Einar K. Guðfinnsson ræðir farsælan 25 ára feril í stjórnmálum
'}}

Einar K. Guðfinnsson fyrrverandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og forseti Alþingis er gestur Guðnýjar Halldórsdóttur í ellefta þætti hlaðvarpsþáttaraðar um samofna 95 ára sögu Sjálfstæðisflokksins og 80 ára sögu lýðveldis. Hljóðútgáfu af þættinum má nálgast hér.

Einar var þingmaður Sjálfstæðisflokksins frá 1991-2016, fyrst fyrir Vestfirði en frá 2003 fyrir Norðvesturkjördæmi. Einar var formaður þingflokks Sjálfstæðisflokksins frá 2003-2005. Hann var sjávarútvegsráðherra 2005-2007 og jafnframt landbúnaðarráðherra 2007 en síðan sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra til 2009. Frá 2013-2016 var hann forseti Alþingis.

„Ég held að það sé óhætt að segja að ég hafi verið pólitískur frá unglingsárum og ég fylgdist mjög vel með. Línuna fekk ég í gegnum Morgunblaðið þegar kom ég í gegnum brefalúguna í Bolungarvík og ég beið eftir að geta lesið Moggann. Það má kannski segja að þegar ég kom síðan í Menntaskólanna á Ísafirði 1971, þá opnuðust dálítið flóðgáttir. Þá lærði maður nýja hluti, pólitík, sögu, hagfræði og átti þess kost að taka þátt í félagsstarfi sem var kannski ekki endilega mjög pólitíst í menntaskólanum. Við vorum að velta fyrir okkur svona praktískun hlutum. Hvernig á að búa á Vestfjörðum? Hvað getur við gert sem erum ungir nemendur til þess að efla mannlífið og gróskuna á Ísafirði og Vestfjörðum?,“ segir Einar um það hvernig kom til að hann leiddist út í stjórnmál.

Einar segir þetta hafa verið á margan hátt merkilega tíma. Í upphafi áttunda áratugarins hafi orðið til ákveðin pólitísk deigla. Út úr henni hafi komið endurvakning frjálslyndra hugmynda, en þeir sem voru hægra megin við miðju á þeim árum hafi ekki endilega verið að velta sér mikið upp úr pólitískri hugmyndafræði heldur meira að leysa málin, reka landið og þjóðarbúið vel.

„Ég var síðan svo heppinn og reyndar hafði að því stefnt að ég fór til útlanda til Bretlands til náms. Og þá uppgvötaði ég nýja hluti sem að mér höfðu verið alveg ókunnugir. Þá var að verða opinberari þessi hugmyndafræðilega vakning sem kennd hefur verið við frjálshyggju. Ég var í háskóla í Bretlandi þegar Margrét Thacher varð forsætisráðherra og ég leit mjög mikið upp til hennar. Hún var svona ákveðið leiðarljós fyrir okkur sem vorum hægra megin við miðju og svona á þessum árum kannski miklu róttækari heldur um að maður seinna varð,“ segir hann.

Segir hann að það sem þá hafi verið boðað hafi þótt mjög róttækt en sé í dag orðin viðtekin vekja. Nefnir hann sem dæmi að það kæmi líklega ekki til greina í dag að ríkið myndi opna ríkisprentsmiðju eða ferðaskrifstofu eins og ríkið rak á þessum árum.

Kjörinn á þing 1991

„Þetta fannst mér mjög merkilegur og skemmtilegur tími og ég fer síðan á þing 1991. Það voru auðvitað mjög merkilega kosningar á margan hátt. Meðal annars vegna þess að það urðu mjög mikla breytingar á þingmannahópnum, ekki bara Sjálfstæðisflokknum heldur bara almennt,“ segir Einar.

„Davíð Oddsson var okkar öflugi formaður sem hafði ákveðna sýn sem hann knúði áfram af sínum alkunna dugnaði og stefnufestu og við náðum saman með Alþýðuflokknum á þessum tíma í hinni frægu Viðeyjarstjórn sem að mínu mati hafði gríðarlega mikil og jákvæð áhrif,“ segir hann.

Einar segir þetta hins vegar hafa verið mjög erfiðan tíma og margir eflaust búnir að gleyma því en á upphafsárum Viðeyjarstjórnarinnar hafi verið mikill og stöðugur samdráttur og mikil vinna farið í að snúa því við.

„Ég var ungur þingmaður á þessum tíma og var svo heppinn að fara inn í fjárlaganefnd. Ég ætlaði mér ýmsa hluti til þess að greiða fyrir hlutum í mínu kjördæmi og standa við eitt og annað sem við höfðum hugsað okkur að gera sjálfstæðismenn. En svigrúmið til slíkra hluta, hvort sem það var til skattalækkana eða útgjalda á einhverjum ákveðnum afmörkuðum sviðum, einhverjum ákveðnum verkefnum sem við töldum að gætu verið til hagsbóta – allt þetta var mjög erfitt,“ segir hann.

Hann segir að þessi hafi þú verið snúið við og að það sem hafi helst gert það að verkum hafi verið þessi breyting sem orðið hafi verið á hugmyndafræðilegri nálgun sem skilaði þjóðinni fram veginn.

EES-samningurinn happaspor

„Síðan verð ég að nefna að þarna á þessum tíma þá varð til EES-samningurinn sem við undirgengust sem að mínum mati var mikið happaspor. Þar náðum við því að fá aðgang með okkar vörur að mestu leyti inn á þennan stóra velborgandi markað í Evrópu, án þess að verða aðilar að Evrópusambandinu,“ segir hann.

Hann segir að ef við berum okkur saman við ESB-ríkin þá sé ljóst að vandi eins ríkis sé vandi allra en að við búum ekki við það og höfum í gegnum EES-samninginn fengið markaðsaðgang sem skipti miklu máli.

„Þarna stigum við happaskref sem kannski varð þess valdandi að þjóðin skynjaði að það væri ekkert sem knúði á að við færum inn í Evrópusambandi þó að til þess hafi verið gerðar margar tilraunir sem sem betur feru var alltaf hrint á bak aftur,“ segir hann.

Miklar breytingar á sviði fjarskipta

Árið 1995 verður Einar 1. þingmaður Vestfjarða sem hann segir hafa verið mikið ábyrgðarstarf. Hann hafi orðið formaður samgöngunefndar Alþingis sem sér hafi þótt mjög spennandi.

Nefnir hann að hann hafi í fyrstu eins og flestir ímyndað sér að það væri nefnd sem fjallaði fyrst og fremst um vegi, flugvelli og hafnir sem væru ótæmandi verkefni í sínu kjördæmi.

„En annað kom á daginn. Auðvitað voru þessir málaflokkar gríðarlega öflugir. En það sem gerðist var að þarna urðu ákveðin þáttaskil á Íslandi vegna þess að tæknin var að breytast. Það voru að verða til allt aðrar aðstæður. Við höfðum verið með eitthvað sem við kölluðum Póst- og símamálastofnun. Það var ríkisstofnun sem sá um rekstur allra pósthúsa, símstöðva sem voru í hverju einasta byggðalagi og sá um allt sem sneri að því að tala í símann, senda póst og svo framvegis. Þarna var allt í einu að breytast veruleikinn. Tæknin var komin og var að ryðja burtu þessu fyrirkomulagi sem enginn hafði búist við að myndu breytast,“ segir hann

Það hafi orðið að gera grundvallarbreytingar. Hann segir að menn hafi ekki áttað sig á því en þarna hafi verið opnað lagalegt umhverfi fyrir þeim breytingum sem voru nauðsynlegar á fjarskiptasviði til þess að gera það sem við þekkjum í dag mögulegt.

„Þarna voru að mínu mati stigin mjög merkileg framfaraspor,“ segir Einar.

Hann nefnir fleiri dæmi þar sem hann axlaði ábyrgð, m.a. sem þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins.

„Ég var þingflokksformaður sem var verkefni sem ég hafði óskaplega gaman af. Það gaf mér kost á því að taka þátt í harðri pólitískri umræðu í þingsal sem ég hafði alltaf mjög gaman af. Að glíma við ýmsa pólitíska andstæðinga sem voru kannski góðir vinir mínir,“ segir hann.

Nefnir hann sem dæmi að Össur Skarphéðinsson hafi orðað það þannig að Einar væri snillingur í því að verja vondan málstað.

„Mér fannst það mikið hrós og stærði mig svolítið af þessu,“ segir hann.

Verður sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra

„Já, það gerðist haustið og síðari hluta árs 2005 að ég verð sjávarútvegsráðherra fyrst til að byrja með og síðan eftir kosningarnar 2007 þá fórum við í ríkisstjórn með Samfylkingunni og þá voru þessi ráðuneyti sameinuð, sjávarútvegs – og landbúnaðarráðuneytið en um leið gerð ákveðin uppstokkun og tiltekin verkefni sem áður höfðu heyrt undir þessi ráðuneyti. Fluttum meðal annars búnaðarskólana til menntamálaráðuneytisins,“ segir Einar.

Hann segir að það hafi verið forréttindi að fá að gegna embætti sjávarútvegsráðherra.

„Ég kem úr sjávarútvegnum og hafði verið sá málaflokkur sem ég hafði haft hvað mest afskipti af á mínum þingferli. Þarna var komið að verkefni sem ég hafði auðvitað brennandi áhuga á og reyndi að helga mig að eins miklum krafti og ég mögulega gat,“ segir hann.

Hann nefnir þó að það hafi ekki alltaf verið þægilegt og nefnir sem dæmi þegar hann stóð frammi fyrir því að þurfa að skera niður aflaheimildir í þorski út frá tillögu Hafrannsóknarstofnunar. Það myndi hafa mjög neikvæð áhrif á sjávarbyggðir í hans kjördæmi en vonir stæðu til að stofninn myndi ná sér á tveimur árum.

„Ríkisstjórnin var auðvitað höfð með í ráðum þó ég tæki hina formlegu ákvörðun sjálfur og ég gerði það auðvitað í trausti þess og fullvissu þess og vitneskju um það eftir ríkisstjórnarfundi að ríkisstjórnin stæði heilshugar á bak við mig um að fara þá leið að fara í þennan bratta niðurskurð í trausti þess að innan tveggja ára eins og menn höfðu talað um færum við að sjá til lands og aftur að fara að auka aflaheimildirnar“, segir hann.

Það hafi þó ekki reynt á það gagnvart honum því þegar ríkisstjórnin fór frá 2009 í kjölfar efnahagshrunsins hafi ekki verið farið að reyna á þessa ákvörðun.

Leyfði aftur hvalveiðar

„Hitt stóra málið sem vakti hvað mesta athygli á þeim tíma sem ég var ráðherra það var að ég hafði á mínum þingmannsferli verið mikill baráttumaður fyrir því að hefja hvalveiðar og taldi einfaldlega að það ætti að nýta hvalastofnana með sama hætti og aðra nytjastofna sjávar – bara með ábyrgum hætti,“ segir hann.

Það ætti að veiða ekki meira en svo að stofnarnir gætu endurnýjað sig.

„hafði verið tekist mjög harkalega á um þetta. Menn höfðu haldið því fram að ef að hvalveiðar hæfust þá myndi verða hrun í ferðaþjónustu, þá myndi fiskur hætta að seljast í Bandaríkjunum sérstaklega og það yrði hér fimbulvetur í efnahagslegu tilliti ef hvalveiðar hæfust,“ segir Einar.

Hann hafi aldrei skilið þessi rök og þótt þau fáránleg. Nefnir hann að forveri hans Árni M. Mathiesen hafi heimilað hrefnuveiðar en að Einar hafi hugsað sér að leyfa einnig veiðar á langreiði.

„Niðurstíðan mín var sú að ég ætlaði ekki að hverfa úr stóli sjávarútvegsráðherra öðruvísi en að koma þessum hvalveiðum af stað vegna þess að mér fannst vera öll rök sem myndu hníga með því. Ég lét vaða þarna rétt áður en ég fór úr starfi. Þetta var mjög umdeilt á þessum tíma. Margir töldu að ég hefði farið langt út fyrir mitt verksvið. En það var auðvitað ekki þannig. Ég hafði vald og fullan rétt til þess að taka þessa ákvörðun. Ég var lögmætur sjávarútvegsráðherra og hafði fullan rétt til þess að gera þetta,“ segir hann.

Hann segir Steingrím J. Sigfússon eftirmann sinn í starfi hafa látið kanna hvort hægt væri að snúa við og hætta við ákvörðun sína um hvalveiðar.

„Niðurstaða athugana hans var sú að ég hefði haft fullan rétt til þess – hversu geðfelld sem mönnum finndist ákvörðun mín. Það varð niðurstaðan. Þegar við horfum til baka þá sjáum við að þetta hafði nákvæmlega engin áhrif sem áður hafði verið haldið fram. Fiskurinn seldist jafn vel í Bandaríkjunum og áður. Ferðamannastraumurinn til Íslands hann stórjókst,“ segir Einar.

Hann er mikill talsmaður þess að við Íslendingar höldum áfram hvalveiðum.

„Það er sagt að við eigum að stunda auðlindanýtingu á grundvilli vísindalegrar nálgunar. Það höfum við gert í sambandi við hvalveiðarnar. Afhverju höldum við því ekki áfram? Það er ekkert að. Það eru ekki hvalveiðar sem hafa valdið neinum efnahagslegum spjöllum hér, nema síður sé og það eru bara öll rök sem hníga að því að um þetta gildi þessi eðlilegu sjónarmið um auðlindanýtingu með sjálfbærum hætti,“ segir hann.

Í stjórnarandstöðu 2009

„Það verða þessi miklu þáttaskil 2009. Það var sérkennilegt að Sjálfstæðisflokknum var refsað í kjölfar bankahrunsins, en Samfylkingin sem hafði meðal annars farið með málefni banka í þeirri samstjórn fékk húrrandi meðbyr. Félagar mínir úr ríkisstjórn úr Samfylkingunni urðu áfram ráðherrar eins og ekkert hefði ískorist. Þetta voru mjög erfiðir tímar. Þetta voru gríðarlegir erfiðleikar í efnahagslífinu hér á landi og var auðvitað ekkert öfundsvert að reyna að stjórna landinu við þær aðstæður,“ segir hann.

Segir hann þeirri ríkisstjórn hafa verið mislagðar hendur og gert margt rangt.

„Kannski var það einna vitlausast hjá þeim að reyna að teygja sig út um alla þorpagrundir, en ætla sér að reyna að breyta öllu mögulegu eins og til dæmis stjórnarskránni sem þeim varð nú ekki kápan úr því klæðinu,“ nefnir hann og eins sjávarútvegsmálin. Þau hafi svo misst fótanna og allan trúverðugleika sem hafi komið fram í kosningunum 2013.

„Þannig að þeirra ríkisstjórnar verður ekki síst minnst fyrir það hafa reynt að þenja sig út um víðan völl í stað þess að leggja áherslu á tiltekin mál þau hefðu betur gert,“ segir hann.

Verður forseti Alþingis

„Við förum inn í ríkisstjórn 2013 að loknum kosningum þá er niðurstaðan sú að ég verð þingforseti. Ég hafði sjálfur kosið að verða ráðherra til að geta látið verkin tala. Ég hafði aldrei upplifað sjálfan mig sitjandi á friðarstóli þar sem ég ætlaði fyrst og fremst að reyna að miðla málum. Það tók mig dálítinn tíma, ég bara viðurkenni það, að setja mig í þessar stellingar,“ segir hann.

Hann hafi þarna þurft að breyta nálgun sinni fyrr en hann hafi búist við en hann hafi notið þess mjög að vera þingforseti.

„Mér fannst það spennandi og gott hlutskipti og áttaði mig auðvitað á því að virðuglegra og mikilvægara starf en að vera þingforseti er tæplega hægt að ímynda sér þegar kemur að hinu pólitíska sviði,“ segir Einar.

Hann segir að honum hafi þó boðist á kjörtímabilinu síðar að verða ráðherra.

„En ég þakkaði bara kurteisislega fyrir mig og sagðist bara gjarnan vilja fá að vera áfram í þessu starfi að vera þingforseti. Það breytti manni svolítið. Maður var stöðugt að leita málamiðlana, eiga gott samstarf við fólk. Ég hafði svosem átt það á margan hátt þvert á flokka. En þarna varð þetta formgert með einhverjum hætti. Ég hafði mjög gaman af þessu. Ég átti mjög gott samstarf við marga pólitíska andstæðinga og yfirleitt á ég bara góðar minningar frá þessu,“ segir Einar.

Þetta hafi þó oft verið erfiðir tímar þegar verið var að takast á við erfið mál og þurft að miðla málum, nudda þeim í gegnum þingið og skapa ró í kringum þingð svo auðveldara væri að koma málum í gegnum þingið.

„Stundum stókst vel og stundum illa og þetta voru oft erfiðir einstaklingar við að eiga, ekki sem einstaklingar kannski heldur bara vegna þeirra pólitísku stöðu. Menn höfðu bara þessa stjöðu, annars vegar stjórnarliðar sem vildu koma málum áfram og stjórnarandstæðingar sem vildu koma í veg fyrir að þau yrðu að lögum eða samþykktum Alþingis,“ segir Einar.

„Svo var það niðurstaða mín sem ég smám saman komst að, að ég myndi vilja hætta eftir lok þessa kjörtímabils. Svo var það kjörtímabil styttra en ég hugði og í staðin fyrir að ég myndi hætta vorið 2017 eins og ég hafði þá stefnt að, þó ég hefði ekki látið það uppi, þá hætti ríkisstjórnin haustið 2016 og þar með lauk ég mínum pólitíska ferli,“ segir hann.

Þáttinn má finna á Spotify hér.