Friðrik Sophusson fyrrverandi varaformaður Sjálfstæðisflokksins er nýjasti gestur í nýrri hlaðvarpsþáttaröð Sjálfstæðisflokksins sem tileinkuð er 95 ára sögu Sjálfstæðisflokksins og 80 ára sögu lýðveldisins. Í þáttunum er rætt við fyrrum forystumenn í flokknum, ráðherra, þingmenn, sveitarstjórnarmenn og annað trúnaðarfólk í flokknum um þeirra feril og aðkomu að stjórnmálunum og ýmis stór mál í þessari samofnu sögu. Hægt er að horfa á þáttinn í spilaranum hér fyrir ofan og hlusta á hann hér.
Í þættinum ræðir Óli Björn Kárason alþingismaður við Friðrik um hans stjórnarmálaferil sem spannaði rúma tvo áratugi sem varaformaður Sjálfstæðisflokksins 1981–1989 og 1991–1999, alþingismaður 1978-1998, iðnaðarráðherra 1987-1988 og fjármálaráðherra 1991-1998.
„Mér er alveg ljóst eins og flestum öðrum að þjóðfélagið og þjóðfélög í vestrænum heimi hafa gjörbreyst. Þetta er allt annað líf heldur en að við lifðum á sínum tíma þegar ég var þátttakandi í stjórnmálum. Við verðum að taka tillit til þess og ef að þetta á að gerast á grundvelli Sjálfstæðisstefnunnar að við viljum vera í vestrænu þjóðfélagi, þar sem lýðræði er í heiðrum haft, þar sem menn eru frjálsir verka sinna og þurfa ekki að sækja allt undir allsráðandi ríkisvald þá held ég að menn þurfi fyrst að fara ofan í þetta og kanna; Getum við hagað málum okkar eitthvað öðruvísi í dag með tilliti til þjóðfélagsgerðarinnar og notað einhver nýrri meðöl? Það er mikilvægt. Það hefur ekkert breyst í 95 ár, þessi kjarnastefna okkar er enn fersk og ný. Það þarf ekkert að breyta henni. Hún er þarna. Þetta er sú stefna sem hefur reynst okkur best hér á landi og annarsstaðar og við eigum að fylgja henni,“ sagði Friðrik spurður út í ráð til þess unga fólks sem hyggur á þátttöku í stjórnvöldum á grundvelli Sjálfstæðisstefnunnar
Í viðtalinu ræðir hann um stjórnmálin frá því hann kemur inn í þau og tekur sæti á Alþingi. Þá hugmundafræði sem hópur ungra sjálfstæðismanna á áttunda áratugnum aðhylltist og talaði fyrir á áttunda og níunda áratugnum allt þar til fyrsta ráðuneyti Davíðs Oddssonar var myndað árið 1991. Þá hafði hluti þessa hóps gefið kost á sér og náð kjöri til setu á Alþingi fyrir Sjálfstæðisflokkinn og vann að því að innleiða þá hugsun sem í henni bjó.
Friðrik ræðir um ríkisstjórnarmyndun 1991 þegar Sjálfstæðisflokkurinn og Alþýðuflokkurinn mynduðu ríkisstjórn og síðan ríkisstjórnarmyndun 1995 þegar Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn mynduðu ríkisstjórn. Friðrik telur að eitt af lykilatriðum við þá stjórnarmyndun hafði verið endurnýjun í forystu Framsóknarflokksins.
Hann ræðir feril sinn sem fjármálaráðherra frá 1991-1998 og þá stefnu sem hann fylgdi eftir í ráðuneytinu þar sem ríkisfjármálin voru ekki á góðum stað og þann árangur sem ríkisstjórnir Davíðs Oddsonar náðu á þeim áratug, ekki síst með meiri aga í ríkisfjármálum og með því að draga úr ríkisumsvifum. Í þessu sambandi ræðir hann einnig þá þróun sem var að eiga sér stað annars staðar í heiminum, ekki síst í Bandaríkjunum og á Bretlandi og áhrifin af því inn í íslensk stjórnmál.
Friðrik nefnir m.a. breytingar í fjárlagagerð ríkisins sem var lykilatriði í þeim árangri sem náðist í ríkisfjármálum í hans tíð. Tekin var upp rammafjárlagagerð þar sem hvert ráðuneyti fékk ákveðið fjármagn og hver og einn ráðherra bar ábyrgð á að halda sínum málaflokkum innan fjárheimilda. Þá ræddi hann um lífeyrissjóð opinberra starfsmanna en kerfið var endurskipulagt í hans tíð og betur samræmt við lífeyrissjóði almennra starfsmanna.
Þá var rætt um innleiðingu á meiri aga í rekstri ríkisfyrirtækja og -stofnana. Sagði hann að vaxtastig í erlendum lánum hafi verið allt of hátt þegar hann kom inn í ríkisstjórn 1991 og að erlend skuldasöfnun ríkisins hafi verið komin í óefni sem nauðsynlegt hafi verið að vinna á, ekki hafi verið nægur agi í rekstri ríkisins og það hafi verið nauðsynlegur þáttur til að ná utan um vandann. Það hafi gefið góða raun á þessum árum með innleiðingu á rekstarhugsun úr einkageiranum inn í rekstur hins opinbera.
„Ég átti mjög gott með að starfa með því fólki sem ég starfaði með. Ég var varaformaður hjá þremur formönnum Sjálfstæðisflokksins. Ég byrjaði með Geir Hallgrímssyni, svo Þorsteini Pálssyni og loks Davíð Oddssyni. En það var með Davíð sem hlutirnir fóru að gerast sem manni hafði dreymt um að myndu gerast,“ sagði Friðrik.