Kjartan Magnússon borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík:
Fjórtán af tuttugu hættulegustu gatnamótum landsins eru í Reykjavík. Þau eru öll ljósastýrð. Unnt er að fækka slysum í borginni svo um munar með markvissum breytingum á mörgum þessara gatnamóta. Til dæmis með því að gera allra fjölförnustu gatnamótin mislæg.
Hættulegustu gatnamót landsins
Mót Miklubrautar og Kringlumýrarbrautar njóta hins vafasama heiðurs að vera hættulegustu gatnamót landsins. Þar urðu 163 slys og óhöpp á tímabilinu 2019-2023, þar af nítján slys með meiðslum.
Næsthættulegustu gatnamótin eru við mót Miklubrautar og Grensásvegar. Þar urðu 204 slys og óhöpp á árunum 2019-2023, þar af fjórtán með meiðslum.
Í þriðja sæti eru gatnamót Reykjanesbrautar og Bústaðavegar með 102 óhöpp, þar af fjórtán slys með meiðslum.
Á sama tímabili urðu tólf slys með meiðslum á gatnamótum Kringlumýrarbrautar-Suðurlandsbrautar-Laugavegar, ellefu á gatnamótum Sæbrautar-Kleppsmýrarvegar-Skeiðarvogs og tíu á gatnamótum Kringlumýrarbrautar og Listabrautar.
Fjöldi slysa langt yfir markmiði
Þessar upplýsingar eru úr greinargóðri skýrslu Samgöngustofu um umferðarslys á Íslandi árið 2023.
Helsta markmið gildandi umferðaröryggisáætlunar er að látnum og alvarlega slösuðum vegfarendum fækki árlega um 5%. Við Íslendingar erum því miður langt frá því markmiði. Á síðasta ári var markmiðið að ekki fleiri en 148 manns myndu látast eða slasast alvarlega í umferðarslysum. Raunin varð hins vegar sú að 237 urðu fyrir slíkri ógæfu það ár, sem er um 60% yfir markmiðinu.
Við lestur skýrslunnar vaknar sú spurning hvað unnt sé að gera til að komast nær markmiði umferðaröryggisáætlunar um fækkun slysa. Örugg leið til þess er að grípa til aðgerða í þágu aukins umferðaröryggis á fjölförnum gatnamótum á höfuðborgarsvæðinu, sem eru jafnframt hættulegustu vástaðir landsins. Með markvissum breytingum er nefnilega hægt að gera umrædd gatnamót mun öruggari í þágu allra vegfarendahópa og fækka þannig slysum verulega.
Aukið öryggi – greiðari umferð
Árangursríkasta leiðin væri að gera hættulegustu gatnamótin mislæg. Mörg dæmi eru um að alvarlegum slysum hafi fækkað gífurlega á hættulegum gatnamótum með tilkomu mislægra lausna, jafnvel um allt að 90%. Líklegt er að mislægar lausnir myndu fækka slysum á áðurnefndum gatnamótum í Reykjavík um a.m.k. 70%. Að auki myndu slíkar breytingar greiða fyrir umferð og draga úr mengun.
Pólitískur stuðningur við miðlægar lausnir á fjölförnum gatnamótum virðist vera lítill hjá núverandi borgarstjórnarmeirihluta Samfylkingar, Framsóknarflokks, Pírata og Viðreisnar. Er það miður því besta leiðin til að fækka slysum verulega í borginni væri að beita slíkum lausnum.
Andstæðingar mislægra gatnamóta nefna gjarnan að þau séu of rýmisfrek og séu jafnvel lýti á borgarumhverfinu. Sú andstaða er skiljanleg þegar horft er til mislægra gatnamóta sem hönnuð voru fyrir áratugum og voru því börn síns tíma. Sum þeirra taka vissulega mikið rými og einnig má finna að ásýnd þeirra. Ekki má þó gleyma því að þessi mannvirki hafa komið í veg fyrir þúsundir slysa, sem orðið hefðu án tilkomu þeirra.
Framfarir í hönnun
Á síðustu áratugum hafa orðið miklar framfarir í hönnun mislægra gatnamóta. Víða í Evrópu má finna slík mannvirki, sem lítið fer fyrir á yfirborði þar sem þau eru að mestu niðurgrafin og gjarnan í stuttum stokkum. Þau gegna samt því hlutverki vel að auka umferðaröryggi, greiða fyrir umferð og draga úr mengun.
Við Reykvíkingar eigum ekki að sætta okkur við þá staðreynd að sex af hættulegustu gatnamótum landsins séu í borginni okkar. Þessar slysagildrur verður að uppræta sem fyrst. Grípa verður til aðgerða í því skyni að auka umferðaröryggi, bæta umferðarflæði og fækka slysum á þessum gatnamótum.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 20. júní 2024.