Ragnheiður Elín fer yfir stjórnmálaferilinn og ráðherratíð sína

Ragnheiður Elín Árnadóttir fyrrverandi iðnaðar- og viðskiptaráðherra og formaður þingflokks Sjálfstæðisflokksins er gestur Ingvars P. Guðbjörnssonar í tólfta þætti hlaðvarpsþáttaraðar um samofna 95 ára sögu Sjálfstæðisflokksins og 80 ára sögu lýðveldis. Hljóðútgáfu af þættinum má nálgast hér.

Ragnheiður Elín hóf þátttöku í stjórnmálum er hún gerðist aðstoðarmaður Geirs Hilmars Haarde í fjármálaráðuneytinu árið 1998. Hún fluttist síðar með honum í utanríkisráðuneytið árið 2005 og í forsætisráðuneytið árið 2006 þar til hún settist á Alþingi vorið 2007 fyrir Suðvesturkjördæmi. Árið 2009 varð hún oddviti Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi og sat á þingi til 2016. Hún var formaður þingflokks Sjálfstæðisflokksins 2010-2012 og iðnaðar- og viðskiptaráðherra 2013-2017.

„Ég ætlaði aldrei að fara í stjórnmál. Ég fór í framhaldsnám í Bandaríkjunum í alþjóðasamskiptum og ætlaði mér að verða sendiherra þegar ég yrði stór eða vinna hjá alþjóðastofnun,“ segir Ragnheiður Elín spurð út í aðdragandann að því að hún leiddist út í stjórnmál.

„En svo gerist lífið bara eins og John Lennon sagði. Það er það sem gerist þegar þú ert upptekinn við að plana aðra hluti. Ég var þarna að vinna hjá Útflutningsráði hérna heima, hafði verið í New York áður hjá Útflutningsráði. Er þar með verkefni, ráðstefnu. Það atvikaðist þannig að ég þurfti að leita til Geirs með mjög stuttum fyrirvara um að aðstoða mig í ráðstefnulok. Hann tekur það að sér og það var mjög stór greiði. Nema í lok þess viðburðar kemur hann að máli við mig og ég er að þakka honum fyrir, það voru allir mjög ánægðir þeir sem að þetta snerti og hann segir: „Má ég aðeins ræða við þig um eitt?“ segir hún.

Þá ber hann það upp við hana hvernig henni lítist á að verða aðstoðarmaður fjármálaráðherra.

„Mín viðbrögð voru bara: „Ertu galinn? Ég er ekki hagfræðingur – ég er stjórnmálafræðingur,“ segir hún.

En hans svör hafi verið að ráðuneytið væri fullt af hagfræðingum og að sig vanti einhvern eins og hana. Hún hafi svo seinna frétt að hann hafi um tíma haft augastað á henni í hlutverkið en að þau hafi ekki þekkst neitt.

„Þannig að það verður til þess að þetta er svona eins og vendipunktur í lífinu. Þetta urðu níu ár sem við Geir unnum saman í þremur ráðuneytum. Hann, mikill vinur minn, mikill mentor og það var ekkert aftur snúið eftir þetta. Ég fékk pólitísku pödduna inn í blóðið og það tók önnur tíu ár,“ segir hún.

Stoltust yfir breytingum á fæðingarorlofskerfinu

„Það voru mjög mörg spennandi mál. Það voru miklar breytingar. Það var verið að breyta skattkerfinu, lífeyrissjóðskerfinu. Við vorum í alls konar stærðarinnar breytingum á því hvernig við gerum hlutina. Það var ákaflega lærdómsríkt, en stóra málið og það sem ég er hvað stoltust yfir að hafa fengið að taka þátt í voru breytingarnar á fæðingarorlofskerfinu,“ segir hún spurð út í helstu málin þegar hún var í fjármálaráðuneytinu. Geir hafði frumkvæði að breytingum á fæðingarorlofinu.

„Við unnum mjög þétt saman og ég hafði mikla aðkomu að því máli,“ segir Ragnheiður Elín.

Markmiðið hafi verið að jafna rétt foreldra til töku fæðingarorlofs. Þetta var einnig jafnréttismál og tryggði barninu samvistir við báða foreldra.

„Þegar maður horfir til baka og breytinguna á íslensku samfélagi þar sem við erum fremst í flokki, erum sú þjóð sem mælist með mesta jafnréttið og skörum framúr á þessu sviði er ég sannfærð um að þetta er stærsti þátturinn, ef ekki sá stærsti í því að undirbyggja þetta þjóðfélag vegna þess að nú er algjörlega sjálfsagt að báðir foreldrar taka fæðingarorlof,“ segir hún og segir Geir eiga mikið hrós fyrir þá forystu sem hann tók innan ríkisstjórnarinnar.

„Geir hefur forystu um þetta og þú verður náttúrulega að vera með fjármálaráðherra með þér í svona breytingu, en leggur til að félagsmálaráðherra fari með forsvar í þessum málaflokki og það er ekki oft sem ráðherrar gera það að gefa eitthvað frá sér. En hann var að hugsa um heildarhagsmuni málaflokksins,“ segir hún og málið fór gegnum þingið með öllum greiddum atkvæðum nema einu, en sá þingmaður sat hjá.

Utanríkisráðuneytið í uppáhaldi

„Utanríkisráðuneytið var uppáhaldið mitt. Það er svona ef ég fer til baka, það eru alþjóðamálin, alþjóðasamskipti og það að ég hafi ætlað að verða sendiherra þegar ég yrði stór. Ég naut mín þar mjög mikið og fannst það alveg ótrúlega skemmtilegt,“ segir Ragnheiður Elín um að koma í utanríkisráðuneytið.

„Við vorum þar líka á sögulegum tímum. 15. febrúar 2006 fær Geir upphringinguna frá Nicholas Burns, aðstoðarutanríkisráðherra Bandaríkjanna, þar sem hann tilkynnir um að varnarliðið fari,“ rifjar hún upp.

„Við fengum sex mánuði til að bregðast við þessu og ég var í viðræðunefndinni um viðskilnaðinn sem fylgdi okkur svo í forsætisráðuneytið. Það kláraðist ekki fyrr en um haustið,“ segir hún

Um haustið varð Geir forsætisráðherra og Ragnheiður Elín fylgdi honum þangað. Nefnir hún að í varnarsamningnum hafi verið klausa um að ef þeir myndu fara yrði Bandaríkjaher að skila landinu eins og það var þegar að því var komið.

„Þannig að þegar við héldum því fram þá breyttist aðeins taktíktin. Þannig að okkur tókst að ná þessu saman og koma málum þannig fyrir að halda utan um þetta og losa eignirnar svo seinna meir hægt og rólega með Þróunarfélagi Keflvíkurflugvallar,“ segir hún.

Það hafi verið gæfuspor að fara þá leið enda hefðu annars getað flætt íbúðir inn á markað með tilheyrandi áhrifum á samfélagið á Suðurnesjum.

Bauð sig fram til Alþingis 2007

„Það lá beint við haustið 2006, þá var ég ný flutt í Garðabæinn. Ég var ekkert rosalega mikið fyrir áskorunum eða eftirspurn heldur var þetta ákveðið í góðra vina hópi, að prófa. Ég var búin að vera í 9 ár aðstoaðrmaður og þetta var bara orðið gott. Mér fannst ég þurfa að láta á þetta reyna. Ég hafði mikið til málanna að leggja og langaði að hafa áhrif,“ segir Ragnheiður Elín um aðdragandann að því að hún fór í prófkjör í Suðvesturkjördæmi.

„Ég get stolt sagt að þetta var einn stærsti kosningasigur Sjálfstæðisflokksins fyrr og síðar. Við náðum 42,7% í Suðvesturkjördæmi. Þá var Þorgerður Katrín í fyrsta og Bjarni Ben í öðru og við náðum inn sex þingmönnum. Ragnheiður Ríkharðs kom inn, svona eins og henni er von og vísa, eldsnemma morguns,“ segir hún um kosningarnar 2007.

Rifjar hún upp ýmis mál af þinginu á kjörtímabilinu.

„Árin sjö í fjármálaráðuneytinu eru eins og doktorspróf. Þú lærir allt um stjórnsýsluna. Það er ekkert sem gerist án þess að fjármálaráðuneytið komið að því. Það var ótrúlega góður skóli. Mitt áhugasvið hefur alltaf legið í utanríkismálum. Ég hef verið í utanríkismálanefnd, Íslandsdeild NATO-þingsins, við vorum að endurskoða þróunarsamvinnu. Það voru allskonar hlutir sem maður laðaðist að,“ segir Ragnheiður Elín.

„Ég get alveg sagt að manni fannst maður ekki hafa neitt sérstaklega mikil áhrif sem óbreyttur þingmaður. Ég kom inn 2007 og þá vorum við í ríkisstjórn með Samfylkingunni. Síðan gerist það náttúrulega bara 18 mánuðum seinna að það verður hér efnahagshrun. Þá er þannig hjá mér að ég eignaðist barn 25. september 2008 og það er 6. október sem fræga ræðan er haldin. Ég er bara með pínulítið barn. Ég var komin á þingflokksfund í október og er að horfa á þetta allt úr þeirri fjarlægð í SMS-sambandi og að skipta mér að. En þarna gjörbreyttist allt fyrir mig og mína fjölskyldu persónulega,“ segir hún.

Hún hafði ætlað að vera í fæðingarorlofi til áramóta. Fyrsti dagurinn á þingi eftir fæðingarorlofið er 20. janúar, sá frægi dagur þegar Búsáhaldabyltingin byrjaði.

„Það var þannig að maðurinn minn kom með son minn, þá þriggja mánaða, til mín. Ég gaf honum brjóst fyrir þingflokksfund sem byrjaði kl. 13. Svo þingfundur kl. 15. Þá er bara allt byrjað á Austurvelli og við komumst ekki neitt. Við vorum lokuð inni í þinghúsinu. Ég endaði með að fara einhverja leið sem ég vissi ekki að væri til á endanum kl. 20 um kvöldið,“ rifjar hún upp frá þessum degi.

Hún segir að maðurinn hennar hafi rétt sloppið út úr þinghúsinu með son þeirra áður en allt lokar.

Færir sig yfir í Suðurkjördæmi 2009

„Svo fellur ríkisstjórnin og það er boðað til kosninga. Þá er leitað til mín úr Suðurkjördæmi, ég er Keflvíkingur,“ segir hún um aðdragandann að því að hún færði sig yfir í Suðurkjördæmi fyrir kosningarnar 2009.

Þau fjölskyldan voru búin að koma sér vel fyrir í Garðabæ og hún vissi að ef hún myndi færa sig í Suðurkjördæmi yrði hún að flytja sig um set með fjölskylduna. Það varð síðan ofan á að hún gefur kost á sér í prófkjörinu til að leiða lista sjálfstæðismanna og þau flytja í Reykjanesbæ. Hún verður efst í prófkjörinu og er oddviti flokksins í Suðurkjördæmi til haustsins 2016.

„Það voru mikil viðbrigði. Þarna er ekkert langt síðan kjördæmið breyttist. Ég ólst upp í Reykjaneskjördæmi,“ segir hún um breytingarnar við að koma úr Suðvesturkjördæmi í Suðurkjördæmi.

„Ég þekkti það mjög vel en þekkti ekkert frá Hellisheiði. Þetta voru mikil viðbrigði. Í Suðvesturkjördæmi gastu keyrt kjördæmið á vel rúmlega klukkutíma. En þarna fór ég frá Garðsskaga til Hafnar í Hornafirði með Vestmannaeyjar þar til viðbótar. Fiskvinnsla, landbúnaður, allskonar iðnaður, allt önnur mál heldur en var á radar fólksins í Suðvesturkjördæmi,“ segir hún og að þetta hafi verið bæði lærdómsríkt og hollt – en jafnframt strembið.

„Það er gerð mikil krafa um viðveru þingmanna hér og þar. Ég var þingflokksformaður í stjórnarandstöðu á sama tíma. Litli sonur minn fór mjög oft til Vestmannaeyja og Hafnar í Hornafirði og kjördæmið þvert og endilangt. Bæði í prófkjörinu og kosningabaráttunni,“ segir hún og jafnframt að í öllum fjölskylduferðum hafi verið lagt til að fara á Humarhátíð, Þjóðhátíð og aðrar bæjarhátíðir í kjördæminu.

„Það var stemning, jafnvel þó það væri allt í neikvæðni og voru hörð mál eftir hrunið. Mikil reiði. Þetta gerðist á okkar vakt. Alls ekki að mínu áliti vegna okkar stefnumála. Það gleymist oft að þetta var alþjóðleg krísa og við vorum kanarífuglinn í námunni. Við vorum fyrst,“ segir hún.

Hún segir að þingflokkurinn hafi náð upp mikilli baráttu. Í sinni þingflokksformannatíð hafi hún verið kölluð „reiða konan“. Hún segist ekki hafa horft á reiðurnar sem hún flutti í þinginu.

„Það voru margir slagir teknir. Við vorum þarna í Icesave, fram að því var ekki lengri þingumræða,“ rifjar hún upp úr þinginu.

„Það var verkaskipting. Við vorum með Framsóknarflokknum í stjórnarandstöðu. Það var tekið á því,“ segir hún.

„Icesave, Evrópusambandið, stjórnarskráin og fiskveiðistjórnunarkerfið voru stóru málin sem voru undir. Við höfðum ýmislegt að segja í öllum þessum málum. Ég held að við höfum alltaf verið málefnaleg,“ segir hún og að þetta hafi einnig snúist um forgangsröðun þáverandi ríkisstjórnar sem að þeirra mati hafi einfaldlega verið röng.

„Hérna voru efnahagserfiðleikar. Þá eigum við að fara í það og svo getum við tekið byltingarmálin seinna. En það var verið að blanda þessu öllu saman og svo kemur í ljós að þau höfðu ekki þingmeirihluta fyrir Evrópusambandinu og því fór sem fór,“ segir hún. Þetta hafi þó þjappað stjórnarandstöðunni saman.

Verður ráðherra 2013

Vorið 2013 fór Sjálfstæðisflokkurinn í ríkisstjórn með Framsóknarflokknum og Ragnheiður Elín verður iðnaðar- og viðskiptaráðherra. Það var í fyrsta sinn sem tvær konur skipuðu efstu sætin í landsbyggðarkjördæmi.

„Reyndar er ég enn þann dag í dag eina konan sem hefur tvisvar leitt flokkinn í landsbyggðarkjördæmi í 95 ára sögu flokksins. Ég held að ég leyfi mér að fullyrða það, af því að það hefur ekki breyst síðan – en ég vona að þetta met verði slegið sem oftast og fyrst. En þetta er merkileg staðreynd,“ segir Ragnheiður Elín.

„Það er eitt af þessum toppstörfum sem ég hef gengt. Það var ótrúlega gaman og það voru líka málaflokkarnir í iðnaðar- og viðskiptaráðuneytinu. Þetta var svo fjölbreytt, það voru ferðamálin, orkumálin, nýsköpun, verslun og þjónusta, samkeppnismálin, fasteignaviðskipti, kvikmyndaiðnaðurinn, tónlistaiðnaðurinn,“ segir hún um að koma inn í ráðuneyti sem ráðherra.

Hún hafi þekkt sumt vel en svo hafi verið annað eins og nýsköpun sem hún þekkti ekkert til.

„Það var stórkostlegt að fá að kynnast þeim geira vegna þess að það var hægt að læra svo margt,“ segir hún.

„Þegar ég kem að þessum málaflokki er rosaleg gróska. Ég fæ góðan vin minn í heimsókn, Dadda Guðbergsson, sem segir: „Veistu það Ragnheiður – þú verður að passa upp á nýsköpunina,“ segir hún og að hún hafi sagt að hann yrði að aðstoða sig.

„Hann gerði það svo sannarlega því við fylltum dagskrána – tókum heilan dag: „Nýsköpunardagur með Dadda“. Ég fór og heimsótti öll þessi fyrirtæki sem voru á sitthvorum staðnum, stór og smá. Það er svo gaman að fylgjast með þessum fyrirtækjum núna,“ segir hún og nefnir nokkur sem hafa vaxið mikið síðan 2013.

Mikil vinna við að byggja undirstöður fyrir ferðaþjónustuna

„Og að hafa átt þátt í því að bæta umhverfið. Það vantaði stefnumótun í svo marga málaflokka þegar ég kem í ráðuneytið. Við settum nýsköpunarstefnu, hugverkastefnu, ferðamálastefnu, Vegvísir í ferðaþjónustu. Það er annað stórt verkefni sem blasti við í ráðuneytinu. Það var búið að ná gríðarlegum árangri eftir Eyjafjallajökul og eftir Hrunið,“ rifjar hún upp þegar ferðaþjónustan lenti í miklum vandræðum í apríl rétt áður en ferðamannatímabilið var að byrja þegar fór að gjósa í Eyjafjallajökli.

„Þá er sett á frábært verkefni, Inspired by Iceland. En það var eins og enginn hefði haft trú á því að það myndi virka. Þegar ég kom í ráðuneytið voru 600 þúsund ferðamenn á ári árið 2013. Þegar við förum úr ráðuneytinu í janúar árið 2017 þá er þetta komið upp í 2 milljónir,“ rifjar hún upp.

Hún hafi titlað sig á þeim tíma klósettmálaráðherra. Það hafi þurft að byggja upp innviðina og það hafi verið stóra málið. Það hafi ekkert plan verið fyrir það.

„Við tökum okkur til í samstarfi við ferðaþjónustuna og sveitarfélögin. Útbúum fyrst Vegvísi í ferðaþjónustu sem var fimm ára plan. Ætluðum fyrst að gera það lengra en sáum að það þurfti átak í allskonar málum. Í uppbyggingu innviða, í stefnumótun í landshlutunum. Fáum Guðfinnu Bjarnadóttur til að taka þetta að sér og leiddi hún vinnuna frábærlega,“ segir Ragnheiður Elín.

Í kjölfarið hafi síðan verið sett á laggirnar Stjórnstöð ferðamála sem hún hafi fengið mikla gagnrýni fyrir þar sem hún ætti að vera að búa til nýtt bákn – en stjórnstöðin hafi ekki verið stofnun.

„Ég talaði við fjármálaráðherra til að fá fjármagn í átak á fjölsóttum ferðamannastöðum. Svo kemur það bara í ljós að ferðamálaráðherrann, ráðherrann sem var ábyrgur fyrir þessum málaflokki, hafði bara ekkert um þessi mál að segja. Fjármálaráðherrann þurfti að borga, umhverfisráðherrann fer með þjóðgarðana, nema Þingvallaþjóðgarð – það var forsætisráðherra. Sveitarfélögin sáu um skipulagið. Samgönguráðuneytið sá um vegina og ferðaþjónustan sagði: „Ég vil ekki fá klósettin þarna – því rúturnar stoppa hérna.“ Það kemur í ljós að ferðamálaráðherrann réði engu. Ég er ótrúlega stolt af Stjórnstöð ferðamála því þar náðum við heildarstjórnsýslu. Ég fékk alla ráðherrana með. Forsætisráðherra þurfti að skipa stjórnstöðina og setti mig við borðsendann sem formann af því að ég ég var sú eina sem var með augun á ferðaþjónustunni – leiddi allt þetta fólk og svo vinnunefnd. Þetta var fimm ára plan. Þetta byrjaði 2015 og ég hætti 2017. Þórdís Kolbrún tekur við af mér í ráðuneytinu. Hún heldur þessu áfram og mér þótti rosalega vænt um að hún efndi loforðið sem ég hafði gefið um að þetta yrði ekki að nýrri stofnun. Þetta væri bara átak sem þurfti. Við lofuðum að það yrði klárað á fimm árum og hún bauð mér á seinasta fundinn í ráðuneytinu, seinasta fund Stjórnstöðvar ferðamála 2020 og þar með var verkinu lokið,“ rifjar hún upp.

Það hafi verið búið að gera ótrúlega mikið átak. Undirstöðurnar hafi verið miklu betri.

„Mér fannst að vísu svolítið leiðinlegt að vera í slíkri vinnu, en hún varð að vera. Þú vilt auðvitað frekar vera í að klippa á borðana. En það þarf að byggja undirstöðurnar og það er kannski það sem ég er stoltust af í ráðuneytinu,“ segir hún.

Þáttinn á Spotify má finna hér.