Óli Björn Kárason alþingismaður:
Aðeins strúturinn stingur höfðinu í sandinn og neitar að horfast í augu við staðreyndir. Fyrir stjórnmálamann felur það feigðina í sér. Rökin fyrir tilveru stjórnmálaflokks finnast ekki í sandinum.
Sjálfstæðisflokkurinn stendur frammi fyrir erfiðum áskorunum á næstu vikum og mánuðum. Hvort og þá hvernig forysta og þingmenn flokksins takast á við augljóst andstreymi og pólitíska stöðu ræður úrslitum um gengi flokksins í komandi alþingiskosningum sem verða í síðasta lagi haustið 2025. Oft er það ekki sérlega skemmtilegt að líta í eigin barm þegar tekist er á við erfiðleika, en undan því komumst við ekki sem höfum notið þess trúnaðar kjósenda að sitja á Alþingi fyrir Sjálfstæðisflokkinn.
Allt frá ársbyrjun 2023 hefur Samfylkingin mælst með meira fylgi en Sjálfstæðisflokkurinn, samkvæmt Gallup. Frá nóvember síðastliðnum hefur stuðningur við Sjálfstæðisflokkinn aldrei mælst yfir 20% – eða í átta mánuði samfellt.
Að ná vopnum sínum
Eðlilegt er að sjálfstæðisfólk um allt land hafi skiptar skoðanir á því hvaða ástæður liggja að baki minnkandi fylgi. Opin og hreinskiptin umræða hefur verið aðalsmerki Sjálfstæðisflokksins, jafnt á lands- og flokksráðsfundum og á almennum félagsfundum. Þar er oft tekist hart á um menn og málefni. Hafi flokkurinn einhvern tíma þurft á rökræðum og skoðanaskiptum að halda þá er það þegar á móti blæs. Markmiðið er, eins og ætíð, að ydda og marka pólitíska hægri stefnu, breyta vinnubrögðum og herða málflutninginn með sjálfstrausti þess sem hefur fjölda samherja sér að baki. En um leið læra af mistökum liðinna ára.
Þannig og aðeins þannig nær Sjálfstæðisflokkurinn vopnum sínum og fyrri styrk. Nær að laða aftur til sín fjölda kjósenda sem hafa orðið fyrir vonbrigðum – finnst flokkurinn og kjörnir fulltrúar hafa fjarlægst daglegt líf launafólks og sjálfstæða atvinnurekandann. Sé orðinn hluti af „kerfinu” fremur en flokkur sem berst fyrir opnu samfélagi þar sem einstaklingurinn er í öndvegi og allt snýst um velferð hans og fjárhagslegt sjálfstæði. Hafi valið að setja hugsjónir út í horn í málamiðlun og huggulegum samræðum um tæknilegar útfærslur við pólitíska andstæðinga sem eru tímabundið samverkamenn í ríkisstjórn.
Okkur sem skipum þingflokk Sjálfstæðisflokksins kann að finnast þetta allt byggt á misskilningi. Við bendum á verulega lækkun skatta á síðustu árum og gríðarlega aukningu kaupmáttar launa. Þrátt fyrir alvarleg efnahagsleg áföll – Covid og eldsumbrot á Reykjanesi – hafi tekist að verja velferðarkerfið. Ísland sé meðal mestu velmegunarþjóða heims.
Flokkur er ekki fyrir sig sjálfan
En góður árangur á ýmsum sviðum breytir engu um tilfinningar þeirra kjósenda sem hafa orðið fráhverfir Sjálfstæðisflokknum. Stjórnmálaflokkur sem áttar sig ekki á undirstraumum samfélagsins og virðir ekki tilfinningar þeirra sem hann vill höfða til nær litlum árangri. Hann missir erindi sitt hægt og bítandi.
Við sem höfum fylkt okkur undir merki öflugustu og áhrifamestu hreyfingar borgaralegra afla – Sjálfstæðisflokksins – þurfum að minna hvert annað á að stjórnmálaflokkur er ekki til fyrir sjálfan sig, heldur myndaður um sameiginlega hugsjón og stefnu, svo vitnað sé í orð Davíðs Oddssonar þáverandi formanns í viðtali við Morgunblaðið 2004 þegar 75 ára afmæli flokksins var fagnað. Davíð bætti við að ef flokkurinn höfðaði ekki til fólksins í landinu ætti hann engan tilverurétt. Tilvera Sjálfstæðisflokksins byggist á því að fólkið finni „til samkenndar með grundvallaratriðum stefnu hans um frelsi og sjálfstæði”.
Í ágúst 2019 hélt ég því fram hér á síðum Morgunblaðsins að stjórnmálaflokkur sem þolir ekki átök hugmynda og hörð skoðanaskipti visni upp og glati tilgangi sínum. Slíkur flokkur verði aldrei hreyfiafl framfara eða uppspretta nýrra hugmynda. Þess vegna getum við í þingliði Sjálfstæðisflokksins „ekki kveinkað okkur undan gagnrýni flokksbræðra og -systra”. Hún sé hluti af starfi okkar. Okkur beri skylda til að hlusta og taka tillit til og skilja ólík sjónarmið. En um leið verðum við, hvert og eitt okkar, að hafa burði til að svara og taka afstöðu, en feykjast ekki líkt og lauf í vindi til að geðjast þeim sem rætt er við hverju sinni.
Í huga Bjarna Benediktssonar eldri voru það einföld sannindi að menn komi engu góðu til vegar án þess að þora „að hugsa sjálfstætt” og fylgja hugsun sinni eftir.
Hugsjónir í forgang
Undir lok ágúst kemur flokksráð Sjálfstæðisflokksins saman. Þar getum við sjálfstæðismenn sett hugsjónir í forgang. Grunnstefið er sjálfstæði landsins og frelsi einstaklinganna. Flokksráðsfundurinn getur markað nýtt upphaf í baráttunni fyrir opnu samfélagi þar sem sköpunargáfa og athafnaþrá hvers og eins fær að njóta sín. Með skýrum skilaboðum um að skorin verði upp herör gegn tæknilegum kratisma þar sem brautin fyrir sjálfstæða atvinnurekandann verður rudd endurnýjast trúnaðarsamband sem hefur trosnað upp.
Hreinskiptnar umræður á flokksráðsfundi geta markað upphaf að nýrri sókn Sjálfstæðisflokksins þar sem áherslan er á hag millistéttarinnar og atvinnulífsins. Fyrirheitin eru skýr: Sjálfstæðisflokkurinn ætlar að leggja grunninn að fjárhagslegu sjálfstæði allra. Enginn stjórnmálaflokkur skilur betur samhengið milli fjárhagslegs sjálfstæðis, jafnréttis, lágra skatta, atvinnufrelsis og velsældar.
Tækifærin eru fyrir hendi fyrir okkur sjálfstæðismenn og það er okkar að grípa þau eða glata.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 3. júlí 2024.