Útlendingafrumvarpið orðið að lögum

Alþingi samþykkti frumvarp dómsmálaráðherra um breytingar á útlendingalögum í dag eftir harða og langa baráttu Sjálfstæðisflokksins í málaflokknum í hartnær áratug. Frá því að núgildandi útlendingalög voru samþykkt árið 2016 hafa dómsmálaráðherrar Sjálfstæðisflokksins ítrekað lagt til nauðsynlegar breytingar á lögunum. Þær breytingar hafa ávallt mætt mikilli andstöðu, ekki síst frá Pírötum og Samfylkingu, og hafa fulltrúar beggja flokka nær alltaf staðið fyrir málþófi þegar málin hafa komið til umræðu.

Það skref sem stigið er í dag er því afar stórt og til þess fallið að ná utan um þær áskoranir sem uppi eru í málaflokknum. Þá munu ný lög einnig færa íslenska löggjöf nær því sem gerist í nágrannalöndum ásamt því að auka verulega skilvirkni í kerfinu.

Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra hyggst í haust leggja fram annað frumvarp þar sem helsta áhersluatriðið verður að svipta flóttamenn dvalarleyfi gerist þeir uppvísir um alvarlegan glæp.

Var frumvarpið í dag samþykkt með 42 atkvæðum gegn 5, en 10 þingmenn greiddu ekki atkvæði. Þingmenn Sjálfstæðisflokksins, Framsóknarflokksins, Vinstri grænna, Miðflokksins og Flokks fólksins samþykktu frumvarpið. Þingmenn Pírata greiddu atkvæði gegn því og þingmenn Samfylkingarinnar og Viðreisnar greiddu ekki atkvæði (sátu hjá).

Með frumvarpinu er brugðist við hraðri þróun í málaflokknum og fordæmalausri fjölgun umsókna um alþjóðlega vernd á síðustu árum. Lagabreytingarnar miða að því að samræma lög um útlendinga við löggjöf í öðrum Evrópuríkjum, þá einkum á Norðurlöndunum, og að mæta þeim annmörkum sem komið hafa í ljós við beitingu gildandi laga, auk þess sem séríslenskar málsmeðferðarreglur eru afnumdar. Með nýjum lögum er einnig stefnt að því að auka skilvirkni innan stjórnsýslunnar og tryggja hagræðingu við nýtingu fjármagns.

Veigamestu breytingarnar í áraraðir

„Málefni útlendinga eru viðkvæmur málaflokkur og ber að nálgast hann af virðingu. Ísland er meðal helstu velferðarríkja heims og það er ekki hægt að tryggja og viðhalda þeirri velferð nema hafa stjórn á þeim fjölda sem til landsins kemur. Ég fagna þessum breytingum á útlendingalöggjöfinni okkar, en um er að ræða veigamestu breytingar á málaflokknum í áraraðir, en einnig að sátt hafi náðst í ríkisstjórn um sameiginlega sýn í málaflokknum. Ég mun áfram rísa undir ábyrgð og ég hræðist ekki vegferðina sem er fram undan,“ sagði Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra í kjölfar samþykktar nýrra laga.

Aldrei hafa fleiri komið til landsins á flótta en síðustu tvö ár. Árið 2014 þótti það mikið þegar hingað komu 176 einstaklingar á flótta. Í fyrra komu um tuttugu og fjórum sinnum fleiri, eða 4.159 einstaklingar. Fjöldi umsækjanda hefur síðan dregist verulega saman, ekki síst vegna samþykktar frumvarps Jóns Gunnarssonar þáverandi dómsmálaráðherra á síðasta löggjafarþingi. Fjölguninni fylgir tilheyrandi margföldun kostnaðar, en dómsmálaráðuneytið áætlar að hann hafi verið um 20 milljarðar í fyrra, sem er til samanburðar drjúgur hluti þess sem kostar að reka alla utanríkisþjónustu Íslands ár hvert. Eðli málsins samkvæmt hefur þróunin í för með sér gríðarlegt álag á innviði samfélags sem telur tæplega 400 þúsund íbúa, en fólksfjölgun hér hefur verið langtum hraðari en í Evrópu.

Markmið laga um útlendinga er að tryggja mannúðlega og skilvirka meðferð stjórnvalda í málefnum útlendinga hér á landi. Svo að lögin geti náð markmiði sínu þarf að slá skjaldborg utan um verndarkerfið og félagslega innviði í landinu til að koma í veg fyrir að fjöldi umsókna verði kerfinu ofviða. Stjórnvöld þurfa að geta brugðist við breyttum aðstæðum, eftir atvikum með laga- og reglugerðarbreytingum, og aðlagað verndarkerfið að þeirri þróun sem á sér stað á hverjum tíma. Verndarkerfið þarf að vera í stakk búið og byggt þannig upp að þeir sem raunverulega eiga rétt á alþjóðlegri vernd fái skjóta og mannúðlega afgreiðslu mála sinna. Á sama tíma er nauðsynlegt að sporna gegn misnotkun á kerfinu. Það er hvorki raunhæft né sjálfbært fyrir íslenskt samfélag að taka áfram á móti rúmlega 4.000 umsóknum um alþjóðlega vernd á ári. Við þurfum þess vegna að hreyfa okkur í takt við aðrar Norðurlandaþjóðir við lagasetningu til að fækka umsóknum um alþjóðlega vernd og stytta málsmeðferðartíma. Með nýjum útlendingalögum hefur grettistaki verið lyft á þeirri vegferð. Áralöng stefna Sjálfstæðisflokksins á málefnasviðinu heldur áfram að verða að veruleika.

Aðgerðir gegn þrýstingi á félagslega og efnahagslega innviði

„Þegar ríkisstjórnarflokkarnir endurnýjuðu samstarf sitt á vormánuðum þá sögðu þeir að þeir ætluðu að grípa til aðgerða í útlendingamálum. Það var sérstaklega vísað til þessa máls og það heyrðust miklar efasemdaraddir frá stjórnarandstöðunni um að flokkarnir hefðu getu og burði til þess að ljúka málinu. Við erum að sýna það í verki hér í dag að við höfum getu og burði, áræðni og framtíðarsýn í þessum málaflokki sem birtist í lokum þessa máls í dag. Ég þakka nefndinni sérstaklega fyrir og hæstv. dómsmálaráðherra fyrir öfluga málafylgju. Ríkisstjórnin er að grípa til aðgerða vegna þrýstings á félagslega og efnislega innviði í landinu sem nauðsynlegt er að gera á þessum tímapunkti. Það er dapurlegt að sjá að ekki sé breiðari samstaða um þessar mikilvægu aðgerðir hér í þinginu,” sagði Bjarni Benediktsson, forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, við samþykkt laganna.