Kjartan Magnússon borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík:
Brýnasta verkefni íslenskra stjórnmála er að auka aðhald og hætta hallarekstri hins opinbera, ríkis jafnt sem sveitarfélaga. Heildarútgjöld hins opinbera, sem hlutfall af landsframleiðslu, hafa hækkað mjög og eru nú sennilega hæst á Íslandi meðal aðildarríkja OECD.
Við slíkar aðstæður er ánægjulegt að Sigurður Ingi Jóhannsson fjármálaráðherra skuli boða aðhaldssöm fjárlög. Ráðherrann virðist gera sér grein fyrir því að aðhald í opinberum fjármálum er besta leiðin til að takast á við verðbólgu, háa vexti og sligandi vaxtagreiðslur ríkissjóðs.
Skuldir í dag eru skattur á morgun
Víða eru tækifæri til aðhalds og sparnaðar í opinberum rekstri. Stjórnmálamenn hafa í of miklum mæli velt dýrum verkefnum með óvissum kostnaði yfir á íslenska skattgreiðendur. Slík verkefni verður að endurskoða enda eru þau ein helsta ástæðan fyrir miklum hallarekstri og lántökum hins opinbera. Með slíkri skuldasöfnun er vandanum velt yfir á komandi kynslóðir. Skuldir í dag eru skattur á morgun.
Fyrir löngu er orðið ljóst að svonefndur samgöngusáttmáli höfuðborgarsvæðisins er eitt þessara verkefna. Þegar sáttmálinn var undirritaður árið 2019 var heildarkostnaður við verkefnið áætlaður ríflega 160 milljarðar króna (á verðlagi ársins 2023). Nú er ljóst að heildarkostnaðurinn verður ekki undir 300 milljörðum eins og Bjarni Benediktsson, þáverandi fjármálaráðherra, gerði grein fyrir sl. haust. Gera verður ráð fyrir mun hærri kostnaði enda eru flest helstu verkefni sáttmálans enn á frumstigi. Mörg dæmi sanna að slík verkefni fara langt fram úr upphaflegum áætlunum á síðari stigum hönnunar, sem og á framkvæmdatíma. Nýjasta dæmið eru framkvæmdir við Hornafjarðarfljót. Þær áttu fyrst að kosta 4,9 milljarða en nú er kostnaðurinn kominn í 8,9 milljarða.
Framkvæmdastopp til óþurftar
Ekki verður um það deilt að vegafé hefur skilað sér í of litlum mæli til Reykjavíkur undanfarin ár. Helsta ástæða þess er svonefnt framkvæmdastopp, sem fólst í því að vinstri meirihlutar í borgarstjórn, undir forystu Samfylkingarinnar, frábáðu sér vegabætur á stofnbrautum Reykjavíkur í heilan áratug.
Margar framkvæmdir samgöngusáttmálans eru þarfar, t.d. ýmsar stofnbrautaframkvæmdir, lagning hjólabrauta og bætt stýring umferðarljósa. Sumar þessar framkvæmdir verður þó að endurskoða í ljósi kostnaðar og arðsemi.
Mikilvægt er að bæta almenningssamgöngur en það má gera með mun hagkvæmari og skilvirkari hætti en með svokallaðri borgarlínu.
Framkvæmdahluti borgarlínu mun ekki kosta undir 126 milljörðum króna og á þá eftir að gera ráð fyrir rekstrarkostnaði hennar, sem nema mun milljörðum króna árlega. Flest bendir til að slík borgarlína verði óarðbær og muni í raun hafa verulegt neikvætt núvirði.
Almenningssamgöngur verði efldar
Miklu hagkvæmara væri að efla núverandi strætisvagnakerfi með sérstakri aðgerðaáætlun eins og við borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins höfum lagt til. Með henni væri hægt að efla almenningssamgöngu strax með myndarbrag í stað þess að stofnsetja nýtt kerfi með gífurlegum tilkostnaði, sem enginn veit hvenær verður tekið í notkun.
Endurskoða þarf verkefni samgöngusáttmálans til kostnaðarlækkunar í stað þess að velta mörg hundruð milljörðum króna yfir á skattgreiðendur. Talsmenn borgarlínu vilja fjármagna framkvæmdir við hana með viðbótar-vegaskatti á Reykjavíkinga, sem nú þegar greiða einhverju hæstu bensínskatta og bifreiðagjöld í heimi. Ljóst er að engin sátt verður um slíka skattahækkun nema að aðrir skattar verði lækkaðir jafnmikið á móti.
Beita þarf aðhaldi í ríkisfjármálum eins og fjármálaráðherra segir en ljóst er að árangur mun ekki nást nema tekið sé á útgjaldahliðinni. Koma verður í veg fyrir að hundruð milljarða króna gæluverkefnum sé velt yfir á almenning. Óskynsamlegt væri að hækka skatta á þjóð, sem greiðir nú þegar einhverja hæstu skatta í heimi.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 4. júlí 2024.