Hildur Sverrisdóttir formaður þingflokks Sjálfstæðisflokksins:
Formaður Miðflokksins birti grein á Vísi í gær, Heilræði fyrir Nýhaldið, þar sem hann bregst nokkuð hvumpinn við grein minni í Morgunblaðinu, Mannréttindastofnun - sagan öll. Í greininni fór ég yfir aðdraganda þess að Ísland var skuldbundið um nokkurra ára skeið til að setja Mannréttindastofnun á fót með lögum þrátt fyrir skiljanleg spurningamerki um nauðsyn slíkrar stofnunar.
Ég nefni í greininni að þeir sem tóku þátt í að skuldbinda Ísland með þessum hætti með atkvæðum sínum á Alþingi var til að mynda Miðflokkurinn. Þrátt fyrir að allt sem kom fram af minni hálfu hafi verið hárrétt virðist þetta hafa farið svo mikið fyrir brjóstið á formanninum að hann steig sérdeilis skoðanaglaður fram á ritvöllinn.
Í grein sinni afgreiðir formaðurinn yfirferð mína á aðdraganda málsins sem svo að Sjálfstæðisflokkurinn hafi tekið upp nýja nálgun sem felist í því að gjörðir Sjálfstæðisflokksins séu Miðflokknum að kenna því flokkurinn sá með sína tvo þingmenn hafi ekki komið í veg fyrir þær. Maður kemst ekki hjá því að finnast að þarna sé annars vegar verið að líta ansi stórt á sig og hins vegar sé þarna einkar lipur undankoma frá ábyrgð á eigin gjörðum.
Formaðurinn afgreiðir svo sem alla ábyrgð í málinu snaggaralega með að það eigi bara ekkert að standa við skuldbindingar ef manni sýnist svo. Þó sú afstaða formannsins sé áhugaverð og efni í lengri umræðu nefnir hann í engu hvort hefði ekki verið ærlegra fyrir Miðflokkinn að taka hreinlega ekki þátt í skuldbindingunum yfir höfuð?
Nokkrar laufléttar staðreyndir
Formaðurinn hefur kvartað yfir að með Mannréttindastofnun sé verið að ausa fjármunum úr ríkissjóði og miðað við málflutninginn mætti halda að hér væri um að ræða eitt kostnaðarsamasta bákn sem sett hefur verið á laggirnar lengi. Það virðist vera að formaðurinn hafi ekki haft fyrir því að kynna sér hver útgjaldaaukning ríkissjóðs vegna Mannréttindastofnunar er en hún nemur samtals 44 milljónum króna á ári.
Það skýrist mikið til af tilfærslu fjármuna þar sem til að mynda opinbert fjárframlag til Mannréttindaskrifstofu færist til stofnunarinnar með tilheyrandi samlegðaráhrifum. Það er auðvitað alltaf hlutverk okkar að vera gagnrýnin á útgjöld ríkisins og þó að 44 milljónir eru vissulega fjármunir er ekki hægt að halda öðru fram en að í öllu samhengi sé þarna um að ræða frekar takmarkaðan kostnaðarauka nýrrar stofnunar.
Í samanburði við aðra útgjaldaliði má til gamans líta af handahófi til launakostnaðar ríkisins vegna tveggja þingmanna, en hann er umtalsvert hærri eða 52 milljónir króna á ári.
Það er reyndar ástæða til að nefna að Sjálfstæðisflokkurinn hefur gert sitt á liðnum þingvetri til að lágmarka slíkar byrðar á ríkissjóð þar sem samþykkt frumvarp Bjarna Benediktssonar um breytingu á launahækkunum embættismanna og þjóðkjörinna fulltrúa mun spara ríkinu 283 milljónir króna á ársgrundvelli.
Spyr sá sem ekki veit
Það má brosa að því þegar formaðurinn baunar misrökstuddum alhæfingum í ýmsar áttir og lætur sem fólk sé með sig á heilanum þegar honum er svarað.
Það er rétt að ráðleggja formanninum að gjóa augunum frá slíkum samsæriskenningum og renna frekar eldsnöggt í gegnum samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Þar kemur nefnilega fram eitt af því sem hefur vafist fyrir formanninum sem er að aðildarríki samningsins skuli starfrækja sjálfstæða stofnun sem sett sé á fót með lögum.
Formaðurinn gæti í framhaldinu sleppt því að furða sig svona á hvers vegna önnur félög og stofnanir sem kenni sig við mannréttindi hafi ekki tekið þetta verkefni að sér. Örlítil rannsóknarvinna hefði dugað honum til að átta sig á að því miður er engin stofnun til staðar hér á landi sem uppfyllir þessar kröfur samningsins og því brugðið á það ráð í staðinn að opinbert fjárframlag til Mannréttindaskrifstofu renni eftirleiðis alfarið til hinnar nýju stofnunar sem uppfyllir kröfurnar.
Þá kvartar formaðurinn jafnframt yfir hinum „yfirgengilegu valdheimildum“ sem hann segir að Mannréttindastofnun hafi og vísar til 7. gr. laganna sem snýr að aðgangi stofnunarinnar að upplýsingum.
Réttur Mannréttindastofnunar til upplýsinga er reyndar ekki yfirgengilegri en svo að hann er sambærilegur og á við um aðrar eftirlitsstofnanir, s.s. Umboðsmann barna, Jafnréttisstofu og Persónuvernd. Munurinn á valdheimildum Mannréttindastofnunar og annarra eftirlitsstofnana er þó sá að Mannréttindastofnun hefur engin þvingunarúrræði til að fá sínu fram né heimild til að beita viðurlögum.
Því er ljóst að allar yfirlýsingar um yfirgengilegar valdheimildir Mannréttindastofnunar standast einfaldlega ekki skoðun. Í þeim orðum mínum felast að sjálfsögðu ekki nein skilaboð önnur en að útskýra hvað felst í stjórnskipulegri stöðu stofnanarinnar varðandi valdheimildir þar sem það er augljóslega á reiki.
Skreyting með stolnum fjöðrum
Í gegnum tíðina hefur Miðflokkurinn stutt aðild Íslands að samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, bæði í atkvæðagreiðslum á Alþingi og í málefnaályktunum flokksins. Óljóst er hins vegar á hverju sá stuðningur byggir þar sem báðir þingmenn flokksins ná ekki upp í nefið á sér þegar staðið er við þær skuldbindingar sem í samningnum felast.
Verður ekki annað séð en að Miðflokksmenn vilji ólmir geta skreytt sig þeim fjöðrum sem felast í samningnum, en á sama tíma vera andsnúnir því að efna samninginn og agnúast með ýkjum út í þá sem að axla þá ábyrgð. Það er mikill munaður að geta leyft sér að vera ósamkvæmur sjálfum sér og gaspra án ábyrgðar og er staða Miðflokksmanna í stjórnarandstöðu til marks um það.
Að endingu þessara skoðanaskipta óskar þingflokksformaðurinn þess að formaðurinn njóti sumarsins sem best og hlakkar til næstu orrustu lýðræðislegrar umræðu til gagns og gamans.
Greinin birtist á visir.is 5. júlí 2024.