Heiðurstengt ofbeldi ekki velkomið á Íslandi

Diljá Mist Einarsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og formaður utanríkismálanefndar Alþingis:

Nýlega greindu fjölmiðlar frá því að átta Palestínumenn, sem eru búsettir á Suðurnesjum, hefðu verið ákærðir fyrir stórfelld brot í nánu sambandi og líkamsárásir gegn konu sem tengist þeim fjölskylduböndum. Greint var frá því að málið tengist sambandsslitum konunnar við barnsföður sinn og sambandi hennar við nýjan mann sem fjölskyldu hennar hugnaðist ekki. Sá maður hefur einnig orðið fyrir ofbeldi og hótunum. Lýsingar á ofbeldinu vekja mikinn óhug. Þannig eru umræddir aðilar sagðir hafa beitt konuna andlegu og líkamlegu ofbeldi, hótað henni og ógnað, brotist inn til hennar, skemmt og stolið eigum hennar og gert tilraun til að nema dætur hennar á brott. Palestínska fjölskyldan er einnig ákærð fyrir brot gegn dætrum konunnar.

Konan sem um ræðir hefur greint frá því að hún óttist að hún og dætur hennar verði fórnarlömb svokallaðra heiðursmorða. Enda greindi faðir hennar lögreglunni frá því að hún hefði átt það skilið að deyja. Væru hann og synir hans „í einhverju arabalandi þá væru þeir löngu búnir að slátra henni“.

Heiðurstengt ofbeldi hefur verið mjög fjarlægt okkar heimshluta um aldir, en er útbreitt víða í heiminum. Tugir þúsunda kvenna láta lífið á ári hverju og eru beittar ofbeldi í þeim tilgangi að verja meintan heiður fjölskyldunnar, ekki síst karlanna. UN Women á Íslandi útskýrir fyrirbærið þannig á heimasíðu sinni að konur hafi verið „drepnar fyrir að ganga í fötum sem talin eru óviðeigandi, sækja um skilnað frá ofbeldisfullum eiginmanni, eiga í sambandi við karlmann utan hjónabands, eða jafnvel fyrir að hafa verið nauðgað“.

Heiðurstengt ofbeldi er ekki hluti af (ó)menningu okkar heimshluta, en hefur þó áður komið upp í umræðunni hér. Ég skrifaði m.a. grein hér um efnið fyrir örfáum árum þar sem mál höfðu komið inn á borð lögreglu hér á landi þar sem grunur lék á heiðurstengdu ofbeldi. Við verðum að hafa augun opin fyrir þróuninni í þessum efnum, enda er þessi viðurstyggð orðin vel þekkt t.a.m. í Bretlandi og á Norðurlöndunum þangað sem innflytjendur hafa borið hefðirnar – mannfyrirlitningu í garð kvenna – með sér. Það er einfaldlega rangt að halda því fram að heiðurstengt ofbeldi tengist ekki ákveðnum menningarheimum og heimshlutum. Það er staðreynd sem felur ekki í sér neina fordóma. Málflutningur á annan veg gerir einfaldlega lítið úr þeim konum sem sæta þar gríðarlega miklu ofbeldi og mismunun.

Ég hef því lagt fram fyrirspurn á Alþingi til dómsmálaráðherra um heiðurstengt ofbeldi og um umfang þess hér. Sömuleiðis hvort ráðherrann telji lagaumgjörð vegna brotanna vera fullnægjandi og hvort hún hyggist grípa til að aðgerða til að vinna gegn heiðurstengdu ofbeldi.

Hér verðum við að stíga fast til jarðar. Maður getur varla ímyndað sér angist konu og barna sem þurfa að þola slíka aðför og ofbeldi frá stórum hópi sinna nánustu. Hér á okkar friðsæla jafnréttislandi eiga allir að fá sömu skilaboðin um að kynbundið ofbeldi sé ekki liðið. Við höfum haft mikið fyrir að komast á þann stað að mannréttindi séu talin algild og ófrávíkjanleg. Að við séum heimsmeistarar í jafnrétti. Við megum aldrei gefa afslátt af þessu. Aldrei.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 13. júní 2024