Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir varaformaður sjálfstæðisflokksins og utanríkisráðherra:
Við þinglok í síðasta mánuði urðu ýmis góð mál að lögum – mál sem endurspegla kjarna sjálfstæðisstefnunnar um að ríkið eigi ekki að vera fólki og fyrirtækjum fjötur um fót. Brottfall úreltra og óþarfa laga á fjármálamarkaði, breytingar á virðisaukaskatti til samræmis við fyrirkomulag erlendis sem eykur samkeppnishæfni Íslands verulega og stórmál eins og heimild til sölu eftirstandandi hlutar ríkisins í Íslandsbanka eru dæmi um mál sem gagn er að. Þá eru nýsamþykkt lög um fjárfestingarheimildir lífeyrissjóða, sem ég lagði fram sem frumvarp á Alþingi, mikilvæg.
Lögin snúast um að lífeyrissjóðir fá heimild til að fjárfesta allt að 5% af heildareignum í óskráðum leigufélögum um íbúðarhúsnæði og að hlutur eins lífeyrissjóðs í slíku félagi gæti verið allt að 50%. Þessi breyting hljómar kannski ekki svo ýkjamikil en áhrifin geta orðið mikil. Áður var einfaldlega engin sérstök heimild fyrir lífeyrissjóði til þess að fjárfesta í íbúðarhúsnæði með þessum hætti. Í staðinn þurftu lífeyrissjóðir að nýta almenna heimild um óskráðar fjárfestingar, sem er hugsuð og nýtt til þess að fjárfesta t.d. í nýsköpunarfyrirtækjum. Slík fjárfesting er mjög áhættusöm á meðan fjárfesting í íbúðarhúsnæði sem á að skila stöðugum leigutekjum er það ekki. Því liggur í augum uppi að svo ólíkir fjárfestingarkostir geti illa átt heima saman, ekki síst þar sem almenn heimild til að fjárfesta í óskráðum eignum er almennt 20% og virði slíkra eigna getur sveiflast mikið.
Í anda okkar stefnu
Með því að langsamlega stærstu fjárfestar landsins, lífeyrissjóðirnir, hafi greiða leið inn í fjárfestingu fasteignafélaga til leigu íbúða, skapast ný tækifæri. Bæði geta sjóðirnir byggt upp rekstur leigufélaga með því húsnæði sem er nú þegar til staðar og, það sem mikilvægara er, fjármagnað nauðsynlegar nýbyggingar. Okkur fjölgar hratt og það þarf að byggja upp mikið húsnæði samhliða því en það gerist ekki nema fjármagn hafi greiða leið að þeirri uppbyggingu. Ef lögin leiða til þess að lífeyrissjóðir ráðist í íbúðauppbyggingu hlýtur það að teljast sem hrein viðbót við aðra uppbyggingu, sem hjálpar til við að stemma stigu við þeim þrýstingi sem myndast hefur á íbúðamarkaði samhliða fordæmalausri fólksfjölgun.
Langflestir kjósa eða óska þess að eiga sitt eigið húsnæði og það hefur lengi verið stefna Sjálfstæðisflokksins að gera fólki kleift að búa í sínu eigin húsnæði. Staðreyndin er þó sú að tugþúsundir Íslendinga búa af ýmsum ástæðum í leiguhúsnæði og það þarf lifandi og virkan íbúðamarkað. Aðstæður og smekkur fólks er misjafn á misjöfnum tímum æviskeiðsins og því verður alltaf nauðsynlegt að hér sé heilbrigður og skilvirkur leigumarkaður. Frjáls markaður, frjálst framtak og einstaklingsfrelsi er kjarninn í sjálfstæðisstefnunni.
Meira frelsi
Það má gera sér vonir um að lögin hafi tilætluð áhrif von bráðar. Flestir lífeyrissjóðir landsins hafa nú saman eignast leigufélagið Heimstaden og hafa fyrirætlanir um að ráðast í nýbyggingar á húsnæði. Vonandi er það það sem koma skal. Við þurfum ávallt að leita leiða til að þvælast ekki fyrir því að fólk, fyrirtæki og markaðurinn leysi verkefnin sem við stöndum frammi fyrir en falla ekki í þá gryfju að opinber afskipti séu lausnin, hún er það sjaldnast. Andstæðan við það er oft mikil og tilhneigingin til þess að ríkið stýri athöfnum frekar er allt of mikil.
Fyrir Alþingi lá annað frumvarp sem varðar lífeyrissjóði og fjallaði einfaldlega um það að veita einstaklingum örlítið meira frelsi um að stýra sínum eigin viðbótarlífeyrissparnaði ef þeir svo kjósa og ef sjóðirnir kjósa að bjóða upp á slíkt. Einhverra hluta vegna var mikil andstaða gegn slíkum breytingum. Það er umhugsunarvert og þó að ýmis málefnaleg gagnrýni hafi komið á frumvarpið sýnir það mál, sem og svo mörg önnur, að það þarf fleiri og háværari raddir sem berjast raunverulega fyrir einstaklings- og atvinnufrelsi. Sterkasta rödd þeirra sjónarmiða er, hefur alltaf verið og mun áfram vera Sjálfstæðisflokkurinn.
Greinin birtist í sunnudagsblaði Morgunblaðsins 7. júlí 2024