Einföldun og betri nýting fjármagns með sameiningu tveggja sjóða

„Það er ánægjulegt að sameining sjóðanna í einn Loftslags- og orkusjóð sé orðin að veruleika. Skipulag við styrkveitingar ráðuneytisins hefur verið óþarflega flókið og valdið aukakostnaði sem betur er varið í styrkina sjálfa. Með lögunum sem nú hafa verið samþykkt getum við lagt skýrari áherslu á að þau verkefni sem styrkt eru stuðli að samdrætti í losun gróðurhúsalofttegunda,“ segir Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra en Alþingi samþykkti fyrir þinglok lög um nýjan Loftslags- og orkusjóð, sem verður til við  sameiningu Orkusjóðs og Loftslagssjóðs sem báðir heyra undir umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið.

Í frétt á vef ráðuneytisins segir að loftslags- og orkusjóður eigi að styðja við nýsköpunar- og innviðaverkefni á sviði loftslagsmála, orkunýtni, orkuskipta og hringrásarhagkerfis, einkum til verkefna í tengslum við innleiðingu nýrra loftslagsvænna lausna, auk þess að styðja við verkefni sem lúta að kynningu og fræðslu um áhrif loftslagsbreytinga.

Einföldun og betri nýting fjármagns er meginmarkmiðið með sameiningu sjóðanna. Stjórn Loftslags- og orkusjóðs verður skipuð fimm einstaklingum til fjögurra ára í senn. Formaður og einn fulltrúi í nefndinni eru skipaðir af ráðherra án tilnefningar, einn fulltrúi sem hefur þekkingu á loftslagsmálum er skipaður samkvæmt tilnefningu háskólasamfélagsins, einn fulltrúi samkvæmt tilnefningu Samtaka atvinnulífsins og einn fulltrúi samkvæmt tilnefningu umhverfisverndarsamtaka.