Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra:
Útflutningsverðmæti í hugverka- og tæknigeiranum hafa á síðastliðnum sjö árum aukist um 150 milljarða króna. Samhliða því hefur starfsfólki í greinunum fjölgað um nokkur þúsund.
Á þessum tíma hefur nýsköpunarumhverfið tekið stakkaskiptum, en þann árangur má að miklu leyti rekja til þess stuðningsumhverfis sem við höfum lagt áherslu á að skapa.
Þar skipta mestu endurgreiðslur vegna rannsókna og þróunar, sem hefur verið eitt mikilvægasta tæki stjórnvalda til að skapa samkeppnishæft umhverfi fyrir nýsköpun og rannsóknir.
Skattastuðningur vegna rannsókna og þróunar hefur hvetjandi áhrif á fyrirtæki til frekari fjárfestinga á því sviði. Þær fjárfestingar hafa á síðustu árum fjölgað öflugum fyrirtækjum, skapað ný og fjölbreytt störf og aukið hagvöxt.
Frá því lögin tóku gildi hafa verið gerðar á þeim miklar breytingar, sú stærsta að hækka endurgreiðsluhlutfallið upp í 35% hjá smærri fyrirtækjum en 25% hjá þeim stærri, en þó að hámarki 1,1 milljarð króna.
Lagt er mat á þetta stuðningsumhverfi í nýlegri úttekt OECD, sem unnin var að beiðni tveggja ráðherra Sjálfstæðisflokksins. Þar kemur margt jákvætt fram, en einnig eru lagðar fram tillögur um hvað megi betur fara.
Þær athugasemdir eru í takti við markmið okkar um að tryggja að efnahagsleg áhrif styrkjanna séu hámörkuð og komið sé í veg fyrir misnotkun. Í úttekt OECD er bent á að skortur sé á gögnum og eftirliti með nýsköpunarstyrkjum og að einnig skorti gagnsæi um viðtakendur styrkjanna.
Þessum athugasemdum tökum við alvarlega og við þeim verður brugðist. Tryggja þarf eftirlit með framkvæmdinni til að auka skilvirkni kerfisins, gera stuðninginn markvissari og draga úr kostnaði. Þá er stefnt að auknu samstarfi ólíkra stofnana, Rannís og Skattsins, skerpt á hlutverki þeirra og gengið úr skugga um að styrkveitingum sé úthlutað með vandvirkum og skilvirkum hætti.
Stuðningskerfið við rannsóknir og þróun hefur verið mikið heillaspor fyrir íslenskt samfélag og stuðlað að bættum lífskjörum, fleiri og öflugri fyrirtækjum og fjölbreyttari störfum.
Við þurfum að standa vörð um það og tryggja að það sé rétt nýtt og að fjármunir nýtist sem best til að skapa áframhaldandi vöxt og nýsköpun.
Með því ýtum við undir framsækni og framþróun, við styðjum við atvinnuuppbyggingu og aukum verulega við samkeppnishæfni landsins.
Okkur verður tíðrætt um alla þessa hluti, en með fyrrnefndum styrkjum erum við að ýta þeim í framkvæmd.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 13. júní 2024.