Petrea Ingibjörg Jónsdóttir ræðir störf sín fyrir Sjálfstæðisflokkinn í yfir 65 ár
'}}

Petrea Ingibjörg Jónsdóttir fyrrum skrifstofustjóri Sjálfstæðisflokksins og bæjarfulltrúi á Seltjarnarnesi er gestur Ingvars P. Guðbjörnssonar í sjötta þætti þáttaraðar um samofna 95 ára sögu Sjálfstæðisflokksins og 80 ára sögu lýðveldis. Þáttinn á Spotify má finna hér.

Peta eins og hún er alla jafnan kölluð kom til starfa á skrifstofu Sjálfstæðisflokksins 1. júlí 1982. Hún var upphaflega ráðin sem sumarstarfsmaður til að leysa af á símanum, en starfaði þar óslitið í rúm 37 ár eða til ársloka 2019. Hún var jafnframt bæjarfulltrúi fyrir Sjálfstæðisflokkinn á Seltjarnarnesi frá 1990-1998 en hafði þá verið varabæjarfulltrúi eitt kjörtímabil áður.

Geir Hallgrímsson er formaður flokksins þegar hún kemur til starfa og síðar Þorsteinn Pálsson, Davíð Oddsson, Geir H. Haarde og Bjarni Benediktsson.

„Það voru fimm formenn, en aftur á móti hef ég hitt þá alla nema Jón Þorláksson. Ég hitti Ólaf Thors sem barn, svo sem unglingur hitti ég Bjarn Ben. Ég hafði hitt líka Jóhann Hafstein þegar ég var með föður mínum,“ segir hún. Hún starfaði jafnframt með fimm framkvæmdastjórum.

Byrjaði í flokksstarfinu fyrir 65 árum

„Þetta byrjaði þannig að faðir minn var í framboði til Alþingis í vorkosningunum 1959 og þurftu allir að hjálpast að. Ég fór að bera út Framtak, sem var blað okkar sjálfstæðismanna á Akranesi. Svo voru aftur haustkosningar og þá var ég að hjálpa til líka við að bera út blaðið og gerði það oft næstu ár. Svo þegar ég var unglingur var ég í Reykjavík í skóla og þá gekk ég í Heimdall og sótti fundi í kjallaranum á Suðurgötu,“ segir hún um upphaf sitt að störfum fyrir flokkinn en í ár eru 65 ár síðan hún byrjaði að vinna í flokksstarfinu.

Faðir hennar Jón Árnason var bæjarfulltrúi á Akranesi um árabil og jafnframt þingmaður fyrir Vesturland frá 1959-1977.

„Það gat verið erfitt stundum. Það var eiginlega erfiðara að vera dóttir bæjarfulltrúa. Þar fékkstu það svolítið óþvegið frá framsóknarmönnum sérstaklega. Það var erfiðara því nándin var meiri, en það var ágætt að vera þingmannsdóttir. Ég var þá í skóla hérna í Reykjavík sem mjög gaman, en ég hefði gjarnan viljað vera áfram á Skaganum en hitt var ágætt líka,“ segir hún aðspurð að því hvernig hafi verið að alast upp sem þingmannsdóttir.

Spurð að því hvort það hafi aldrei neitt annað en Sjálfstæðisflokkurinn komið til greina segir hún: „Alls ekki því Sjálfstæðisflokkurinn höfðar til mín. Þessi stefna hans er mín. En ég er ekkert alltaf alveg sammála öllu – en í meginatriðum er ég það.“

Rafmagnsritvél og stenslar þegar hún hóf störf

„Þegar ég kem er bara rafmagnsritvél og þegar þurfti að fjölrita þá voru bara stenslar. Við þurfum að vélrita stensla og svo var ég hér fjölritunarvél. Fyrir stóra fundi var maður ekkert endilega að fara heim klukkan fimm á daginn, frekar klukkan fimm á morgnana og var aftur mætt klukkan átta. Framleiðslan var miklu tímafrekari. Þú þurftir að vera svo akkúrat á stenslunum því það var svo erfitt að leiðrétta prentvillur,“ segir hún um vinnuumhverfið þegar hún hóf störf á skrifstofunni og breytingar á þeim.

„Maður fékk hér flokk af fólki þegar þurfti að fara að senda út bréf. Það voru fleiri fleiri manns sem komu til að hjálpa fyrir kosningar,“ segir hún um tímann áður en prenttækni og tölvutæknin ruddi sér til rúms.

„Ég sá um flokksskránna. Það var síðar búið til forrit utan um flokksskránna. Það var mjög spennandi þegar það var gert. Ég fylgdi því alveg eftir og hélt utan um flokksskránna fyrst í Access – það er eitthvað það besta forrit sem hefur verið fundið upp og ég hélt utan um hana þangað til ég hætti,“ segir hún verkefni sín á skrifstofunni sem voru þó mun fleiri. „Kjartan kom líka að því að búa til strúkturinn í kringum þetta,“ segir hún.

„Það má kannski segja að á tíunda áratugnum þá vorum við hér þónokkuð mörg og mikil samheldni. Við fórum mikið í ferðalög saman. Ferðuðumst til Evrópu og ferðuðumst hér innanlands, fórum norður á Strandir, fórum í berjamó og fórum að ná okkur í jólatré upp í Skorradal,“ segir hún aðspurð um eftirminnilegustu tímabilin á skrifstofunni og bætti við: „Hilmar Gunnlaugsson sem vann hér var duglegur við að skipuleggja ferðir. Hann skipulagði þessar ferðir okkar til útlanda. Það var mjög gaman.“

Minnist tímans þegar mátti reykja inni

„Þegar að ég kem, þá er þessi staður sem við sitjum núna Ármannsstofa sem að var til minningar um Ármann, föður Birgis Ármannssonar. Hann hafði verið mikið í starfinu og lést ungur. Þetta var bókasafn og fundaaðstaða líka. Svo var Miðstjórnarherbergið. Þar voru haldnir miðstjórnarfundir og það var á þeim tíma sem mátti reykja. Þið getið ímyndað ykkur með Gísla Ólafs og Albert Guðmundsson inn í sama herberginu – það var ábyggilega mjög erfitt,“ segir hún um Valhöll að Háaleitisbraut 1 þar sem hún starfaði í allan sinn feril, en húsið var byggt og tekið í notkun á áttunda áratug síðustu aldar.

„Skrifstofurnar voru allar notaðar. Það var skrifstofa fyrir Hvöt og landssambandið (LS). Reykjavíkurfélögin voru með tvær skrifstofur, framkvæmdastjóri og ritari framkvæmdastjóra í Reykjavík. Svo voru hverfafélögin, SUS og Heimdallur öll með sínar skrifstofur. Til skamms tíma voru starfsmenn fyrir SUS, Verkalýðsráð og landssambandið (LS). Kannski ekki í fullu starfi en voru með starfsmenn. Hér var alltaf mikið af fólki,“ segir hún.

Kom að undirbúningi og framkvæmd fjölda landsfunda

„Þetta hefur breyst gífurlega með nýrri tækni. Ég var þeirri stund fegnust þegar ég náði því í lokin að vera komin í pappírslausa fund. Ég reyndar kom fyrst að landsfundi hér 1981 sem sjálfboðaliði. Kom inn til að hjálpa við að setja í möppur og setja í umslög,“ segir hún um landsfundi flokksins sem hún vann að undirbúningi að öll þau ár sem hún starfaði á skrifstofunni.

„Þeir voru aðeins minni. Það er búið að breyta skipulagsreglunum og hefur fjölgað hvað koma margir frá hverju félagi og það eru fleiri sem koma inn í flokksráði,“ segir hún um þróun fjölda landsfundarfulltrúa í gegnum árin.

„Landsfundur var settur í Háskólabíói. Svo voru kvöldverðir hjá kjördæmunum. Svo var málefnanefndarvinnan og svo þegar það var búið þá þurftum við að fá allt það sem þurfti að fjölfalda og slá inn á stensla. Ég mjög ánægð þegar mér tókst að kaupa vél þar sem ég hafði unnið áður. Þeir voru að losa sig við vél sem þú gast brennt stensla á. Það var alveg bylting. Þá gátum við vélritað á blað og brennt það á stensla. Þá þurftum við ekki að slá beint á stenslana. Þetta breytist úr þessu að brenna stensla upp í að fólk kemur með sína tölvu eða iPad,“ segir hún breytingar á formi landsfunda í gegnum árin sem oft fylgdi gríðarlega mikið af pappír.

Alltaf þótt gaman að tala við fólk

„Ánægjan keyrði mig áfram. Mér þótti þetta svo skemmtilegt. Mér hefur alltaf þótt gaman að tala við fólk og vera með fólki. Ég gerði í því þegar ég var að ferðast út um landið ef mig grunaði að það væri einhver úr félagnu nálægt þá fór ég og heilsaði upp á þá, en mér finnst þetta bara svo ofboðslega skemmtilegt. Þetta var ekki neitt mál,“ segir hún spurð að því hvernig hafi verið að ná utan um að eiga samskiptum við yfir 160 félög og ráð innan flokksins öll þessi ár.

Sat í bæjarstjórn Seltjarnarness í 8 ár

„Ég fór fyrst á lista 1986 sem varamanneskja. Það var einn daginn sem við vorum með þrifadag hér á skrifstofunni. Ég var með bleika gúmmíhanska og Jón Hákon og Gísli Ólafs komu hér inn á hæðina og sögðu: „Megum við tala aðeins við þig?“ segir hún um upphafið að því að hún tók sæti á lista til bæjarstjórnar. Þeir bera svo upp þá bón við hana að hún taki sæti á lista fyrir kosningarnar 1986.

"Ég bara sagði já,“ segir hún og bætir við: „Ég var fyrst varafulltrúi og svo var prófkjör og mér gekk mjög vel í því. Svo var aftur prófkjör og mér gekk enn betur í því. Svo ákvað ég að tvö kjörtímabil væru nóg.“

„Ég man eftir einum fundi sérstaklega þegar verið var að bora fyrir nýrri holu hjá hitaveitunni. Það var búið að ganga illa. Svo er bæjarstjórnarfundur og Sigurgeir kemur inn og hann var rjóður upp í hársrót. Þá hafði komið upp þetta svaka flotta vatn,“ segir hún um eftirminnileg mál á sínum tíma í bæjarstjórn og vísar þar til Sigurgeir Sigurðssonar bæjarstjóra á Seltjarnarnesi til áratuga.

„Sigurgeir var þannig að það var mjög gott að vinna með honum. Ef þú varst með eitthvað mál og þú rökræddir það þá stóð hann 100% á bak við þig. Hvort sem að hann var alveg sammála því eða ekki,“ segir hún um samstarfið við Sigurgeir og segir að hann hafi staðið vel við bakið á samstarfsfólki sínu í bæjarstjórn.

„Þú vissir hvar þú hafðir hann. Hann var bara hann sjálfur. Hann fylgdist með öllu sem var að gerast í bæjarfélaginu. Hann fór á hverjum einasta degi eftir hádegismatinn og keyrði um bæinn til að athuga hvað væri að gerast. Hann fylgdist grannt með og þótti afskaplega vænt um fólkið sitt og fólkið fann það,“ segir hún um Sigurgeir.

„Ég held að í grunninn sé það vinna Sigurgeirs og hans kollega sem byggðu grunninn. Þetta starf hefur haldið áfram. Við erum mjög náin á Seltjarnarnesi. Við þekkjum hvert annað mikið. Þetta er er sveitabær út á landi í rauninni því fólk þekkist það vel,“ segir hún um það traust sem bæjarbúar hafa sýnt Sjálfstæðisflokknum í gegnum áratugina, en þar hefur Sjálfstæðisflokkurinn verið í hreinum meirihluta alla tíð.

Trúin á einstaklinginn haft mest áhrif

„Ég held fyrst og fremst hafi það verið Viðreisnarstjórnin. Ég held að hún hafi lagt mikinn og góðan grunn sem við höfum í dag og svo flokksstefnan. Það hlægja margir að manni þegar maður segir „Stétt með stétt“. En það er svoleiðis innan flokksins. Við erum þannig og viljum vera það. Ég held að það sé stóri punkturinn og hvað við trúum á einstaklinginn, að hann hafi rétt til að gera það sem að hann vill og við styðjum hann í því,“ segir hún spurð að því hvert stærsta framlag Sjálfstæðisflokksins hafi verið til mótunar íslensks samfélags í gegnum lýðveldissöguna.

Þáttinn á Spotify má finna hér.