Vilhjálmur Árnason ræðir stjórnmálaferilinn og störf sín sem ritari flokksins

Í fimmta þætti nýrrar þáttaraðar um samofna 95 ára sögu Sjálfstæðisflokksins og 80 ára afmælis lýðveldis ræðir Ingvar P. Guðbjörnsson við Vilhjálm Árnason ritara Sjálfstæðisflokksins, alþingismann og formann Þingvallanefndar um hans stjórnmálaferli, árangur og hvernig lýðveldisafmælisins verður minnst á Þingvöllum hinn 17. júní næstkomandi þar sem Lýðveldi Íslands var stofnað 80 árum áður. Hægt er að nálgast hljóðútgáfu af þættinum hér.

Vilhjálmur hefur setið á Alþingi síðan 2013 og var kjörinn ritari flokksins á landsfundi 2021. Hann ræðir meðal annars um innra starf flokksins og mikilvægi þess, en hann sem ritari flokksins hefur sérstökum skyldum að gegna gagnvart því. Þá er rætt við hann um stjórnmálaferilinn, hvernig hann kom inn í stjórnmál og rifjar hann upp ýmis mikilvæg mál úr stjórnmálunum á þeim tíma sem hann hefur átt sæti á Alþingi.

Grunnurinn í stefnunni er einkaframtakið

„Innra starf Sjálfstæðisflokksins er gríðarlega öflugt og lýsir hugsjón flokksins að það er fullt af einstaklingum sem trúa á einstaklingsframtakið og sýna það í verki í innra starfinu. Það er það sem hefur gert þetta að svona öflugu starfi,“ segir Vilhjálmur um innra starfið. Hann segir að Sjálfstæðisflokkurinn hefði aldrei komist svo langt sem raun ber og verið jafn stór áhrifaþáttur í mótun íslensks samfélagsins eins og hann hefur verið frá stofnun án innra starfsins.

„Enginn flokkur haft jafn mikil áhrif á uppbyggingu og þróun þessa lands til velsældar – það er allt innra starfinu að þakka af því að við höfum átt mjög frambærilegt og flott forystufólk í stjórnmálum, í sveitarstjórnum og á Alþingi. En stjórnmálamaður er ekkert án baklandsins. Það kemur allt úr innra starfinu,“ segir hann.

Vilhjálmur ræðir stefnu flokksins og hvað liggur að baki því að svo margt fólk gefur kost á sér til starfa í innra starfi flokksins um allt land, nokkur þúsund manns sem með einum eða öðrum hætti starfar í grasrót Sjálfstæðisflokksins.

„Grunnurinn er þessi óaðfinnanlega stefna flokksins, grunngildi flokksins sem eru búin að vera óhögguð frá 1929 og þau hafa ekkert breyst. Það er fólkið í flokknum sem hefur viðhaldið þessari stefnu. Tryggt það að stefnunni sé fylgt og að henni sé ekki breytt,“ segir hann. Hann segir að fólkið í flokknum skipti mestu þegar kemur að því að kynna stefnuna og tala fyrir henni.

„Grunnurinn í henni er einkaframtakið,“ segir Vilhjálmur.

Hver og einn flokksmaður er jafn mikilvægur

Spurður út í sínar áherslur sem ritari segir hann að það sé mikilvægt að hafa skýrar leikreglur. Sjálfstæðisflokkurinn sé lýðræðislegur flokkur. Það sé mikilvægt að skipulagið sé þannig að það gangi upp. Hann segist hafa lagt á það áherslu að hver og einn flokksmaður geti talað fyrir stefnu flokksins og sé jafn mikilvægur í því og kjörnir fulltrúar.

„Þó ég sé kjörinn fulltrúi og þó ég sé ritari flokksins þá hef ég ekkert meiri rétt á því að gera eitthvað í innra starfi flokksins til þess að hafa gaman eða tala fyrir stefnu flokksins,“ segir hann og einnig: „Það er mikilvægt við innra starfið að þau veita okkur kjörnu fulltrúunum aðhald.“

„Stjórnmálafólk sem er bara með já-fólk í kringum sig fara bara út í skurð. Það er það góða við Sjálfstæðisflokkinn að við megum hafa mismunandi skoðanir og við megum takast á og við viljum stakast á. En við eigum að vera sameinuð í að tala fyrir stefnunni og tala gegn vinstrimennsku. Það er aðal atriðið,“ segir hann.

Það geta allir tekið þátt í pólitík sem geta haft skoðun

Spurður að því hvernig það kom til að hann gaf kost á sér til setu á Alþingi segir hann að það hafi verið sprottið úr innra starfinu. Hann og fleiri formenn ungra sjálfstæðismanna í Suðurkjördæmi hafi hist reglulega og í aðdraganda prófkjörs 2009 hafi komið í ljós að enginn fulltrúi ungra sjálfstæðismanna væri að fara að taka þátt. Hann hafi því ákveðið að láta slag standa og verið hvattur til þess.

„Það er gaman að segja frá því að ég flutti ekki í kjördæmið fyrr en í júní 2008 og þekkti engan trúnaðarmann flokksins þá. Ég átti enga stóra ætt eða fjölskyldu. Mér var vel tekið og fólk tilbúið að styðja mig. Um leið og þú hefur skoðun á hlutunum og vilt taka þátt í að gera samfélagið betra þá er fólk tilbúið í að taka þátt í því með þér,“ segir hann um sitt fyrsta prófkjör.

„Það gekk bara vel af því að fólk sá þarna ungan dreng sem vissi hvað hann vildi og var fyrir stefnu flokksins. Það hjálpaði mér svo í prófkjörinu 2013 sem ég ákvað að taka þátt í aftur,“ segir hann, en það ár náði hann kjöri til setu á Alþingi. „Ég bað um 4. sætið og fékk það og við náðum fjórum mönnum inn í Suðurkjördæmi,“ segir Vilhjálmur.

„Prófkjör eru sniðug upp á það að þú verður að fara og kynna þig. Þá fær fólkið að kynnast þér og þú færð að kynnast kjördæminu þínu,” segir hann og nefnir gott skipulag í prófkjörum flokksins þar sem skipulagðir eru sameiginlegir fundir þar sem frambjóðendur hafi færi á því að ræða við alla fundarmenn og þannig kynna sig og kynnast fólkinu.

„Þú fékkst þetta beina samtal. Það hjálpaði mér alveg gríðarlega í að kynna mig fyrir fólkinu, hvaða persóna ég væri og hvaða áherslur ég myndi leggja. Ég segi að það geta allir tekið þátt í pólitík sem geta haft skoðun. Þú þarft ekki að þekkja alla hluti – þú þarft bara að geta haft skoðun á hlutunum,“ segir hann.

Tók þátt í bæjarmálunum í Grindavík

„Ég tók þátt í bæjarmálunum í Grindavík. Var þar varabæjarfulltrúi, sat í umhverfis- og skipulagsnefnd Grindavíkurbæjar og varamaður bæjarráði og bæjarstjórn,“ segir hann spurður að því hvort hann hafi áður tekið þátt í störfum flokksins áður en hann varð þingmaður. Jafnframt var hann formaður Víkings, félags ungra sjálfstæðismanna í Skagafirði og Freyju, félags ungra sjálfstæðismanna í Grindavík.

Vilhjálmur segist hafa alist upp í Sjálfstæðisflokknum og í kringum hann. Spurður að því hvort það hafi aldrei neitt annað komið til greina en Sjálfstæðisflokkurinn segir hann:

„Þegar ég var mjög ungur þá upp mjög harðsvírt prófkjör í Norðausturkjördæmi sem tengdist föðurbróður mínum og það var mikill óróleiki í kringum það. Þá hugsaði ég mér alveg: „Ég er í stjórnmálum og á ég að fara í fýlu og fara að kjósa einhvern annan flokk eða hætta starfinu?“ Ég fór mjög djúpt í gegnum þetta allt. Þá leitaði alltaf þessi hugsjón á mig. Þá fann ég það að hinir flokkarnir voru ekkert með svo ljósa hugsjón, hún var frekar óskýr – en hugsjónin og gildin sem voru á bak við Sjálfstæðisflokkinn, þó mér finnist hluti af fólkinu í starfinu hafa haft rangt við og þó einhverjar persónur hafi verið að takast á þá var það ekki að breyta hugsjóninni. Ég sagði: „Ég er bara fyrir þennan flokk.“ Þá varð ég alveg sannfærður um að það geti margt gerst innan flokksins en grunngildin og grunnstefnan stendur fyrir sínu og ég mun ekki yfirgefa það,“ segir hann.

Treystum fjölskyldunni til að eignast barn og ráðstafa fæðingarorlofinu

Talið barst að störfunum á Alþingi og árangri á þeim vettvangi. Vilhjálmur segist geta nefnt mörg mál. Hann nefnir málefni lögreglunnar og ný lög um héraðssaksóknara sem dæmi. Eins varðandi breytingar á fæðingarorlofslöggjöfinni þar sem foreldrum var veitt aukið frelsi til að ráðstafa fæðingarorlofi sín á milli.

„Það var grunnhugsjón flokksins: Treystum við fjölskyldunni til þess að eignast barn og ráðstafa fæðingarorlofinu eins og kemur best út fyrir barnið og fjölskylduna – eða ætlum við að miðstýra því?“ segir hann.

Eins nefnir hann lyfjalög: „Þá náum við að breyta og bæta inn í að þar sem er ekki starfandi apótek og er viss fjarlægð megi selja viss lyf í lausasölu. Nú er þetta komið. Þú getur keypt í Staðarskála, á Flúðum og á fleiri stöðum. Það eru margar svona breytingar sem við náum oft að hafa áhrif á.“

Hann nefnir jafnframt Miðhálendisþjóðgarðsmálið. „Þá skipti miklu máli að hafa verið í góðum samskiptum við fólkið í kjördæminu og þekkja allt það góða fólk í innra starfinu sem gat upplýst mann og frætt mann til þess að geta tekið rétta afstöðu í því máli og stoppað það. Það hefur mikil barátta,“ segir hann en málið náði ekki fram að ganga á síðasta kjörtímabili og var gríðarlega umdeilt.

„Svo hef ég verið mikið í samgöngumálunum og við höfum lagt til miklar breytingar á samgönguáætlun og tekið mikla umræðu í gegnum þingið varðandi nýjar leiðir í samgönguframkvæmdum. Við höfum náð árangri í gegnum þingið þar – en því miður hafa samgönguyfirvöld ekki fylgt stefnu þingsins eftir,“ segir hann og bætir við: „Ég held að við séum að flýta fyrir því að það komi einhverjar alvöru breytingar í uppbyggingu innviða hér eftir þessa umræðu sem við höfum tekið í umhverfis- og samgöngunefndinni.“

Gríðarlegar lagfæringar gerðar á skattkerfinu 2013-2017

Spurður út í átakamál í þinginu segir hann að með fjölgun stjórnmálaflokka á Alþingi og eins í ríkisstjórn sé orðið minna um að það takist að koma stórum mikilvægum málum sem ekki er samstaða um í gegnum þingið. Mál sem séu risastór og skipti þjóðina miklu náist síður í gegn en slík mál gerðu þegar einungis voru tveir flokkar í ríkisstjórn. Nefnir hann skattaumherfið sem dæmi í tíð ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Framsókanrflokks 2013-2017.

„Þá gerðum við gríðarlegar skattkerfisbreytingar. Við lækkuðum almennan virðisaukaskatt úr 25,5% í 24%. Áttatíu prósent af öllum útgjöldum heimilanna eru í efra þrepinu. Við tókum mið skattþrepið út sem var gríðarleg kjarabót fyrir millistéttina í landinu. Tugþúsunda minni skattbyrði í hverjum einasta mánuði. Svo afnámum við tolla og vörugjöld af yfir átta hundruð vöruflokkum sem skipti gríðarlega miklu máli. Þar sýndum við að Sjálfstæðisflokkurinn var mættur á staðinn. Enginn annar hefði barist fyrir þessu,“ segir hann.

Framlög til eldri borgara úr 40 upp í 120 milljarða síðan 2013

Hann nefnir breytingar sem gerðar hafa verið á almannatryggingum eldri borgara síðan hann settist á þing.

„Pétur heitinn Blöndal stýrði nefnd strax 2013 til þess að endurskoða almannatryggingakerfið og það var mikil vinna með okkar áherslum til þess að afnema skerðingar og breyta þessu kerfi öllu saman. Það tókst með almannatryggingum eldri borgara. Frá því að Sjálfstæðisflokkurinn kom í ríkisstjórn 2013 hafa framlög til eldri borgara farið úr 40 milljörðum í 120 milljarða. Það er ekki tekið upp af götunni. Það þarf ábyrga fjármálstjórn svo það sé hægt. Við erum ennþá með áskoranir fyrir þennan hóp fólks en kaupmáttur þar hefur samt vaxið gríðarlega, þessar skerðingar, króna á móti krónu, eru ekki lengur og við erum búin að búa til lægra skattþrep. Við erum búin að verðbæta persónuafsláttinn. Búið að fara í gegnum greiðsluþátttökukerfið í heilbrigðiskerfinu og lyfjaþátttökunni. Gera almenna íbúðalöggjöf og fleira til að bæta hag þessa fólks. Því miður tókst ekki að klára almannatryggingar fyrir öryrkja því það var ekki samstaða þar. En það var samt komið með tillögur þar og við erum að ná að koma þeim í framkvæmd vonandi núna,“ segir hann og eins frítekjumark.

Þá nefnir hann einnig útlendingamálin. Sjálfstæðisflokkurinn hafi haft sömu stefnu í þeim málaflokki síðan 2013 og staðið við hana. Ráðherrar flokksins hafi lagt fram sama frumvarpið fimm sinnum í þinginu en nú sé loks að nást alvöru árangur í þeim málum. Hluti hafi verið samþykktur í fyrra en nú sé verið að klára það sem upp á vanti og að auk ríkisstjórnarflokkanna sé Samfylkingin komin að því borði einnig.

„Áherslur Sjálfstæðisflokksins í útlendingamálum eru svo tengdar grunngildum okkar. Við erum mjög frjálslynd og viljum bjóða hér fólk úr öllum heiminum velkomið sem er að koma og vill taka þátt í samfélagi með okkar gildum og er að koma hér til þess að vinna og taka þátt í uppbyggingu okkar. Við þurfum á því fólki að halda. Við erum „Stétt með stétt“ flokkur sem segjum að þeir sem eru í neyð, líf og limir í hættu og annað slíkt, við veitum þeim hér vernd. Við tökum þátt í sáttmála Sameinuðu þjóðanna og viljum hlúa að þeim. En þeir sem eru að koma hér sem efnahagslegir flóttamenn eða hælisleitendur og eru að nýta okkar velferðarkerfi án þess að eiga rétt til þess – þá erum við mjög íhaldssöm og mjög ströng,“ segir hann.

Þá nefnir hann einnig að margir hælisleitendur komi hingað í góðri trú og hafi hreinlega verið blekkt til þess af skipulögðum glæpasamtökum sem selji þeim þá hugmynd að koma hingað. Það þýði ekki að það sé vont fólk heldur fólkið sem plati þau til þess.

„Við verðum líka að passa okkur á því að vera einhver gróðrastía fyrir skipulagða glæpastarfsemi og láta saklaust fólk sem er að leita að betra lífi að lenda í klóm þeirra. Það er líka ábyrgðarhlutur sem mér finnst oft vanta inn í umræðuna í þetta,“ segir hann.

Þingvellir eru okkur gríðarlega mikilvægir

Vilhjálmur er formaður Þingvallanefndar. Hann segir að Þingvellir séu helgistaður þjóðarinnar og eigi að vera ævarandi eign hennar. Flestir Íslendingar hafi mjög sterkar taugar til Þingvalla og að þar séu helstu hátíðir þjóðarinnar haldnar.

„Þingvellir eru okkur gríðarlega mikilvægir og okkur ber skylda til að varðveita Þingvelli sem slíka. Þeir eru komnir á heimsminjaskrá UNESCO fyrir þennan menningararf sem er þar og sögu,“ segir hann

Spurður út í aðkomu Þingvallanefndar að hátíðarhöldunum nú þegar 80 ár verða frá stofnun Lýðveldis Íslands þann 17. júní 1944 segir hann að nefndin hafi töluverða aðkomu að því í samstarfi við forsætisráðuneytið.

„Það verða ýmsar uppákomur og hátíðir á Þingvöllum í allt sumar. Það verða mikil hátíðarhöld á Þingvöllum 16. og 17. júní. Það verða kórar og hljómsveitir og tónlistarmenn með tónleika. Opnum ljósmyndasýningu og alls kyns menningarlegir viðburðir þannig að við munum taka virkan þátt í hátíðarhöldunum,“ segir hann.

Vildi að það væri breið skírskotun í forystunni

Vilhjálmur var kjörinn ritari Sjálfstæðisflokksins á landsfundi 2021. Spurður út í hvað hafi komið til þess að hann gaf kost á sér segir hann:

„Það var löngunin að hafa áhrif á það hvernig flokkurinn starfar og vinnur áfram. Ég hef miklar skoðanir á þessu og brenn mikið fyrir því að sem flestir fái að upplifa stefnu og gildi flokksins. En ég hafði líka mikinn áhuga á því að það væri breið skírskotun í forystu flokksins og að flestir gætu samsvarað sig í forystunni. Var búsettur út á landi og kem úr stóru sjálfstæðiskjördæmi. Ég taldi mig hafa eitthvað fram að færa og hafði þennan áhuga á að taka þátt í að reyna að gera betur fyrir flokkinn.“

Hann segir að það skipti gríðarlega miklu máli að í forystu flokksins veljist einnig fólk af landsbyggðinni. Verðmætasköpunin fari fram um allt land og samfélagið sé einnig mjög dreift og aðstæður mismunandi.

„Það er mjög mikil ábyrgð sem fylgir því að vera í þessari stöðu. Það eru miklar væntingar og mikið traust sett á þig. Maður finnur alveg skýrt fyrir því,“ segir hann um starf sitt sem ritara Sjálfstæðisflokksins.

Hann segir að eitt það skemmtilegasta sem hann geri sem þingmaður sé að fara um landið, hitta fólk og að kynnast mismunandi verkefnum og aðstæðum um land allt. Þá segir hann að það að fleiri óski nú nærveru sinnar eftir að hann var kjörinn ritari sé ánægjulegt.

Sjálfstæðisflokkurinn á bjarta framtíð

„Framtíð Sjálfstæðisflokksins er mjög björt og ég finn það svo skýrt þegar ég fer sem ritari að fólk er að ræða hugsjónina og vilja meira af henni út á við. Hver grunngildi okkar eru. Ég finn það svo sterkt að þó að skoðanakannanir hafi ekki verið okkur hliðhollar að það er alveg ótrúlega mikið af fólki sem er tilbúið núna, komið með sjálfstraustið eftir bankahrunið og þegar var ágjöf á flokkinn. Nú er fólk tilbúið að berjast fyrir grunngildunum, segjast vera sjálfstæðisfólk, vinna fyrir flokkinn, mæta á fundi og taka þátt í starfinu og hafa frumkvæði að flokksstarfi,“ segir hann aðspurður um sýn sína á framtíð Sjálfstæðisflokksins.

„Allt sem ég finn núna innan flokksins eru bara jákvæðir straumar og gefa mér mikla von um að við eigum bjarta framtíð framundan,“ segir hann.

Þáttinn má nálgast á Spotify hér.