Erlend risalántaka Reykjavíkurborgar

Kjartan Magnússon borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík:

Meirihluti borgarstjórnar Reykjavíkur hefur samþykkt að borgin taki 100 milljónir evra að láni hjá Þróunarbanka Evrópuráðsins (CEB). Upphæðin nemur um fimmtán milljörðum króna á núverandi gengi. Þrátt fyrir versnandi kjör á innlendum lánsfjármarkaði er þannig haldið áfram að skuldsetja borgina og íbúa hennar, en nú með háu erlendu láni.

Lántökunni er ætlað að fjármagna viðhald á skóla- og frístundahúsnæði borgarinnar. Mörg undanfarin ár hefur viðhald þess húsnæðis verið vanrækt hjá Reykjavíkurborg og á þeim tíma byggst upp hrikaleg viðhaldsskuld. Slík vanræksla leiðir til mikils viðbótarkostnaðar og getur haft slæm áhrif á líðan nemenda og starfsmanna. Getur hún t.d. leitt til myglu eins og mörg nýleg dæmi eru því miður um hjá Reykjavíkurborg.

Samkvæmt greinargerð, sem lögð var fram á sl. ári, er þörf á meiri háttar viðhaldi í 83% af skóla- og frístundabyggingum borgarinnar eða 113 af 136! Uppsöfnuð viðhaldsskuld skóla- og frístundahúsnæðis Reykjavíkurborgar nemur a.m.k. rúmum þrjátíu milljörðum króna. Er það áætluð heildarfjárþörf vegna viðhalds þessara bygginga árin 2022-2028.

Furðuleg forgangsröðun

Þessi risastóra viðhaldsskuld ber vitni um kolranga forgangsröðun í viðhalds- og byggingarmálum Reykjavíkurborgar sl. áratug. Á sama tíma og viðhald var vanrækt, hefur verið stofnað til stórfelldra fjárútláta vegna margra ólögbundinna gæluverkefna. Nefna má braggann í Nauthólsvík, viðbótarframlög til Hörpu, framkvæmdir við Grófarhús og í Ráðhúsinu, sem og kostnaðarsamar gatnaþrengingar til að takmarka umferð í borginni.

Reykvíkingar þurfa að sjálfsögðu að greiða hina háu viðhaldsskuld, sem safnast hefur upp hjá borginni undanfarin ár. Ljóst er að sá kostnaður er orðinn mun meiri en hann væri ef staðið hefði verið eðlilega að viðhaldi skólahúsnæðis.

Meirihluti Samfylkingar, Framsóknarflokks, Pírata og Viðreisnar grípur nú til þess ráðs að taka hátt erlent lán til að fjármagna það viðhald sem vanrækt hefur verið. Meirihlutinn veltir þannig hinni háu viðhaldsskuld yfir á skattgreiðendur framtíðarinnar.

Versnandi lánskjör

Erlenda lánið bætist við aðrar skuldir Reykjavíkurborgar, sem orðnar eru gífurlega háar. Skuldir samstæðu borgarinnar hækkuðu um fimmtíu milljarða króna á sl. ári og námu 495 milljörðum í árslok. Áætlað er að skuldirnar verði komnar 515 milljarða króna um næstu áramót. Fjárhagur borgarinnar fer því ört versnandi og virðist ekkert lát ætla að verða á skuldasöfnuninni næstu árin.

Á undanförnum árum hafa hallarekstur og fjárfestingar Reykjavíkurborgar að mestu verið fjármögnuð með útgáfu skuldabréfa á innlendum markaði. Áhugi innlendra fjárfesta á skuldabréfum borgarinnar fer hins vegar þverrandi og hefur hún þurft að sæta afarkjörum af þeim sökum. Versnandi lánskjör borgarinnar sýna að lánstraust hennar hefur minnkað. Þessi þróun sýnir að fjárhagsstaðan er óviðunandi og komin yfir hættumörk. Langvarandi skuldasöfnun og há fjármagnsgjöld hafa þau áhrif að borgin er orðin mjög berskjölduð fyrir verðbólgu og vaxtahækkunum.

Skuldsetning í erlendri mynt

Sú stefnubreyting að taka stórt erlent lán í evrum getur haft í för með sér vandkvæði fyrir Reykjavíkurborg. Meginreglan er sú að óæskilegt sé að skuldsetja sig í erlendri mynt nema lántakinn hafi tekjur á móti í sama gjaldmiðli. Þegar borginni er nú gert að taka stórt lán í erlendri mynt, er afar mikilvægt að meta þá gengisáhættu, sem þannig skapast og leita leiða til að lágmarka hana.

Með því að hefja sókn inn á erlendan lánsfjármarkað hefur vinstri meirihlutinn fundið nýja leið til að skuldsetja borgina og íbúa hennar. Slík skuldsetning er ekki til þess fallin að bæta hag íbúa borgarinnar til framtíðar.

Borgarfulltrúar meirihlutans ættu fremur að beita hugkvæmni sinni í því skyni að ná stjórn á fjármálum borgarinnar og láta af hallarekstri og skuldasöfnun. Heilbrigður rekstur væri í þágu komandi kynslóða og hefði auk þess jákvæð áhrif í baráttunni við verðbólgu og háa vexti, sem kæmi öllum til góða.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 6. júní 2024.