Kjartan Gunnarsson framkvæmdastjóri Sjálfstæðisflokksins frá 1980-2006 ræðir við Guðnýju Halldórsdóttur í sjöunda þætti þáttaraðar um samofna 95 ára sögu Sjálfstæðisflokksins og 80 ára sögu lýðveldis. Þáttinn má finna á Spotify hér.
„Það var nú svolítið skrítið. Þá var varaformaður Sjálfstæðisflokksins forsætisráðherra, en Sjálfstæðisflokkurinn var í stjórnarandstöðu. Þá hafði Gunnar heitinn Thoroddsen myndað meirihluta til þess að stofna ríkisstjórn. Það hafði verið löng stjórnarkreppa. Það voru kosningar í desember 1979. Hann myndar sína stjórn í febrúar 1980 og fékk til liðs við sig Alþýðubandalag og Framsóknarflokk og auk þess nokkra þingmenn úr Sjálfstæðisflokknum þannig að þeir gátu myndað starfhæfan meirihluta,“ segir Kjartan um ástandið í stjórnmálunum þegar hann kom til starfa sem framkvæmdastjóri.
Hann hafði þá verið ráðinn framkvæmdastjóri ásamt Ingu Jónu Þórðardóttur.
„Þetta var skrítin staða. Sjálfstæðisflokkurinn sem eining var í stjórnarandstöðu og langflestir þingmenn hans og að sjálfsögðu formaðurinn Geir Hallgrímsson en varaformaðurinn var forsætisráðherra,“ segir hann.
„Þetta var auðvitað afleiðing af mjög harkalegum deilum milli manna. Deilum um forystuna og hverjir ættu að skipa forystuna. Það hafði áhrif í flokknum, en þó var merkilegt hvað þau voru tiltölulega lítil,“ segir hann um aðdragandann að þessari sérkennilegu stöðu en segir jafnframt að Geir Hallgrímsson formaður Sjálfstæðisflokksins á þeim tíma hafi lagt mikið upp úr því að halda flokknum vel saman.
Hann segir að það hafi sem dæmi aldrei komið til greina líkt og hefur verið gert í nánast öllum stjórnmálaflokkum í Evrópu að víkja þeim þingmönnum flokksins sem studdu stjórnina og sátu í henni úr flokknum. Þeir hafi sem dæmi mætt á landsfundi flokksins á þessum árum þó þeir hafi ekki setið þingflokksfundi en verið þátttakendur í flokksstarfinu að öðru leyti, ekki síst þingmennirnir utan af landi.
Starfaði með fjórum formönnum af átta
Á starfstíma sínum sem framkvæmdastjóri starfaði Kjartan með fjórum formönnum Sjálfstæðisflokksins, Geir Hallgrímssyni, Þorsteini Pálssyni, Davíð Oddssyni og Geir H. Haarde. Samband hans við formenn flokksins hafi verið farsælt.
„Það má segja að það hefði ekki gengið vel ef hefði ekki verið gott samband,“ segir hann.
Aðspurður að því hvers vegna hann hafi sjálfur aldrei farið í framboð segir hann: „Þegar prófkjör voru orðin ráðandi þáttur í að velja frambjóðendur þá gat ég eiginlega ekki hugsað mér að fara að slást þannig við marga menn sem voru ágætir vinir mínir og kunningjar að slást á þeim vettvangi. Það heillaði mig ekkert rosalega mikið heldur.“
Hann segist hafa verið ánægður í sínu starfi og að á endanum hafi hann verið búinn að starfa sem framkvæmdastjóri flokksins þriðjung úr starfstíma flokksins þegar hann lét af störfum.
„Ég held að ég muni það rétt að það voru 20 þúsund í flokknum þegar ég byrjaði og 45 þúsund þegar ég hætti. Maður gat alveg verið ánægður með þann árangur. Svo með þessum aðstæðum sem voru á þessum starfstíma mínum þá var flokkurinn í ríkisstjórn 23 ár af þessum 26 og ég held að hann hafi haft forsætisráðuneytið í 21 ár af þessum 26 þannig að það leiðir sjálfkrafa til þess að þegar maður er búinn að vera svona lengi þá verður maður ansi náinn þessu öllu saman þannig að það fullnægði alveg áhuga mínum af stjórnmálaafskiptum,“ segir Kjartan.
Aðspurður um hvernig hafi verið að hafa tvo framkvæmdastjóra samtíis segir hann að þau Inga Jóna hafi verið ráðin inn saman og að það hafi ríkt ákveðin verkaskiptin. Inga Jóna hafi sinnt málefnastarfinu, fræðslu- og útbreiðslumálum en að hann hafi sinnt rektrinum. Inga Jóna lætur svo af störfum þegar hún verður aðstoðarmaður Ragnhildar Helgadóttur menntamálaráðherra árið 1983.
Vinnan við undirbúning landsfunda um hálft ár
Talið berst að landsfundum flokksins sem voru all margir á starfstíma Kjartans. Segir hann að vinnan fyrir þá hafi verið um sex mánuðir. Ákvörðun um tímasetningu hafi gjarnan verið tekin með þeim fyrirvara. Landsfundir hafi verið í býsna föstum skorðum og mjög stórar samkomur. Alla jafnan hafi um 1.500 manns haft seturétt á þeim á hans starfstíma.
Vinnan hafi falist m.a. í miklum undirbúningi að málefnastarfi og hjá flokksfélögum að kjósa fulltrúa og undirbúa sig fyrir að mæta til fundarins. Landsfundur hafi staðið frá fimmtudegi til sunnudags og að margt hafi verið á dagskrá.
Segir hann vinnuna við þá hafa tekið nokkrum breytingum tæknilega. Fyrstu árin hafi allar ályktanir verið vélritaðar á stensla til fjölritunar. Tæknibreytingar hafi síðan rutt sér til rúms en að kjarni fundanna hafi sé sá sami.
„Fólk er að hittast, móta stefnu, skiptast á skoðunum, hitta gamla vini, eignast nýja vini og auðvitað er landsfundur fyrir flokkinn ákveðinn grunnfáni – hann er svolítill baráttufáni,“ segir Kjartan.
„Enginn stjórnmálaflokkur á Íslandi getur með nokkrum hætti haldið svona samkomur því það er enginn flokkur sem heldur meira en 1.000 manna flokksþing,“ bætir hann við.
Á fyrsta landsfundi Kjartans síðan hann tók við árið 1981 hafi í fyrsta skipti verið opnað fyrir aðgengi blaðamanna á landsfund. Það hafi ekki síst verið gert til að fá betri umfjöllun af fundinum og eins að slá á ýmsar gróusögur um fundina sem grasseruðu meðan fundirnir voru lokaðar samkomur.
Landsfundir 1981 og 1991 mestu átakafundirnir
„Í sjálfu sér er það þessi fundur (1981) því þar eru þessar línur svo skýrar og miklar. En oft verið málefnaátök og svo fundurinn ´91. Þá var Davíð Oddsson í framboði og Þorsteinn Pálsson formaður. Það var gríðarlega mikill átakafundur hvað það snerti en ekki um málefnin,“ segir hann aðspurður um hvaða fundir hafi verið mestu átakafundirnir á hans tíma sem framkvæmdastjóri.
„Þetta var mjög seint sem Davíð tilkynnti um framboð. Það var búið að kjósa alla þingfulltrúana. Hann var varaformaður á þessum tíma. Ég man það mjög vel. Það var athyglisvert eftirá hugsað – en það var þannig. Það hefur sjaldan verið þannig að það hafi allir verið ánægðir með forystuna. Það tilheyrir þessu viðfangsefni að vera formaður Sjálfstæðisflokksins að það eru misjafnar skoðanir á þeim,“ segir hann.
Hann segir að á þessum tíma hafi Þorsteinn Pálsson verið forsætisráðherra 1987-1988 og að slitnað hafi upp úr því stjórnarsamstarfi og vinstri stjórn tók við. Það hafi haft mikil áhrif inn í flokkinn.
„Það var mikil óánægja með þau málalok svoleiðis að það var auðvitað margt sem var þarna að gerast en af því að þú spurðir um átakafundi. Það er svo skrítið að maður horfir á átökin á milli einstaklinga. En það hafa auðvitað oft verið málefnaleg átök. Það var lengi á mörgum fundum og eru kannski enn átök til dæmis um fiskveiðistjórnunarkerfið og það hafa verið mikil átök um landbúnaðarmál. Aðallega um þessa tvo málaflokka sem eru auðvitað mjög mikilvægir málaflokkar,“ segir hann og bætir við: „Það er samt þannig með þessi átök að þau eru mikill minnihluti – þau eru ekki ríkjandi hluti á þessum fundi.“
Hann segir að þegar séu átök á milli manna þá fái málefnastarfið minni athygli.
Spurður nánar út í átökin um fiskveiðistjórnunarkerfið og landbúnaðarkerfið segir hann að það hafi verið merkjanlegur og töluverður almennur ágreiningur um fiskveiðistjórnunarkerfið en að í landbúnaðarmálunum hafi sá ágreiningur að mestu snúist um styrkjakerfi landbúnaðarins og um innflutning.
„Bændur hafa alltaf haft sterka stöðu í Sjálfstæðisflokknum og þeir auðvitað stóðu harðir á sínum málum. En mér finnst hafa orðið miklu meiri sátt um það síðustu árin. Svo koma nýir þættir núna eins og umræður um matvælaöryggi og ýmsa hluti sem er auðvitað sjálfsagt og rétt að taka tillit til,“ segir Kjartan.
Stefnan er markaðstólið fyrst og fremst
Kjartan ræddi um samskipti sín við fjölmiðla og eins um markaðsmál flokksins í hans tíð.
„Ég taldi alltaf að stærsta markaðsmál Sjálfstæðisflokksins væru landsfundirnir. Þeir eru auðvitað mjög sérstakir og voru enn sérstakari heldur en jafnvel núna þegar er miklu fleira er stærra og meira áberandi í þjóðfélaginu heldur en var. Þetta hafði svo mikil ruðningsáhrif, svona stór fundur með svona mörgu fólki og að vera með jafnvel 30-40 þúsund flokksmenn. Þeir voru auðvitað mis virkir, en ég leit alltaf á þá sem aðal markaðsmennina. Svo voru þingmenn og ráðherrar og svo náttúrulega stefnan. Stefnan er markaðstólið fyrst og fremst,“ segir Kjartan aðspurður um markaðsmálin.
Hann sagðist hafa mest sjálfur staðið í samskiptum við fjölmiðla varðandi innra starf flokksins. Ræddi hann m.a. um samskipti sín við ritstjóra Morgunblaðsins og eins um Ríkisútvarpið sem hafi á fyrri tíð gætt meiri hlutleysisstefnu en nú.
„Ég hygg nú að það hafi kannski fyrr á tímum stundum verið svolítið ýkt því að á þessum tíma þá eru í útvarpsráði grjótharðir fulltrúar flokkanna. Á sínum tíma sátu margir ritstjórar dagblaðanna í útvarpsráði. Það kynni að þykja dálítið sérkennilegt í dag. Þannig að stjórnmálatengsl inn í Ríkisútvarpið voru mikil og menn voru alveg óhræddir við að láta heyra í sér ef þeim fannst einhverju vera mismunað,“ segir hann.
Gerði allt sem enginn annar gerði
„Ég var stundum spurður að því hvað ég gerði og ég átti svolítið erfitt með að svara því. Ég sagði stundum að ég gerði allt sem enginn annar gerði í flokknum,“ segir hann spurður að því hver hans helstu verkefni hafi verið. Þá sagði hann að hann hafi sem framkvæmdastjóri verið í miklum og góðum samskiptum við forystu flokksins, formann og varaformann, á hverjum tíma.
„Já mikið trúnaðarsamband og verður að vera. Það kom fljótlega í ljós að ég hyggðist hvorki sækja fram til sveitarstjórnar eða Alþingis og þá höfðu menn engan ótta af því að ég væri að misnota flokkskerfið í framapoti fyrir sjálfan mig eða í baráttu við aðra flokksfélaga. Þá auðvitað eflist trúnaðarsambandið við mann,“ segir hann um trúnaðarsamband sitt við flokksforystuna.
„Starf skrifstofunnar og þar með framkvæmdastjórans var óskaplega mikið fólgið í því að tryggja það að flokksblóðið rynni óhindrað í gegnum þetta æðakerfi flokksins, hjartað slægi ört og títt og lungun skiluðu sínu súrefni inn í flokksæðarnar. Þar eru allir þessir aðilar í hlutverkum. Þingmennirnir eru í miklu sambandi í sínum kjördæmum við sitt flokksfólk,“ segir hann nánar um hlutverk sitt sem framkvæmdastjóra og skrifstofu flokksins.
Eftirminnilegast þegar hann byrjaði og hætti
„Ætli það sé ekki bara þegar ég byrjaði og þegar ég hætti. Hvort með sínum hætti. Ég var 28 ára þegar ég byrjaði og okkur Ingu Jónu var sýnt mikið traust. Maður vildi náttúrulega standa undir því og reyndi það eftir bestu getu. Þegar maður leit svo yfir farinn veg 26 árum seinna þá var maður býsna ánægður með það bú sem var skilað og ég myndi segja að þetta hefðu verið eftirminnilegustu augnablikin,“ segir hann spurður út í það eftirminnilegasta í starfinu en segir einnig að hafi verið fjölmargt fleira sem þó sé ekki hægt að týna allt til.
„Það var með vissum ótta sem að maður byrjaði og steig mjög laust til jarðar á öllum sviðum. En svo þegar maður var búinn að starfa með helmingi af formönnum flokksins á þeim tíma og vera svona óskaplega lengi – ég á ekki von á því að það verði leikið eftir, en aldrei skyldi maður spá neinu um framtíðina. Þá leit maður til baka með ákveðnum söknuði vegna þess að þetta hafði í stórum dráttum gengið allt svo vel. Að vera með forsætisráðherra í 21 ár af 26. Það er lykilatriði í stjórnmálum sem allir flokkar reyna og eiga að reyna,“ segir hann.
Þá segist hann einnig sakna hvað mest þessarar nálægðar við forystuna í landinu og forystu stjórnmálalífsins í landinu.
„Ég var nú ofboðslega ánægður með það fólk sem vann með mér í Valhöll sem var allt frábært og yndislegt fólk. Það endaði með því að lang flestir sem að unnu með mér voru hérna kannski í 10-15 ár hver og ennþá lengur jafnvel. Það byggðist upp mikið traust og mikil starfsánægja. Ég auðvitað sakna þess fólks,“ segir hann.
Reyndi alltaf að hafa skrifstofubúnað í fremstu röð
„Fyrsti hluturinn sem ég keypti fyrir skrifstofuna voru kúluritvélar, svokallaðar. Ég veit ekki hvort fólk sem horfir á þetta veit hvað það er. En það er ritvél sem er ekki með þessum hefðbundnu lyklum þar sem er lykill fyrir hvern staf heldur er kúla, hnöttur, sem snýst óskaplega hratt fyrir rafmagni og jók mjög afköst þeirra sem voru að vélrita. Þá þurfti náttúrulega að gera það við öll skjöl. Síðan var maður mjög fljótur til um leið og voru komnar tölvur. Ég reyndi alltaf að hafa skrifstofubúnað í fremstu röð. Þetta voru svo mikið svoleiðis störf. Allt sem gat aukið hraðan og þar með afköst hvers manns var auðvitað mjög mikilvægt,“ segir hann um það fyrsta sem hann hafi keypt inn á skrifstofuna og starfsaðstöðuna í Valhöll.
Storkaði kerfinu með rekstri útvarpsstöðvar
Kjartan ræddi stóra BSRB verkfallið um miðjan níunda áratug síðustu aldar. Þá lagðist nánast öll starfsemi RÚV niður og útvarpssendingum var hætt. Þá voru í landinu einungis tvær útvarpsstöðvar, Rás1 og Rás2.
Kjartan og fleiri hafi þá sjálfir tekið málin í sínar hendur og stofnað útvarpsstöð sem síðar var lokað af lögreglunni, enda var Ríkisútvarpið með einkarétt til útvarps- og sjónvarpsreksturs.
„Ég kunni ekkert í tæknimálum og kann lítið ennþá. En það voru menn hér sem að kunnu heilmikið á þetta. Ég var svo hissa á því hvað það var auðvelt að setja upp útvarpsstöð. Þessi tæki voru öll til og þetta var ekkert mál. Þetta tók okkur einn og hálfan sólarhring að búa til útvarpsstöð. Fyrst var hún rekin í bíl. Við vissum það náttúrulega að það myndu einhverjir telja þetta ólöglegt. En við töldum að mannréttindaákvæðið í stjórnarskránni á þessum tíma, fundafrelsisákvæðið og prentfrelsisákvæðið – þau mótuðu stefnu stjórnarskrárgjafans um miðlunarfrelsi. Við töpuðum því í málaferlum í hæstarétti. En þetta var okkar skoðun,“ rifjar hann upp.
„Við gerðum þetta og var mjög eftirminnilegur atburður. Þetta voru menn sem tengdust mjög Sjálfstæðisflokknum sem stóðu að þessu, þar á meðal ég sjálfur,“ segir hann
Segir hann að nokkrar slíkar útvarpsstöðvar hafi verið reknar um tíma og að starfsmenn Pósts og síma hafi verið að miða út stöðvarnar og hvaðan útsendingarnar kæmu. Þetta hljómi auðvitað mjög sérkennilega í dag þar sem hver og einn er með símtæki í vasanum og geti útvarpað og sjónvarpað að vild.
„Ríkisúrvarpið hafði bara einkarétt til útvarps- og sjónvarpssendinga. Svo var þessum lögum breytt. Þá var Sjálfstæðisflokkurinn mjög harðskeyttur í að breyta þessu. Það var ákveðið að þingi yrði ekki slitið fyrr en búið yrði að samþykkja ný útvarpslög. Það voru samþykkt. Þá var opnað fyrir heimildir til þess að það yrðu gefin út útvarpsleyfi,“ segir hann en frumvarp Ragnhildar Helgadóttur menntaráðherra þess efnis var samþykkt á Alþingi 13. júní 1985 og lögin tóku gildi í ársbyrjun 1986.
„Sennilega í virðingarskyni við mig fyrir að hafa staðið að þessu frjálsa útvarpi var ég kjörinn af þinginu formaður útvarpsréttarnefndar sem að veitti leyfin. Ég var í því starfi í um tíu ár sem var mjög gaman,“ segir hann kíminn.
„Þetta var mikil barátta fyrir tjáningafrelsi og fyrir því að afnema staðnaða og úr sér gegna löggjöf,“ bætir hann við og einnig: „Það er svo að tæknin hún auðvitað ryður oft í burtu svona fáránlegum hindrunum. En það er auðvitað leitt að til þess þurfi að koma eins og í þessu máli.“
Segir hann að búið hafi verið að flytja mörg frumvörp um þetta í þinginu sem aldrei hafi náðst í gegn.
„Ég man að Guðmundur heitinn Garðarsson, sem var lengi þingmaður Sjálfstæðisflokksins, hafði lagt fram fyrsta frumvarpið, sjálfsagt 20 árum áður að lögunum var breytt. Það var alltaf svona mikil andstaða í þinginu hjá þessum afturhaldsflokkum sem við töldum og teljum vera að mörgu leyti ennþá,“ segir Kjartan.
Stétt með stétt eitt af grunnatriðunum
„Það er eitt af grunnatriðunum í stefnu Sjálfstæðisflokksins. Sjálfstæðisflokkurinn er flokkur samvinnu, þó hann sé ekki samvinnuflokkur. En hann er flokkur samvinnu og sameiningar og þátttöku allra. Hann sér lífið og þjóðfélagið og efnahagslífið þannig fyrir sér að það eru allir þátttakendur í því og það eru allir að vinna að sama marki. Það getur enginn án annars verið,“ segir Kjartan spurður um hvað „Stétt með stétt“ þýði.
Kjartan segir Sjálfstæðisflokkinn ekki vilja efna til stéttaátaka sem unnin séu á pólitískum grunni. Flokkurinn telji að fólkið í landinu þurfi að starfa saman og hafi sameiginleg markmið.
„Markmiðið að gera lífið á Íslandi betra, að tryggja að allir njóti frambærilegra og helst góðra lífskjara og við erum þeirrar skoðunar og sannfæringar að það verði ekki gert nema að menn snúi bökum saman, nema menn hafi sameiginlegt átak. Það sé ekki gert með því að egna þjóðfélagshópa hverja upp á móti öðrum. Það leiðir bara til glundroða og stundrunar og óvildar og óánægju meðal manna,“ segir hann.
Frelsið er svo mikilvægt
„Ég byrjaði mjög ungur, á barnsaldri, að þvælast á kosningaskrifstofum. Ég var snemma mjög hugfanginn að þessari stefnu og þessum hugsjónum. Og náttúrulega líka af frjálshyggjuhugmyndunum sem auðvitað byggjast á þessu að athafnafrelsi manna sé aðeins skert af samskonar frelsi næsta manns. Það að hafa frjálst efnahagslíf, að fólk geti notið sín þar sem það sem hefur möguleika til. Menn geti farið eftir áhugamálum sínum í hverja átt sem þeir vilja. Menn geti sóst eftir menntun og framförum fyrir sjálfan sig á hverju því sviði sem þeir vilja. Þetta verður að grundvallast á frjálsu athafnarlífi og frelsi fyrst og fremst. Frelsið er svo mikilvægt,“ segir Kjartan spurður að því hvað drífi sig áfram í stjórnmálum.
„Ég geri mér alveg grein fyrir því að sumsstaðar þarf eitthvað að stýra því, eða setja því skorður. Mér finnst auðvitað megin skorðan vera sú að frelsi eins sé ekki ágengt gagnvart frelsi annarra. Auðvitað verður samkeppni og hún er sjálfsögð – en þar tel ég að þurfi að vera ákveðnar skorður því ég vil ekki, þó að það sé oft sagt að Ísland sé svo lítið og fámennt land að það sé alveg hneiksli að hafa mörg fyrirtæki í sömu grein, það er alls ekki rétt. Það þarf að setja mjög strangar skorður við því að það verði ekki einhvers konar auðræði í landinu. Það er ekki gott fyrir nokkurn mann,“ bætir hann við.
„Það er þannig sem það er í kommúnistaríkjum og einræðisríkjunum. Það er sterk samstaða milli atvinnulífs og stjórnvalda og þar ríkir auðvitað ekki frelsi með neinum hætti. Fólk er kúgað, bæði kúgað af stjórnvöldum með pólitískum hætti og svo með efnahagslegum hætti sem er öflugasta kúgunarvaldið. Það er lítil stjórnarandstaða þar sem enginn getur leitað sér að vinnu nema hjá ríkinu,“ segir hann.
Hægt er að nálgast viðtalið hér á Spotify.