Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokksins og forsætisráðherra:
Góðir landsmenn, innilega til hamingju með daginn. Í dag fögnum við ekki aðeins þjóðhátíðardeginum okkar heldur jafnframt þeim tímamótum að 80 ár eru liðin frá stofnun lýðveldis 17. júní 1944.
Ísland hafði þá verið eitt fátækasta ríki Vestur-Evrópu. Það þurfti kjark, baráttuhug og trú á framtíð Íslands til að berjast fyrir fullveldinu og síðan stofnun lýðveldis. Á því var enginn skortur þegar níutíu og átta prósent Íslendinga tóku þátt í þjóðaratkvæðagreiðslu um að segja upp sambandslagasamningi við Dani og samþykkja stjórnarskrá í maí 1944. Yfirgnæfandi meirihluti kaus með stofnun lýðveldis og nýrri stjórnarskrá.
Lýðveldisstofnunin grundvallaðist á hreinskiptinni umræðu og lýðræðislegum kosningum. Rökræða, byggð á opnum skoðanaskiptum og skýrri framtíðarsýn, varðaði veginn.
Arfleifð fortíðar er vegvísir framtíðar
Íslenska þjóðin hefur í áranna rás borið gæfu til að taka ákvarðanir sem hafa leitt okkur jafnt og þétt að aukinni hagsæld, fleiri tækifærum og tryggðum mannréttindum borgaranna, gildum sem við stöndum styrk að baki. Þegar við minnumst þessarar arfleifðar fyrri kynslóða er ástæða til að velta fyrir sér hvaða arfleifð við viljum skilja eftir fyrir þá sem hér verða að 80 árum liðnum. Þó við lifum aðra tíma er grunnur framfaranna sá sami. Sagan segir okkur að það sem fengist hefur getur glatast jafnharðan sé það ekki varðveitt og ógnirnar leynast víða.
Hraði í samskiptum hefur aukist og athyglin styst að sama marki. Upphrópanir og skilaboð í stuttum myndskeiðum eru áberandi en rúma ekki dýpt flóknari mála. Falsfréttir flæða um netheima í harðri samkeppni við sannleikann og oft skortir gagnrýna hugsun til að greina þar á milli. Málefnaleg umræða sem er forsenda hins virka lýðræðis á víða í vök að verjast.
Sums staðar er beinlínis ráðist gegn grunnstoðum lýðræðisins. Í Evrópu reka Rússar blóðugt innrásarstríð gegn sjálfstæðu ríki, bæði á eiginlegum vígvelli og á sviði upplýsingahernaðar, falsfrétta og áróðursstríðs þar sem við sjáum hinar myrku hliðar nýrrar tækni. Slíkum tilburðum þarf að mæta af festu. Það er skylda okkar að huga enn betur að eigin vörnum og styðja við bandamenn í vörnum sínum, rétt eins og við ætlumst til að þeir gerðu væri á okkur ráðist. Það er ekki gagnkvæmt útilokandi að vera friðelskandi þjóð annars vegar og að verja þau gildi sem tilvist okkar grundvallast á hins vegar.
Gleðjumst og njótum dagsins
Við tökumst á um þjóðfélagsmálin dag hvern, líkt og eðlilegt er. Í dag, þegar fáninn okkar er dreginn að húni um land allt, skulum við hins vegar standa saman um allt það sem við Íslendingar getum verið stolt af. Það er ekki aðeins sjálfstæði okkar, fullveldi og lýðræðishefð heldur sömuleiðis okkar auðugi menningararfur og íslenska tungan, lykillinn að þeim auðæfum. Þjóðhátíðardagurinn er okkur árleg áminning um að varðveita íslenskuna, því án hennar missum við tengsl við það sem bindur okkur saman og einkennir sem þjóð.
Í tilefni lýðveldisafmælisins höfum við leitað fanga víða í íslenskum menningararfi og fjallkonan þar verið í lykilhlutverki. Fjallkonan flytur ljóð sitt á Austurvelli í dag, en auk þess er bókin „Fjallkonan – móðir vor kær“ gjöf til Íslendinga á afmælisárinu. Fjallkonan er tákngervingur Íslands sem minnir okkur á sögu lands og þjóðar, og hvetur til samheldni og friðar. Kórar hafa æft nýtt hátíðarlag um land allt, göngur með ferðafélögum hafa verið skipulagðar víðs vegar í tilefni hátíðarársins – stundum undir kórsöng – og við höfum fengið hingað Lögréttutjöldin svokölluðu til sýningar á Þjóðminjasafninu, svo fátt eitt sé nefnt.
Glæsileg hátíðardagskrá fer fram í dag, jafnt í höfuðborginni sem öðrum sveitarfélögum landsins í framhaldi af hátíðarhöldum í blíðunni á Þingvöllum um liðna helgi.
Ég hvet Íslendinga alla til að koma saman, gleðjast og njóta dagsins. Það er ærið tilefni til.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 17. júní 2024.