Frelsið er ekki sjálfgefið
'}}

Óli Björn Kárason alþingismaður:

„Þótt mik­ill meiri­hluti mann­kyns búi við ófrelsi og óhæft stjórn­ar­far, göng­um við Íslend­ing­ar út frá því sem sjálf­sögðum hlut, að hér muni ætíð ríkja lýðfrelsi,“ sagði í leiðara Morg­un­blaðsins 17. júní árið 1969. Þá var 25 ára af­mæli lýðveld­is­ins fagnað: „En þegar hug­leitt er, að jafn­vel í gam­al­grón­um lýðræðis­ríkj­um hafa þjóðirn­ar verið svift­ar frelsi sínu, verður ljóst að ekki er það ómerk­ur ár­ang­ur að varðveita og efla lýðræðið.“

Höf­und­ur leiðarans hafði uppi varnaðarorð: „… þjóðir glata ekki ein­ung­is sjálf­stæði sínu vegna þess að þeim tekst ekki að stjórna mál­efn­um sín­um inn­byrðis á heil­brigðan hátt, held­ur og vegna þess, að kúg­unar­öfl sækja að utan og svifta þær frelsi. Dæmi þess eru deg­in­um ljós­ari frá fyrri tím­um, og enn í dag eru slík­ir at­b­urðir að ger­ast. Við Íslend­ing­ar vor­um svo gæfu­sam­ir á fyrstu árum lýðveld­is­ins, að fram­sýn­ir menn réðu stefnu okk­ar í ut­an­rík­is­mál­um og okk­ur auðnaðist að tryggja ör­yggi okk­ar til jafns við stór­veldi með þátt­töku í Atlants­hafs­banda­lag­inu Og þótt við deil­um stund­um á stjórn­völd okk­ar fyr­ir að taka ákveðna af­stöðu á alþjóðavett­vangi – eða taka ekki af­stöðu – þá er það staðreynd, að Íslend­ing­ar njóta í aug­um um­heims­ins fyllstu virðing­ar, vegna þess að ut­an­rík­is­mála­stefna okk­ar hef­ur verið ábyrg.“

Næst­kom­andi mánu­dag fögn­um við Íslend­ing­ar 80 ára af­mæli lýðveld­is­ins. Varðstöðunni um sjálf­stæði þjóðar­inn­ar lýk­ur aldrei og þá varðstöðu þurf­um við öll að standa, hvert og eitt okk­ar. Sjálf­stæðis­bar­átt­unni lýk­ur því aldrei og í henni „eiga all­ir að vera þátt­tak­end­ur, hver á sín­um stað“, eins og kom­ist var að orði í leiðara Morg­un­blaðsins.

Frelsi til að leita og njóta þekk­ing­ar

Það er óhætt að segja að sem þjóð hafi Íslend­ing­ar nýtt frelsi lýðveld­is­ins vel og raun­ar bet­ur en flest­ar aðrar þjóðir. Okk­ur tókst ekki aðeins að brjót­ast út úr sárri fá­tækt í bjargáln­ir held­ur að byggja upp eitt mesta vel­sæld­ar­sam­fé­lag heims. Sam­kvæmt vel­sæld­ar­vísi­tölu Sam­einuðu þjóðanna sit­ur Ísland í þriðja sæti yfir þau lönd þar sem best er að búa. Aðeins Sviss og Nor­eg­ur eru ofar. Jafn­vel hinir bjart­sýn­ustu á Þing­völl­um 1944 gátu ekki látið sig dreyma um að 80 árum síðar yrði Ísland talið í hópi rík­ustu þjóða heims, með öfl­ugt vel­ferðar­kerfi og meiri jöfnuð en þekk­ist í þróuðum ríkj­um. Þótt oft hafi gefið á bát­inn í efna­hags­mál­um hef­ur okk­ur tek­ist sam­eig­in­lega að sigla í gegn­um storma og alltaf komið sterk­ari út úr þeim.

Í hátíðarræðu á 20 ára af­mæli lýðveld­is­ins sagði Bjarni Bene­dikts­son (1908-1970) for­sæt­is­ráðherra að menn yrðu að hafa frelsi til að leita þekk­ing­ar og njóta henn­ar. En þeir yrðu einnig að búa yfir þekk­ingu til að nota frelsið rétt: „Fátt hef­ur fyrr og síðar reynst óheilla­væn­legra en kenn­inga­kerfi, sem ætlað er að leysa all­an vanda, en bila vegna þess að þau eru byggð á vanþekk­ingu úr­slita­atriða. Æ ofan í æ hef­ur eðli­leg framþróun taf­ist og jafn­vel á okk­ar dög­um hef­ur mann­fólk­inu verið ógnað og því steypt í hyl­dýp­isógæfu vegna of­ur­veld­is postula vanþekk­ing­ar­inn­ar, sem ein­ir þótt­ust vita allt og vera sjálf­kjörn­ir til að hafa ráð allra annarra í hendi sér.“

Síðar í ræðunni benti Bjarni Bene­dikts­son á að ekki sé hættu­laust fyr­ir litla þjóð að vera í al­fara­leið. Íslend­ing­ar líkt og ná­grannaþjóðir hafi sam­eig­in­lega hags­muni af því „að friður hald­ist í heim­in­um. Þess vegna ber okk­ur að leggja okk­ar litla skerf af mörk­um í til að svo megi verða.“ Og hann bætti við: „Ef það tekst eins og góðviljaðir menn um heim all­an leggja sig nú fram um, þá ætti ekki að þurfa að ótt­ast að sjálf­stæði okk­ar verði ein­ung­is stund­ar­fyr­ir­bæri. Öll saga þjóðar­inn­ar sýn­ir, að eng­ir hafa stjórnað Íslandi bet­ur en Íslend­ing­ar sjálf­ir og ein­mitt þessa dag­ana erum við vitni þess, hví­lík­ur afl­gjafi frelsið er marg­háttaðri menn­ingu og list­sköp­un. Þess vegna velt­ur mest á okk­ar eig­in vilja til sjálf­stæðis, þeim vilja, sem hef­ur verið upp­spretta af­reka þjóðar­inn­ar síðustu ára­tugi. Guð gefi, að hann verði aldrei brot­inn af ann­ar­leg­um of­beldisöfl­um né dofni í okk­ar eig­in brjóst­um.“

Vilji til verja sjálf­stæði

Það var gæfa okk­ar Íslend­inga að skipa sér í hóp frjálsra lýðræðis­ríkja og taka þátt í varn­ar­sam­starfi þeirra und­ir merkj­um NATÓ frá upp­hafi. En hægt og bít­andi hef­ur værukærð færst yfir okk­ur og við erum far­in að líta á að sjálf­stæðið sé sjálf­gefið og fyr­ir því þurfi ekki að hafa. Að við get­um litið und­an þegar farið er fram með of­beldi gegn frjálsri þjóð og reynt að brjóta hana niður með aðferðum hrotta sem virða í engu sjálf­stæði annarra þjóða.

Skömmu eft­ir inn­rás Rússa í Úkraínu hvatti Volodimír Selenskí for­seti Úkraínu þjóðir heims til að leggja landi sínu lið. Á fjar­fundi með leiðtog­um Evr­ópu lagði Selenskí áherslu á að Úkraína yrði að vinna varn­ar­stríðið við Rússa. „Sýnið að þið séuð með okk­ur,“ sagði hann í ávarpi til Evr­ópuþings­ins á fyrstu dög­um inn­rás­ar­inn­ar. „Sýnið að þið sleppið okk­ur ekki. Sannið að þið séuð Evr­ópu­bú­ar og þá mun lífið sigra dauðann og ljósið sigra myrkrið.“

Alþingi hef­ur verið ein­huga í að styðja við Úkraínu í sjálfs­vörn gegn inn­rás­ar­her Pútíns. En stuðning­ur­inn hef­ur verið gerður tor­tryggi­leg­ur af ýms­um á und­an­förn­um vik­um. Lík­lega er um barns­lega ósk­hyggju og ein­feldn­ings­hátt að ræða. En varn­ar­bar­átta þjóðar gegn vopnuðu of­beldi verður ekki háð með plástr­um held­ur með vopn­um og skot­fær­um. Það er hol­ur hljóm­ur í þeim sem segj­ast í orði vilja styðja við frels­is­bar­áttu þjóðar en hafna því að við Íslend­ing­ar leggj­umst á árar með banda­lagsþjóðum í viðleitni við að tryggja Úkraínu nauðsyn­leg vopn til að verj­ast. Verst er að slík­ur mál­flutn­ing­ur er vatn á myllu of­beld­is­manns sem fer með stríði gegn sjálf­stæðri þjóð.

Þegar við fögn­um 80 ára af­mæli lýðveld­is­ins og þeim gríðarlegu fram­förum sem átt hafa sér stað eig­um við að minna okk­ar á að við höf­um skyld­um að gegna gagn­vart frjálsri þjóð sem er und­ir árás ná­granna. Yf­ir­gangi of­beld­is­manna verður ekki mætt með róm­an­tísk­um hug­mynd­um um vopn­leysi. Frið er ekki hægt að kaupa með veik­lyndi and­spæn­is of­beldi.

Á 17. júní eig­um við að hafa í huga varnaðarorð Selenskís. Ef Úkraína fell­ur mun „sól­in á himni þínum verða daufari“. Þegar of­beld­is­menn fara með ófriði reyn­ir á vilja sjálf­stæðrar þjóðar til að verja eigið sjálf­stæði í sam­starfi við vina- og bandaþjóðir.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 12. júní 2024.