Kerfið sviptir börn tækifærum
'}}

Óli Björn Kárason alþingismaður:

Lesskiln­ing­ur grunn­skóla­nem­enda á Íslandi er í frjálsu falli. Hlut­fall nem­enda í tí­unda bekk sem búa ekki yfir grunn­hæfni í lesskiln­ingi tvö­faldaðist frá 2012 til 2022 sam­kvæmt niður­stöðum PISA – úr 21% í 40%. Staðan er lítið eitt betri þegar kem­ur að stærðfræði og læsi á nátt­úru­vís­indi. Aðeins 3% nem­enda telj­ast búa yfir af­burðal­estr­ar­skiln­ingi en þeim fækkaði hlut­falls­lega um helm­ing. Svipaða sögu er að segja um af­burðanem­end­ur í stærðfræði og nátt­úru­vís­ind­um. Við stönd­um flest­um þjóðum að baki við mennt­un barn­anna okk­ar. Hæfni ís­lenskra nem­enda í skap­andi hugs­un er und­ir meðaltali OECD. Dreng­ir standa sig verr en stúlk­ur.

Á mæli­kv­arða PISA er grunn­skól­inn hér á landi í hnign­un. Æ fleiri nem­end­ur ljúka grunn­skóla án nægj­an­legr­ar þekk­ing­ar og kunn­áttu. Þetta er þrátt fyr­ir að hér sé rek­inn ein­hver dýr­asti grunn­skóli inn­an OECD. Í sam­an­b­urði við önn­ur lönd er staðan al­var­leg. Við erum í sjötta neðsta sæti OECD-ríkja. Aðeins Grikk­land, Síle, Mexí­kó, Kosta Ríka og Kól­umbía eru með lak­ari ár­ang­ur.

Lak­ari ár­ang­ur verður ekki rak­inn til þess að of marg­ir nem­end­ur séu á hvern kenn­ara. Þvert á móti. Á liðnu ári voru 9,1 nem­andi á hvert stöðugildi kenn­ara. Fyr­ir ald­ar­fjórðungi voru 13,3 nem­end­ur á hvern kenn­ara. Og ekki hef­ur starfs­fólki grunn­skól­anna fækkað. Árið 1998 voru stöðugildi í grunn­skól­um (all­ir starfs­menn) tæp­lega fimm þúsund en á liðnu ári voru þeir orðnir yfir átta þúsund og fjög­ur hundruð. Þetta er fjölg­un um 70%. Á sama tíma fjölgaði nem­end­um „aðeins“ um 12%. Þessi þróun end­ur­spegl­ast í því að fyr­ir ald­ar­fjórðungi voru 8,6 nem­end­ur á hvern starfs­mann grunn­skóla en eru nú sex.

Stöðnun og aft­ur­för

Í hátíðarræðu við braut­skrán­ingu frá Há­skól­an­um í Reykja­vík í síðasta mánuði fór Björn Brynj­úlf­ur Björns­son fram­kvæmda­stjóri Viðskiptaráðs ekki eins og kött­ur í kring­um heit­an graut: „Því miður er nú stöðnun ríkj­andi á grunn­skóla­stigi. Ísland rek­ur eitt dýr­asta grunn­skóla­kerfi heims en náms­ár­ang­ur­inn er einn sá versti í Evr­ópu, eins og við sjá­um í PISA-mæl­ing­um. Staða drengja er þar sér­stak­lega slæm, en ann­ar hver dreng­ur er nær ólæs eft­ir tíu ár í grunn­skóla.“

Björn Brynj­úlf­ur hélt því fram að end­ur­skoða þurfi grunn­skóla­kerfið: „Við þurf­um að ein­blína á náms­ár­ang­ur, mæla hann mark­visst og auka fjöl­breytni í kerf­inu – þannig að bæði skól­ar og nem­end­ur geti keppt og upp­skorið á grund­velli eig­in verðleika.“

Jón Pét­ur Zimsen aðstoðarskóla­stjóri Rétt­ar­holts­skóla hef­ur lengi varað við hnign­un grunn­skól­ans sem hef­ur verið nær stöðug frá alda­mót­um. Þrátt fyr­ir óheillaþró­un­ina breyt­ist ekk­ert eins og Jón Pét­ur full­yrti í fróðlegu viðtali í Dag­mál­um mbl.is fyr­ir réttri viku. (Ég hvet alla, ekki síst for­eldra grunn­skóla­barna, til að horfa á viðtalið.) Eft­ir tíu ára grunn­skóla­nám sé niðurstaðan sú að nær helm­ing­ur drengja geti ekki lesið sér til gagns og þriðjung­ur stúlkna. „Ég gæti ekki lifað með sjálf­um mér að breyta ekki um stefnu eða taka þetta til al­var­legr­ar umræðu,“ sagði Jón Pét­ur sem tel­ur að ábyrgðin liggi fyrst og síðast hjá sveit­ar­fé­lög­un­um. „Það er eng­inn sem hef­ur sagt: „Heyrðu, þetta gerðist á minni vakt, ég ætla að axla ábyrgð með ein­hverj­um hætti.“ Ég hef ekki heyrt einn ein­asta sveit­ar­stjórn­ar­mann, póli­tík­us eða emb­ætt­is­mann ræða það þannig.“

Al­var­leg­ar spurn­ing­ar

Ásdís Kristjáns­dótt­ir, bæj­ar­stjóri í Kópa­vogi, hef­ur þegar brugðist við gagn­rýni Jóns Pét­ur og hún er vön að láta verk­in taka. Í fés­bókar­færslu þar sem hún vís­ar í frétt mbl.is og viðtalið við Jón Pét­ur seg­ir Ásdís að við verðum „að viður­kenna að mis­tök hafa verið gerð, hvort sem snýr að náms­mati og inn­leiðingu þess, niður­fell­ingu sam­ræmdra prófa án þess að tryggja sam­hliða sam­ræmda mæli­kv­arða á ár­angri, svo dæmi séu tek­in“. Bæj­ar­stjór­inn spyr al­var­legra spurn­inga: Er miðstýr­ing of mik­il í ís­lensku skóla­kerfi? Ger­um við næg­ar kröf­ur til barna í námi? Er op­in­beri vinnu­markaður­inn of ósveigj­an­leg­ur þegar kem­ur niður á ný­sköp­un og framþróun kenn­ara í starfi? Skort­ir ytra eft­ir­lit, sam­an­b­urð á ár­angri milli skóla og end­ur­gjöf?

Því miður verður að svara öll­um þess­um spurn­ing­um ját­andi. Við yf­ir­völd­um mennta­mála, sveit­ar­fé­lög­um, kenn­ur­um, for­eldr­um blas­ir nöt­ur­leg staðreynd: Íslenski grunn­skól­inn virk­ar ekki. Skipu­lagið held­ur gæðum mennt­un­ar niðri og er lam­andi en ekki hvetj­andi fyr­ir kenn­ara. For­eldr­um er haldið í myrkri með þeim leynd­ar­hjúp sem um­vef­ur skól­ana. Komið er í veg fyr­ir að kenn­ar­ar, for­eldr­ar og nem­end­ur fái sam­an­b­urð á gæði skóla­starfs. Sveit­ar­stjórn­ar­mönn­um er einnig haldið í myrkr­inu.

Upp­stokk­un nauðsyn­leg

Ekk­ert sam­fé­lag get­ur sætt sig við að grunn­mennt­un barna verði verri með hverju ár­inu sem líður. Upp­stokk­un er nauðsyn­leg. Það eru ein­stak­ling­ar eins og Jón Pét­ur Zimsen sem eru best til þess falln­ir að leiða nauðsyn­leg­ar breyt­ing­ar. Við eig­um fjölda annarra ein­stak­linga inn­an mennta­kerf­is­ins sem hafa burði og hæfi­leika til að veita nauðsyn­lega leiðsögn – ein­stak­linga sem eru ekki fast­ir í gam­alli kerf­is­hugs­un og leynd­ar­hyggju. Og það er til for­ystu­fólk í sveit­ar­stjórn­um, eins og Ásdís Kristjáns­dótt­ir, sem horf­ist í augu við erfiðar staðreynd­ir og sit­ur ekki hjá með hend­ur í skauti. Sem bæj­ar­stjóri ætl­ar hún að beita sér fyr­ir því að ráðist verði á vand­ann með raun­hæf­um lausn­um. Annað sveit­ar­stjórn­ar­fólk hlýt­ur að fylgja frum­kvæði Ásdís­ar. Und­an því verður ekki vikist.

Mennta­kerfið er beitt­asta og skil­virk­asta verk­færið sem hvert sam­fé­lag hef­ur til að tryggja jöfn tæki­færi óháð efna­hag, upp­runa, bú­setu eða fjöl­skyldu­hög­um. Bregðist grunn­skól­inn verður verk­færið bit­lítið. Kerfið er að svipta börn tæki­fær­um til að rækta hæfi­leika sína og njóta þeirra.

Sem sam­fé­lag verðum við að gera allt sem í okk­ar valdi er til að efna fyr­ir­heitið um að tryggja börn­un­um okk­ar góða mennt­un og vega­nesti sem nýt­ist til allr­ar framtíðar. Annað er ekki aðeins svik við kom­andi kyn­slóðir held­ur ávís­un á lak­ari lífs­kjör okk­ar allra.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 10. júlí 2024.