Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir varaformaður Sjálfstæðisflokksins og utanríkisráðherra er fyrsti gestur í nýrri hlaðvarpsþáttaröð Sjálfstæðisflokksins sem tileinkuð er 95 ára sögu Sjálfstæðisflokksins og 80 ára sögu lýðveldisins. Í þáttunum er rætt við fyrrum forystumenn í flokknum, ráðherra, þingmenn, sveitarstjórnarmenn og annað trúnaðarfólk í flokknum um þeirra feril og aðkomu að stjórnmálunum og ýmis stór mál í þessari samofnu sögu. Hægt er að horfa á þáttinn í spilaranum hér fyrir ofan og hlusta hér.
Í þættinum ræðir Ingvar P. Guðbjörnsson við Þórdísi Kolbrúnu um þau sögulegu tímamót þegar Sjálfstæðisflokkurinn varð 95 ára. Einnig er rætt um stjórnmálastörf og -feril Þórdísar Kolbrúnar sem spannar rúman áratug frá því hún réðist sem framkvæmdastjóri þingflokks, varð aðstoðarmaður Ólafar heitinnar Nordal innanríkisráðherra og settist á þing haustið 2016. Síðan þá hefur Þórdís Kolbrún gegnt embættum ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, dómsmálaráðherra, fjármála- og efnahagsráðherra og utanríkisráðherra. Hún ræðir um sínar áherslur og mörg þeirra stóru mála sem hún hefur unnið að í sinni ráðherratíð.
Rætt er við hana um nýsköpunarmál sem hún vann ötullega að í sínu fyrsta ráðuneyti ásamt ferðamálunum sem þá voru í mikilli uppsveiflu og fjölmargar áskoranir sem hún þurfti að takast á við sem ráðherra málaflokksins. Einnig er rætt við hana um öryggismálin í tíð hennar sem utanríkisráðherra og þá miklu ólgu sem er í heiminum í dag. Þórdís Kolbrún ræðir um samstarfið við Ólöfu Nordal og þau áhrif sem hún hafði á hana. Þetta og fjölmargt fleira má finna í viðtalinu hér fyrir neðan.