Kjartan Magnússon borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík:
Úttekt á samkeppnishæfni Íslands sýnir að víða er þörf á umbótum hjá hinu opinbera og í atvinnulífinu.
Íslendingar falla um sæti á milli ára og eru nú í 17. sæti af 67 í árlegri úttekt IMD-viðskiptaháskólans í Sviss á samkeppnishæfni þjóða. Mælingin gefur mikilvægar vísbendingar um hvar helst eru tækifæri til umbóta í atvinnulífi og opinberum rekstri. Mikilvægt er að þessar vísbendingar séu hagnýttar til að auka samkeppnishæfni þjóðarinnar.
Singapúr er nú í efsta sæti, Sviss í öðru og Danmörk í hinu þriðja, samkvæmt mælingunni, sem Viðskiptaráð hefur kynnt. Þessi ríki eru öll þekkt fyrir frjálst hagkerfi og öflugt atvinnulíf. Íslendingar eru enn eftirbátur annarra Norðurlandaþjóða í umræddri mælingu.
Úttekt IMD nær til 67 ríkja og byggist á 340 atriðum úr hagvísum og svörum úr stjórnendakönnun. Samkeppnishæfnin er metin út frá fjórum meginflokkum: efnahagslegri frammistöðu, skilvirkni hins opinbera, Skilvirkni atvinnulífs og samfélagslegum innviðum. Allt eru þetta lykilþættir varðandi verðmætasköpun og velferð þjóða. Hver meginflokkur hefur síðan fjölda undirflokka þar sem fjöldi ólíkra atriða er mældur.
Efnahagsleg frammistaða versnar
Slík mæling á samkeppnishæfni dregur fram hvernig við Íslendingar stöndum að vígi í alþjóðlegri samkeppni. Eftir því sem þjóðin stendur betur að vígi í þeirri keppni, aukast líkur á aukinni verðmætasköpun og bættum lífskjörum.
Efnahagsleg frammistaða Íslendinga versnar verulega á milli ára. Þjóðin er nú í 53. sæti á listanum og fellur um átta sæti á milli ára. Gott atvinnustig er helsti styrkur Íslands í þessum flokki. Helstu veikleikar eru hins vegar alþjóðaviðskipti, alþjóðleg fjárfesting og verðlag þar sem þjóðin er afar neðarlega á lista eða í 59.-60 sæti.
Minnkandi skilvirkni atvinnulífs
Ísland er nú í 13. sæti varðandi skilvirkni atvinnulífsins og fellur um þrjú sæti á milli ára. Lækkunina má skýra með versnandi stöðu varðandi stjórnarhætti, fjármögnun, viðhorf og gildismat. Hins vegar hækkar landið um þrjú sæti þegar litið er til framleiðni og skilvirkni og níu sæti varðandi vinnumarkað.
Aukin opinber skilvirkni
Skilvirkni hins opinbera er eini meginþátturinn þar sem Ísland hækkar á milli ára og færist upp í 17. sæti úr hinu 19. Hækkunina má rekja til sterkrar samfélagslegrar umgjarðar þar sem Ísland er í öðru sæti allra ríkja. Staða opinberra fjármála er metin óbreytt á milli ára þar sem landið er í 26. sæti. Staðan versnar hins vegar verulega varðandi skattastefnu (41. sæti) og stofnanaumgjörð (28. sæti).
Samfélagslegir innviðir
Samfélagslegir innviðir hafa lengi verið einn helsti styrkur Íslendinga í mælingunni en nú falla þeir um fimm sæti og fara úr 7. í 12. sæti. Mest afturför mælist varðandi tæknilega innviði þar sem þjóðin fellur um sex sæti og menntun þar sem hún fellur um fimm sæti.
Það á að vera sameiginlegt markmið atvinnulífsins og hins opinbera að tryggja sem best lífskjör hérlendis. Margar einkunnir í úttektinni gefa til kynna að hægt sé að bæta lífskjör verulega með því að auka frjálsræði í atvinnulífinu og stuðla að aga og umbótum í opinberum rekstri.
Viðskiptaráð hefur skilgreint fjögur forgangsatriði, sem líkleg eru til þess að skila góðum árangri í því eilífðarverkefni að auka samkeppnishæfni þjóðarinnar. Þessi atriði varða fjármál hins opinbera, skattastefnu, leikreglur og erlenda fjárfestingu.
Verk að vinna
Umbætur í fjármálum hins opinbera er lykilatriði. Hætta þarf taprekstri ríkis og sveitarfélaga og koma rekstrinum í jafnvægi. Æskilegt er að lækka skatta, t.d. fasteignaskatta og skatta á laun og hagnað fyrirtækja. Afnema þarf tolla og ryðja viðskiptahindrunum og samkeppnishindrunum úr vegi. Þá þarf að liðka fyrir erlendri fjárfestingu hérlendis.
Auk ofantaldra forgangsatriða er rétt að leggja áherslu á mikilvægi raunverulegra umbóta í menntamálum.
Niðurstaða IMD gefrur góðar vísbendingar um á hvaða sviðum við Íslendingar þurfum helst að bæta okkur. Mikilvægt er að niðurstöður yfirgripsmikillar úttektar IMD og verði nýttar til að tryggja áframhaldandi sókn til bættra lífskjara og velferðar.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 27. júní 2024.