Bjarni

Að störfum fyrir frið, frelsi og öryggi í 75 ár

Bjarni Benediktsson forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins:

Á leiðtoga­fundi Atlants­hafs­banda­lags­ins, NATO, sem lýk­ur í dag, er haldið upp á 75 ár af ár­ang­urs­ríku sam­starfi ríkja við að tryggja frið, frelsi og ör­yggi í okk­ar heims­hluta. Óhætt er að segja að NATO hafi aldrei staðið sterk­ar og sé öfl­ug­asta varn­ar­banda­lag ríkja í sög­unni. Þess­um ár­angri hef­ur verið náð með áherslu á sam­eig­in­leg­ar varn­ir, friðsam­lega lausn deilu­mála og stuðning við lýðræðis­leg gildi.

Við Íslend­ing­ar get­um verið stolt af því að hafa verið meðal tólf ríkja sem komu sam­an í Washingt­on vorið 1949 til að und­ir­rita Atlants­hafs­sátt­mál­ann. Leiðtog­ar aðild­ar­ríkj­anna, sem nú eru orðin 32, komu sam­an við upp­haf fund­ar­ins á þriðju­dag í sömu sal­arkynn­um.

Tíma­mót­un­um er fagnað í skugga vax­andi ógn­ar, bæði í heima­hög­um banda­lags­ríkja og hjá vinaþjóð okk­ar. Úkraína verst ólög­mætu inn­rás­ar­stríði Rússa, þar sem tug­ir þúsunda hafa látið lífið. Ráðist er með mark­viss­um hætti að mik­il­væg­um innviðum og upp­lýs­inga­hernaði beitt þar sem fals­frétt­ir og áróður brengla heil­brigða sam­fé­lagsum­ræðu. Spenna litar sam­skipti víðar um heim á ein­hverj­um mestu óróa­tím­um frá lok­um síðari heims­styrj­ald­ar.

Þessi veru­leiki er okk­ur áminn­ing um að bar­átt­unni fyr­ir friði er aldrei lokið. Ófriðaröfl verða ávallt að störf­um og besta vörn­in felst í því að vera á varðbergi, huga sí­fellt að vörn­um og ör­yggi, eiga sam­starf við þær þjóðir sem skipa sér í hóp lýðræðis­ríkja og leggja af mörk­um í þágu friðar og frels­is.

Auk­in fram­lög

Stór­felld aukn­ing hef­ur orðið á fram­lög­um til varn­ar- og ör­ygg­is­mála hjá banda­lags­ríkj­um. Hið sama á við á Íslandi, við höf­um marg­faldað fram­lög okk­ar til mála­flokks­ins und­an­far­inn ára­tug, en bet­ur má ef duga skal. Það er þjóðarör­ygg­is­mál að huga að getu okk­ar til viðbragðs vegna hvers kyns ytri hættu sem ógnað get­ur vel­sæld og ör­yggi lands­manna.

Sem herlaus þjóð treyst­um við á hernaðarleg­an stuðning frá banda­lags­ríkj­um en það leys­ir okk­ur ekki und­an þeirri skyldu að huga sjálf­stætt að varn­ar- og ör­ygg­is­mál­um, sinna viðbúnaði inn­an­lands gegn ytri ógn­um og treysta getu okk­ar til að vera ávallt traust­ur og áreiðan­leg­ur sam­starfsaðili annarra ríkja. Þetta á ekki síst við í tengsl­um við loft­rým­is­gæslu og kaf­báta­leit á hafsvæðinu um­hverf­is landið. Þátt­taka okk­ar í sam­starfi þjóða um ör­ygg­is- og varn­ar­mál í Norður- Atlants­hafi og á norður­slóðum gegn­ir hér jafn­framt mik­il­vægu hlut­verki.

Tíma­bært er að taka ákv­arðanir til næstu ára um þyrlu­flota Land­helg­is­gæsl­unn­ar. Margsannað er hve mik­il­vægu ör­ygg­is­hlut­verki björg­un­arþyrl­ur gæsl­unn­ar gegna vegna háska á landi eða hafi. En þær eru um leið grund­vall­arþátt­ur í stuðningi okk­ar við loft­rým­is­gæslu og eiga að skoðast sem fram­lag Íslands til auk­ins ör­ygg­is á Norður-Atlants­hafi. Stefna á að kaup­um á öfl­ug­um þyrl­um sem gegnt geta þessu fjöl­breytta ör­ygg­is- og varn­ar­hlut­verki.

Öryggi og varn­ir rík­is­ins geta ekki verið val­kvæð. Aðild­in að NATO og varn­ar­samn­ing­ur­inn við Banda­rík­in veita okk­ur trygg­ingu og skapa ör­yggi. Aug­ljós­lega þarf Ísland um leið að leggja sitt af mörk­um.

Í varn­ar­getu banda­lags­ríkja felst fæl­ing­ar­mátt­ur enda verða árás­ir ekki brotn­ar á bak aft­ur með vilja­styrk og þolgæði. Frá­far­andi fram­kvæmda­stjóri Atlants­hafs­banda­lags­ins, Norðmaður­inn Jens Stolten­berg, benti á það í ræðu á Norður­landaþingi í októ­ber 2023 að það þurfi vopn til að stöðva sprengju­árás­ir og að ríki sem styðji við varn­ir Úkraínu styðji um leið við eig­in varn­ir. Þau orð kall­ast á við orð ut­an­rík­is­ráðherra Íslands í Washingt­on vorið 1949 um að þegar öllu er á botn­inn hvolft njóta annað hvort all­ir friðar – eða eng­inn.

Í gær var samþykkt sam­eig­in­leg yf­ir­lýs­ing um sam­eig­in­leg­an 40 millj­arða evra stuðning á ári við bein­ar varn­ir Úkraínu gegn inn­rás­arliðinu, þar sem banda­lagið tek­ur að sér sam­hæf­ingu í meiri mæli en áður.

Sá er vin­ur, er í raun reyn­ist

Það hef­ur ávallt verið hluti af sjálfs­mynd Íslend­inga að vera friðsöm þjóð. Ákvörðun um aðild Íslands að stofn­sátt­mála Atlants­hafs­banda­lags­ins var eitt mesta átaka­mál ís­lenskr­ar stjórn­mála­sögu. Kjark og staðfestu þurfti til að fylgja þeirri ákvörðun eft­ir, en um hana ef­ast fáir nú, enda hef­ur aðild­in verið horn­steinn í varn­ar- og ör­ygg­is­stefnu okk­ar síðan.

Inn­rás Rússa hef­ur ekki aðeins kostað Úkraínu­menn líf, limi og heima­haga sína. Millj­ón­ir leggja á flótta og leita skjóls hjá ná­granna­ríkj­um. Stríðið hef­ur sett aðfanga­keðjur í upp­nám, af­komu fólks um heim all­an úr skorðum og ógnað mat­væla­ör­yggi sumra af fá­tæk­ustu ríkj­um heims. Í sum­ar hlýddi ég á for­seta Kenýu, á friðarráðstefnu Úkraínu­for­seta í Sviss, lýsa áhrif­um árás­ar­inn­ar á Úkraínu á heima­land hans og önn­ur Afr­íku­ríki. Þar mátti heyra sög­ur af upp­skeru­bresti vegna skorts á áburði fyr­ir bænd­ur sem fram­leiða mat fyr­ir fjöl­skyld­ur sín­ar. Fyr­ir þá sem þjást af hungri í Afr­íku dug­ar skammt að vera langt frá víga­slóð Úkraínu­stríðsins. Kallað er eft­ir friði.

Mark­mið varn­ar­banda­lags­ins er, og hef­ur alltaf verið, að tryggja frið og ör­yggi. Til þess þarf hvert ríki að leggja af mörk­um til varn­ar- og ör­ygg­is­mála, ríki þurfa að standa sam­an um lýðræðis­leg gildi, frelsi, sjálfs­ákvörðun­ar­rétt þjóða og friðsam­lega lausn deilu­mála. Vin­ir koma til aðstoðar ef á vinaþjóð er ráðist.

Sá er vin­ur, er í raun reyn­ist.

Greinin birtisti í Morgunblaðinu 11. júlí 2024.