálum, sinna viðbúnaði innanlands gegn ytri ógnum og treysta getu okkar til að vera ávallt traustur og áreiðanlegur samstarfsaðili annarra ríkja. Þetta á ekki síst við í tengslum við loftrýmisgæslu og kafbátaleit á hafsvæðinu umhverfis landið. Þátttaka okkar í samstarfi þjóða um öryggis- og varnarmál í Norður- Atlantshafi og á norðurslóðum gegnir hér jafnframt mikilvægu hlutverki.
Tímabært er að taka ákvarðanir til næstu ára um þyrluflota Landhelgisgæslunnar. Margsannað er hve mikilvægu öryggishlutverki björgunarþyrlur gæslunnar gegna vegna háska á landi eða hafi. En þær eru um leið grundvallarþáttur í stuðningi okkar við loftrýmisgæslu og eiga að skoðast sem framlag Íslands til aukins öryggis á Norður-Atlantshafi. Stefna á að kaupum á öflugum þyrlum sem gegnt geta þessu fjölbreytta öryggis- og varnarhlutverki.
Öryggi og varnir ríkisins geta ekki verið valkvæð. Aðildin að NATO og varnarsamningurinn við Bandaríkin veita okkur tryggingu og skapa öryggi. Augljóslega þarf Ísland um leið að leggja sitt af mörkum.
Í varnargetu bandalagsríkja felst fælingarmáttur enda verða árásir ekki brotnar á bak aftur með viljastyrk og þolgæði. Fráfarandi framkvæmdastjóri Atlantshafsbandalagsins, Norðmaðurinn Jens Stoltenberg, benti á það í ræðu á Norðurlandaþingi í október 2023 að það þurfi vopn til að stöðva sprengjuárásir og að ríki sem styðji við varnir Úkraínu styðji um leið við eigin varnir. Þau orð kallast á við orð utanríkisráðherra Íslands í Washington vorið 1949 um að þegar öllu er á botninn hvolft njóta annað hvort allir friðar – eða enginn.
Í gær var samþykkt sameiginleg yfirlýsing um sameiginlegan 40 milljarða evra stuðning á ári við beinar varnir Úkraínu gegn innrásarliðinu, þar sem bandalagið tekur að sér samhæfingu í meiri mæli en áður.
Sá er vinur, er í raun reynist
Það hefur ávallt verið hluti af sjálfsmynd Íslendinga að vera friðsöm þjóð. Ákvörðun um aðild Íslands að stofnsáttmála Atlantshafsbandalagsins var eitt mesta átakamál íslenskrar stjórnmálasögu. Kjark og staðfestu þurfti til að fylgja þeirri ákvörðun eftir, en um hana efast fáir nú, enda hefur aðildin verið hornsteinn í varnar- og öryggisstefnu okkar síðan.
Innrás Rússa hefur ekki aðeins kostað Úkraínumenn líf, limi og heimahaga sína. Milljónir leggja á flótta og leita skjóls hjá nágrannaríkjum. Stríðið hefur sett aðfangakeðjur í uppnám, afkomu fólks um heim allan úr skorðum og ógnað matvælaöryggi sumra af fátækustu ríkjum heims. Í sumar hlýddi ég á forseta Kenýu, á friðarráðstefnu Úkraínuforseta í Sviss, lýsa áhrifum árásarinnar á Úkraínu á heimaland hans og önnur Afríkuríki. Þar mátti heyra sögur af uppskerubresti vegna skorts á áburði fyrir bændur sem framleiða mat fyrir fjölskyldur sínar. Fyrir þá sem þjást af hungri í Afríku dugar skammt að vera langt frá vígaslóð Úkraínustríðsins. Kallað er eftir friði.
Markmið varnarbandalagsins er, og hefur alltaf verið, að tryggja frið og öryggi. Til þess þarf hvert ríki að leggja af mörkum til varnar- og öryggismála, ríki þurfa að standa saman um lýðræðisleg gildi, frelsi, sjálfsákvörðunarrétt þjóða og friðsamlega lausn deilumála. Vinir koma til aðstoðar ef á vinaþjóð er ráðist.
Sá er vinur, er í raun reynist.
Greinin birtisti í Morgunblaðinu 11. júlí 2024.