Tilveruréttur stjórnmálaflokks

Óli Björn Kárason alþingismaður:

Aðeins strút­ur­inn sting­ur höfðinu í sand­inn og neit­ar að horf­ast í augu við staðreynd­ir. Fyr­ir stjórn­mála­mann fel­ur það feigðina í sér. Rök­in fyr­ir til­veru stjórn­mála­flokks finn­ast ekki í sand­in­um.

Sjálf­stæðis­flokk­ur­inn stend­ur frammi fyr­ir erfiðum áskor­un­um á næstu vik­um og mánuðum. Hvort og þá hvernig for­ysta og þing­menn flokks­ins tak­ast á við aug­ljóst and­streymi og póli­tíska stöðu ræður úr­slit­um um gengi flokks­ins í kom­andi alþing­is­kosn­ing­um sem verða í síðasta lagi haustið 2025. Oft er það ekki sér­lega skemmti­legt að líta í eig­in barm þegar tek­ist er á við erfiðleika, en und­an því kom­umst við ekki sem höf­um notið þess trúnaðar kjós­enda að sitja á Alþingi fyr­ir Sjálf­stæðis­flokk­inn.

Allt frá árs­byrj­un 2023 hef­ur Sam­fylk­ing­in mælst með meira fylgi en Sjálf­stæðis­flokk­ur­inn, sam­kvæmt Gallup. Frá nóv­em­ber síðastliðnum hef­ur stuðning­ur við Sjálf­stæðis­flokk­inn aldrei mælst yfir 20% – eða í átta mánuði sam­fellt.

Að ná vopn­um sín­um

Eðli­legt er að sjálf­stæðis­fólk um allt land hafi skipt­ar skoðanir á því hvaða ástæður liggja að baki minnk­andi fylgi. Opin og hrein­skipt­in umræða hef­ur verið aðals­merki Sjálf­stæðis­flokks­ins, jafnt á lands- og flokks­ráðsfund­um og á al­menn­um fé­lags­fund­um. Þar er oft tek­ist hart á um menn og mál­efni. Hafi flokk­ur­inn ein­hvern tíma þurft á rök­ræðum og skoðana­skipt­um að halda þá er það þegar á móti blæs. Mark­miðið er, eins og ætíð, að ydda og marka póli­tíska hægri stefnu, breyta vinnu­brögðum og herða mál­flutn­ing­inn með sjálfs­trausti þess sem hef­ur fjölda sam­herja sér að baki. En um leið læra af mis­tök­um liðinna ára.

Þannig og aðeins þannig nær Sjálf­stæðis­flokk­ur­inn vopn­um sín­um og fyrri styrk. Nær að laða aft­ur til sín fjölda kjós­enda sem hafa orðið fyr­ir von­brigðum – finnst flokk­ur­inn og kjörn­ir full­trú­ar hafa fjar­lægst dag­legt líf launa­fólks og sjálf­stæða at­vinnu­rek­and­ann. Sé orðinn hluti af „kerf­inu” frem­ur en flokk­ur sem berst fyr­ir opnu sam­fé­lagi þar sem ein­stak­ling­ur­inn er í önd­vegi og allt snýst um vel­ferð hans og fjár­hags­legt sjálf­stæði. Hafi valið að setja hug­sjón­ir út í horn í mála­miðlun og huggu­leg­um sam­ræðum um tækni­leg­ar út­færsl­ur við póli­tíska and­stæðinga sem eru tíma­bundið sam­verka­menn í rík­is­stjórn.

Okk­ur sem skip­um þing­flokk Sjálf­stæðis­flokks­ins kann að finn­ast þetta allt byggt á mis­skiln­ingi. Við bend­um á veru­lega lækk­un skatta á síðustu árum og gríðarlega aukn­ingu kaup­mátt­ar launa. Þrátt fyr­ir al­var­leg efna­hags­leg áföll – Covid og elds­um­brot á Reykja­nesi – hafi tek­ist að verja vel­ferðar­kerfið. Ísland sé meðal mestu vel­meg­un­arþjóða heims.

Flokk­ur er ekki fyr­ir sig sjálf­an

En góður ár­ang­ur á ýms­um sviðum breyt­ir engu um til­finn­ing­ar þeirra kjós­enda sem hafa orðið frá­hverf­ir Sjálf­stæðis­flokkn­um. Stjórn­mála­flokk­ur sem átt­ar sig ekki á und­ir­straum­um sam­fé­lags­ins og virðir ekki til­finn­ing­ar þeirra sem hann vill höfða til nær litl­um ár­angri. Hann miss­ir er­indi sitt hægt og bít­andi.

Við sem höf­um fylkt okk­ur und­ir merki öfl­ug­ustu og áhrifa­mestu hreyf­ing­ar borg­ara­legra afla – Sjálf­stæðis­flokks­ins – þurf­um að minna hvert annað á að stjórn­mála­flokk­ur er ekki til fyr­ir sjálf­an sig, held­ur myndaður um sam­eig­in­lega hug­sjón og stefnu, svo vitnað sé í orð Davíðs Odds­son­ar þáver­andi for­manns í viðtali við Morg­un­blaðið 2004 þegar 75 ára af­mæli flokks­ins var fagnað. Davíð bætti við að ef flokk­ur­inn höfðaði ekki til fólks­ins í land­inu ætti hann eng­an til­veru­rétt. Til­vera Sjálf­stæðis­flokks­ins bygg­ist á því að fólkið finni „til sam­kennd­ar með grund­vall­ar­atriðum stefnu hans um frelsi og sjálf­stæði”.

Í ág­úst 2019 hélt ég því fram hér á síðum Morg­un­blaðsins að stjórn­mála­flokk­ur sem þolir ekki átök hug­mynda og hörð skoðana­skipti visni upp og glati til­gangi sín­um. Slík­ur flokk­ur verði aldrei hreyfiafl fram­fara eða upp­spretta nýrra hug­mynda. Þess vegna get­um við í þingliði Sjálf­stæðis­flokks­ins „ekki kveinkað okk­ur und­an gagn­rýni flokks­bræðra og -systra”. Hún sé hluti af starfi okk­ar. Okk­ur beri skylda til að hlusta og taka til­lit til og skilja ólík sjón­ar­mið. En um leið verðum við, hvert og eitt okk­ar, að hafa burði til að svara og taka af­stöðu, en feykj­ast ekki líkt og lauf í vindi til að geðjast þeim sem rætt er við hverju sinni.

Í huga Bjarna Bene­dikts­son­ar eldri voru það ein­föld sann­indi að menn komi engu góðu til veg­ar án þess að þora „að hugsa sjálf­stætt” og fylgja hugs­un sinni eft­ir.

Hug­sjón­ir í for­gang

Und­ir lok ág­úst kem­ur flokks­ráð Sjálf­stæðis­flokks­ins sam­an. Þar get­um við sjálf­stæðis­menn sett hug­sjón­ir í for­gang. Grunn­stefið er sjálf­stæði lands­ins og frelsi ein­stak­ling­anna. Flokks­ráðsfund­ur­inn get­ur markað nýtt upp­haf í bar­átt­unni fyr­ir opnu sam­fé­lagi þar sem sköp­un­ar­gáfa og at­hafnaþrá hvers og eins fær að njóta sín. Með skýr­um skila­boðum um að skor­in verði upp her­ör gegn tækni­leg­um krat­isma þar sem braut­in fyr­ir sjálf­stæða at­vinnu­rek­and­ann verður rudd end­ur­nýj­ast trúnaðarsam­band sem hef­ur trosnað upp.

Hrein­skiptn­ar umræður á flokks­ráðsfundi geta markað upp­haf að nýrri sókn Sjálf­stæðis­flokks­ins þar sem áhersl­an er á hag millistétt­ar­inn­ar og at­vinnu­lífs­ins. Fyr­ir­heit­in eru skýr: Sjálf­stæðis­flokk­ur­inn ætl­ar að leggja grunn­inn að fjár­hags­legu sjálf­stæði allra. Eng­inn stjórn­mála­flokk­ur skil­ur bet­ur sam­hengið milli fjár­hags­legs sjálf­stæðis, jafn­rétt­is, lágra skatta, at­vinnu­frels­is og vel­sæld­ar.

Tæki­fær­in eru fyr­ir hendi fyr­ir okk­ur sjálf­stæðis­menn og það er okk­ar að grípa þau eða glata.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 3. júlí 2024.