Ljósmynd: Ninni Andersson/Regeringskansliet

Dapurlegt fyrir þingið og fólkið í landinu

 

Bjarni Benediktsson forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins flutti ræðu í gær á Alþingi við umræðu um vantrauststillögu á matvælaráðherra sem var felld með 35 atkvæðum gegn 23. Svaraði Bjarni þar mörgu sem hafði komið fram hjá þingmönnum stjórnarandstöðunnar sem allir studdu vantrauststillöguna. Ræðuna má í heild sinni lesa hér.

„Mig langar að byrja á því að segja að ég hef sjálfur alla tíð verið mikill þingræðissinni, að það sé hingað sem menn verði að líta þegar þeir spyrja: Hvar liggur valdið á Íslandi fyrst og fremst? Í því liggur líka að þingið á að veita aðhald með framkvæmdarvaldinu,“ sagði Bjarni

Hann sagði að þegar ríkisstjórninni hafi verið komið á fót árið 2017 hafi verið unnið að því að efla þingið.

„Við höfum komið á fót þverpólitískum nefndum og það hljóta allir að þekkja sem hafa starfað einhvern tíma hér í þinginu að það er allt annað að starfa sem þingmaður borið saman við það sem áður var hvað varðar stuðning sem þingið hefur. Og eitt gerðum við tiltölulega nýlega á Alþingi, sem var að koma á fót stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd, sem hefur það sérstaka hlutverk að taka til umfjöllunar og skoðunar eftir atvikum með frumkvæðisrannsóknum stjórnsýsluna í landinu til viðbótar við embætti umboðsmanns Alþingis, svo dæmi sé tekið. Við höfum frá þessu kjörtímabili dæmi um að stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd hafi látið sig varða hinar ýmsu embættisfærslur í stjórnkerfinu okkar og við höfum sömuleiðis dæmi um það að umboðsmaður hafi gert athugasemdir,“ sagði hann.

Hann sagði að stjórnarandstaðan væri að bera upp vantrauststillögu á ráðherra sem hefði starfað í örfáar vikur.

„Hvar var beiðnin um að taka málið til skoðunar í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd? Eða skiptir hún engu máli allt í einu þegar við erum að framkvæma þetta þingræði, nota þingið til að veita ráðherrum aðhald? Nei, það er skautað fram hjá því eins og það skipti engu máli,“ sagði hann.

Berum öll sameiginlega ábyrgð

„Hér koma menn hver á eftir öðrum og fullyrða að lög hafi verið brotin og þetta hafi verið hinsegin og hitt hafi verið svona með nákvæmlega ekki neitt í höndunum annað en einhverja blaðagreinar, einhver almenn orð sem hafa fallið í fjölmiðlum. Hér fyrir nokkrum dögum síðan stóð ég úti á Austurvelli og vildi vekja máls á mikilvægi þess að við gættum að getu okkar til málefnalegra skoðanaskipta, að við þyrftum að varðveita lýðræðið. Og við berum öll ábyrgð á því sameiginlega að tryggja að þegar við erum að fjalla um stór mál sem smá þá séum við að vanda okkur, að við séum að leggja eitthvað málefnalegt til, vegna þess að það er þannig að gæði skoðanaskiptanna haldast í hendur við gæði ákvarðana. En eftir að hafa hlustað á þær ræður sem hafa fallið hér og farið fram í þessari umræðu hingað til þá sé ég að við erum í raun og veru ekkert að ræða um vantraust á ráðherra út af einhverri tiltekinni embættisfærslu. Nei, við erum að tala um eitthvað meira en ársgamalt ferli þar sem margir ráðherrar komu við sögu. Við erum að tala um frústrasjón, örvæntingu stjórnarandstöðunnar. Hún bara þolir ekki þessa ríkisstjórn lengur og hún verður að fá tækifæri til að koma á hana höggi,“ sagði hann.

Bjarni minntist ræðu Þráins Bertelssonar fyrrverandi þingmanns sem ofbauð það hvernig alþingismenn fóru með tímann í þinginu undir umræðu og dagskrárliðnum störf þingsins.

„Hann var farinn að kalla þann lið hálftíma fyrir hálfvita vegna þess að honum misbauð svo gjörsamlega hvernig menn nýttu þann tíma til málefnalegra skoðanaskipta um málefni dagsins og um hina pólitísku umræðu sem þurfti að eiga sér stað hérna á þinginu. Og ég verð bara að játa það að þar sem ég sat hér í sæti mínu þá hugsaði ég með mér: Í hvað eru þessir hálftímar sem fara núna í þessa umræðu að fara sem á að gagnast þjóðinni? Fyrir liggur að ráðherrann hefur stuðning hjá meiri hlutanum sem er að baki þessari ríkisstjórn,“ sagði hann.

Ekki léttvægt að leggja fram vantrauststillögu á ráðherra

„Menn koma hingað og tína rökin bara af trjágreinum, bara svona eins og það sé hægt að segja hvað sem er hér. Það er ekkert léttvægt mál að bera upp vantrauststillögu á ráðherra. Menn eru farnir að umgangast þetta bara eins og að fá sér mjólkurglas hérna frammi í mötuneyti. Þetta hjálpar ekki við að lyfta upp virðingu þingsins. Þetta hjálpar ekki við að styrkja getu okkar til að komast að góðum niðurstöðum í þessum mikilvægu störfum sem við erum að vinna hér á þinginu fyrir fólkið í landinu,“ sagði Bjarni.

Hann sagði þó að ekki mætti misskilja sig þannig að það væri eitthvað að því að veita ríkisstjórninni aðhald. Það væri bæði sjálfsagt og eðlilegt. Hann hafi alltaf stutt það enda væri hann þingræðissinni.

„En menn ættu þá kannski að lágmarki að nota þann farveg sem er skrifaður út í lögunum til að framkvæma nákvæmlega það aðhald. Mætti ég bara benda á farveginn stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd? Mætti ég kannski biðja bara um það að menn myndu grípa tækifærið og efna til samtals við ráðherrann um hans embættisfærslu o.s.frv.? En að koma hér með vantraust á síðustu dögum þingsins — ja, ég segi: Mér finnst þetta örvæntingarfull tilraun sem snýst um allt annað heldur en hinar raunverulegu embættisfærslu ráðherrans sem mér finnst vera dregin hér upp í vörn á grundvelli málsástæðna sem hafa mest lítið með embættisfærslur ráðherrans að gera og mér finnst það bara dapurlegt fyrir þingið og fyrir fólkið í landinu sem horfir upp á það hvernig framganga manna er hér,“ sagði hann.

Þarf að lyfta þinginu og virðingu þess upp og hærra

„Þessi tillaga verður felld. Ég mun greiða atkvæði gegn henni vegna þess að mér finnst hún vera sett fram hér á fölskum forsendum og mér finnst ráðherrann ekki eiga það skilið eftir nokkrar vikur í embætti að fá yfir sig vantrauststillögu frá þinginu,“ sagði hann og að hann mótmælti öllum hinum rökunum sem komin væru fram frá stjórnarandstöðunni.

„Það er stundum sagt þegar maður er kominn á botninn að þá sé það ekki svo slæmt vegna þess að þá geti maður spyrnt sér aftur upp. Vonandi finnum við botninn einhvern tíma núna þessa dagana til að spyrna okkur aðeins upp og lyfta þinginu og virðingu þess aðeins upp og hærra,“ sagði Bjarni Benediktsson forsætisráðherra í lok ræðu sinnar.