Erindið er skýrt

Ásdís Kristjánsdóttir bæjarstjóri í Kópavogi:

Í aðdrag­anda sveit­ar­stjórn­ar­kosn­inga lagði Sjálf­stæðis­flokk­ur­inn í Kópa­vogi fram lista með hundrað lof­orðum. Þau lof­orð voru ábyrg og raun­hæf og snertu dag­leg verk­efni sem eru á for­ræði sveit­ar­fé­laga og eru íbú­um þeirra áþreif­an­leg. Nú tveim­ur árum síðar höf­um við, í traustu sam­starfi við Fram­sókn­ar­flokk­inn og sam­ræm­an­leg­ar áhersl­ur, þegar upp­fyllt um sex­tíu og fimm lof­orð af þeim hundrað sem við sett­um fram og þannig þokað áfram mik­il­væg­um verk­efn­um sem hafa skilað ár­angri.

Við lögðum upp með skýrt er­indi og við fylgj­um því er­indi eft­ir. Við sinn­um störf­um okk­ar með hags­muni íbúa á öll­um aldri að leiðarljósi um leið og þess er gætt að sveit­ar­fé­lagið sé rekið með ábyrg­um hætti. Það er því mik­il­vægt að hafa skýra sýn á verk­efn­in, hugsa út fyr­ir hinn hefðbundna ramma, þora að gera breyt­ing­ar og hagræða í rekstri án þess að bitni á lífs­gæðum íbúa. Þannig höf­um við starfað á fyrri hluta kjör­tíma­bils­ins og mun­um halda því áfram.

Sveit­ar­stjórn­ar­mál eru að mörgu leyti ólík lands­mál­un­um. Mál­efni sveit­ar­fé­laga snerta okk­ur með bein­um hætti nær dag­lega. Þau snú­ast um börn­in okk­ar í leik- og grunn­skól­um, skipu­lag hverfa, aðstöðu til íþróttaiðkun­ar, blóm­legt menn­ing­ar­starf og úti­vist­ar­svæði. Þá treysta bæj­ar­bú­ar því að göt­ur séu sópaðar, grasið slegið og ruslið hirt – eins og til­vikið er í Kópa­vogi.

Auk­in lífs­gæði Kópa­vogs­búa

Á fyrri hluta kjör­tíma­bils­ins höf­um við staðið vörð um ábyrg­an rekst­ur Kópa­vogs­bæj­ar. Á sama tíma höf­um við lækkað skatta á bæj­ar­búa bæði árin um sam­tals millj­arð, sem sit­ur þá eft­ir í vös­um bæj­ar­búa.

Við inn­leidd­um það sem nú er þekkt sem Kópa­vogs­mód­elið og höf­um með því stuðlað að bættri þjón­ustu í leik­skól­um bæj­ar­ins. Leik­skóla­börn eru ekki leng­ur send heim sök­um mann­eklu, þjón­ust­an er betri og það sem öllu máli skipt­ir – fleiri börn fá leik­skóla­pláss í dag en fyr­ir ári enda flest­ir leik­skól­ar full­mannaðir.

Við breytt­um áhersl­um í starf­semi menn­ing­ar­húsa, for­gangs­röðuðum fjár­mun­um með öðrum hætti, efld­um sjálfsaf­greiðslu og spöruðum fjár­magn til að nýta frem­ur í að stór­efla menn­ing­ar­starf­sem­ina. Á af­mæl­is­degi Kópa­vogs, 11. maí sl., var opnuð ný stór­glæsi­leg menn­ing­armiðja sem samþætt­ir nátt­úru­vís­indi, bók­mennt­ir og list­ir. Þessi breyt­ing kallaði ekki á aukið fjár­magn, held­ur er farið bet­ur með fjár­magn bæj­ar­búa sam­hliða því sem okk­ur hef­ur tek­ist að hagræða í rekstri.

Við höf­um gætt hags­muna Kópa­vogs­búa í áform­um um upp­bygg­ingu sam­göngu­innviða fyr­ir ak­andi, hjólandi og gang­andi veg­far­end­ur. Við höf­um „rampað upp“ Kópa­vog og bætt aðgengi fatlaðra, sparað bæj­ar­bú­um spor­in með auk­inni sjálf­virkni­væðingu og inn­leitt spjall­menni með mark­viss­um hætti. Nýtt hverfi sem mun bjóða upp á fjöl­breytta húsa­kosti fyr­ir ólík­ar þarf­ir hef­ur verið skipu­lagt í efri byggðum Kópa­vogs. Við höf­um lagt af stað í þá veg­ferð að byggja upp lífs­gæðakjarna fyr­ir eldri bæj­ar­búa að nor­rænni fyr­ir­mynd. Við höf­um eflt geðrækt ung­menna með því að stór­efla Mol­ann, ung­menna­hús Kópa­vogs, með breytt­um áhersl­um.

Verk­efn­in eru ótal­mörg og hér er aðeins stiklað á stóru við yf­ir­ferð þess sem við höf­um fram­kvæmt á tveim­ur árum. Á síðari hluta kjör­tíma­bils­ins eru frek­ari verk­efni í burðarliðnum. Þau hundrað lof­orð sem við sett­um fram í kosn­inga­bar­átt­unni fyr­ir tveim­ur árum eiga það eitt sam­eig­in­legt að þau eru til þess fall­in að auka lífs­gæði í Kópa­vogi. Við ætl­um að tryggja að framtíðin verði í Kópa­vogi.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 22. júní 2024.