Alþingi samþykkti breytingar á lögreglulögum við þinglok í júní. Með nýjum lögum eru heimildir lögreglu skýrðar og efldar í þágu afbrotavarna, einkum hvað varðar skipulagða brotastarfsemi og öryggi ríkisins.
Með lögunum er skerpt á heimildum lögreglu til að afla upplýsinga og viðhafa eftirlit í því skyni að draga úr brotastarfsemi. Jafnframt eru veittar afar takmarkaðar heimildir lögreglu til að grípa til beitingu þvingunarúrræða í afbrotavarnaskyni. Þá er einnig lagður grundvöllur fyrir innleiðingu á svonefndri upplýsingamiðaðari löggæslu (e. Intelligence Led Policicing).
„Skipulagðri brotastarfsemi hér á landi hefur vaxið fiskur um hrygg á síðasta áratug líkt og skýrslur greiningadeildar ríkislögreglustjóra og magn haldlagðra fíkniefna sýna glöggt fram á. Innlend sem erlend brotasamtök stunda skipulagðan innflutning á fíkniefnum sem og aðra fjölbreytta brotastarfsemi sem ógnar grundvallarhagsmunum íslensks þjóðfélags. Þróun þessarar starfsemi er okkur ekki hagfelld eins og atburðir undanfarið gefa til kynna og merkir lögregla aukna hörku í starfsemi brotasamtaka hér á landi. Manndráp, alvarlegar líkamsárásir og aukinn vopnaburður sýna slíkt svart á hvítu. Að sama skapi má ekki gera lítið úr möguleikanum á að hér á landi kunni að verða framin hryðjuverk eða önnur alvarleg brot gegn öryggi ríkisins eða tilraun til slíks atburðar skipulögð. Nýleg skýrsla greiningardeildar gefur einmitt til kynna sú hætta hafi aukist, í samræmi við þróun í nágrannaríkjum okkar,“ sagði Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra í flutningsræðu þegar frumvarpið var lagt fram á Alþingi sl. vetur.
Löggæsluyfirvöldum eru með lögunum veitt nauðsynleg verkfæri til að takast á við þá alvarlegu ógn sem ráðherra lýsti í ræðu sinni. Segir hún það vera grundvallarforsendu fyrir því að íslenskum stjórnvöldum takist að draga úr umfangi skipulagðrar brotastarfsemi að lögreglu verði veitt raunveruleg og skilvirk úrræði til að grípa til aðgerða áður en grunur um afbrot er til staðar og þannig nái að uppræta starfsemi skipulagðra brotasamtaka og vinna gegn frekari uppgangi þeirra.
„Hryðjuverk, landráð og önnur brot gegn öryggi ríkisins eru alvarlegustu brot sem um getur í almennum hegningarlögum enda ógna þau ekki aðeins sjálfstæði ríkisins og innviðum þess heldur einnig almennum borgurum og öllum sviðum þjóðfélagsins. Baráttan gegn brotum þessum er annars eðlis en almenn löggæsla í ljósi mikilvægis og nauðsynjar þess að lögregla geti brugðist við áður en slík brot eru framin. Vegna þessa hafa yfirvöldum, víðast hvar í hinum vestræna heimi, verið falin sérstök úrræði til að afstýra hryðjuverkum og öðrum brotum gegn öryggi viðkomandi ríkja,“ segir í greinargerð með frumvarpinu þegar það var lagt fram í samráðsgátt sl. vetur.
Sjá nánar hér.