Birgir Þórarinsson alþingismaður:
Alþingi hefur samþykkt ný útlendingalög. Gerðar eru mestu breytingar á lögum um útlendinga frá því að lögin voru sett árið 2016. Löggjöfin er færð nær því sem gildir annars staðar á Norðurlöndum og íslenskar sérreglur afnumdar. Ísland hefur tekið hlutfallslega á móti flestum hælisleitendum í Evrópu. Ástæðan er veikt regluverk. Þessu hefur verið breytt með nýju lögunum. Rúmlega 60% þjóðarinnar telja að of margir flóttamenn hafi fengið hæli hér á landi. Á Suðurlandi og Reykjanesi er þessi tala 80%. Sérstakt fagnaðarefni er að regluverkið í útlendingamálum hefur nú verið hert. Nýju lögin svara kalli þjóðarinnar. Með nýju lögunum mun hælisleitendum fækka. Draga mun úr álagi á félagslega kerfið og innviði í landinu. Kostnaður ríkissjóðs mun að sama skapi lækka en hann hefur farið úr öllum böndum. Útlendingafrumvarpið var samþykkt á Alþingi með 42 atkvæðum. Píratar voru á móti. Samfylking og Viðreisn sátu hjá.
Nú hefur það opinberast að Samfylkingin, sem mælst hefur stærsti stjórnmálaflokkurinn í könnunum, hefur hvorki burði né vilja til að styðja herta löggjöf í útlendingamálum. Í febrúar sagði formaður Samfylkingarinnar í ræðu á Alþingi að hún tæki mark á áhyggjum almennings í útlendingamálum. Þegar á hólminn var komið var ekki að marka þau orð. Samfylkingin stóð ekki með almenningi sem hefur áhyggjur og sat hjá. Formaður Samfylkingarinnar tók ekki til máls í atkvæðagreiðslunni.
Ég fagna því sérstaklega að gerðar hafa verið nauðsynlegar breytingar á kærunefnd útlendingamála og nefndarmönnum fækkað úr sjö í þrjá. Ég hef bæði í ræðu og riti talað fyrir þessum breytingum. Kærunefndin hefur haft óeðlilega mikil völd og tekið ákvarðanir sem eru þvert á framkvæmd útlendingamála í nágrannalöndunum. Ákvarðanir sem hafa valdið miklu álagi á innviði og kostað ríkissjóð milljarða.
Engin rök mæla með því að Ísland, fámennasta land Evrópu, taki á móti hlutfallslega flestum hælisleitendum. Regluverkið á Íslandi í útlendingamálum verður að taka mið af fámenni þjóðarinnar. Undir forystu dómsmálaráðherra, Guðrúnar Hafsteinsdóttur, hefur tekist að koma böndum á óviðunandi stöðu útlendingamála og færa útlendingalöggjöfina nær því sem gerist í nágrannalöndum. Örugg landamæri eru forsenda velferðarkerfis, sjálfbærra ríkisfjármála og traustra innviða.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 22. júní 2024.