Hringdu allan hringinn
'}}

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra:

Það er svo margt sem okk­ur þykir það sjálfsagt að við átt­um okk­ur ekki á því og þaðan af síður töl­um um það fyrr en okk­ur vant­ar það. Dæmi um slíkt eru góð og ör­ugg fjar­skipti, við ætl­umst til þess að vera alltaf í góðu síma- eða net­sam­bandi.

Staða fjar­skipta á Íslandi er mjög góð. Við erum leiðandi í út­breiðslu á ljós­leiðurum, með ein­staka stöðu í aðgengi að ljós­leiðurum í dreif­býli og út­breiðsla á 4G og 5G er á pari við það sem best ger­ist í heim­in­um. Þetta hef­ur gerst bæði í krafti mik­ill­ar sam­keppni og rétt stilltr­ar aðkomu stjórn­valda hverju sinni.

Verk­efn­inu er þó ekki lokið. Þegar ég hef verið á ferð um landið með skrif­stofu mína óháð staðsetn­ingu hef­ur þetta verið eitt af því sem brunnið hef­ur á fólki. Sam­kvæmt frum­at­hug­un Fjar­skipta­stofu eru enn um 100 heim­ili og vinnustaðir í dreif­býli sem eru bæði án ljós­leiðara­teng­ing­ar og farsíma­sam­bands sem upp­fyll­ir lág­marks­viðmið stjórn­valda um gæði netteng­ing­ar. Vegna þessa höf­um við ákveðið að ráðast í átak við að bæta fjar­skipta­sam­band á þess­um 100 stöðum á land­inu inn­an fárra ára. Verk­efnið verður skipu­lagt af Fjar­skipta­stofu og fram­kvæmt af Neyðarlín­unni og trygg­ir þegar upp er staðið að hvert ein­asta lög­heim­ili lands­ins hef­ur að lág­marki aðgang að not­hæfu net­sam­bandi og talsíma.

Þegar kem­ur að veg­un­um okk­ar höf­um við séð ár­ang­ur síðustu ár. Frá 2022 til 2023 fækkaði kíló­metr­um á stofn­veg­um um 30% þar sem ekki var farsímaþjón­usta frá öll­um þrem­ur farsíma­fyr­ir­tækj­un­um og er mark­miðið að út­rýma al­veg slík­um sam­bands­laus­um köfl­um á stofn­veg­um lands­ins. Ein­ung­is eru 124 kíló­metr­ar eft­ir og skýr mark­mið um að fyr­ir árs­lok 2026 verði sam­fellt há­hraðafarsíma­sam­band á hring­veg­in­um og öll­um öðrum stofn­veg­um um allt land. Þessi upp­bygg­ing bygg­ist á sam­starfi farsíma­fyr­ir­tækj­anna með aðkomu stjórn­valda, þar sem helstu sam­gönguæðar eru sett­ar í for­gang.

Það yrði annað og stærra mál að ráðast í sam­bæri­legt átak gagn­vart öll­um lög­heim­il­um og vinnu­stöðum sem eru með ljós­leiðara en tæpt eða ekk­ert farsíma­sam­band, eða þá öll­um tengi­veg­um. Slíkri upp­bygg­ingu með nú­ver­andi 4G/​5G-kerf­um myndi fylgja gríðarleg­ur kostnaður en með hröðum tækni­fram­förum, einkum í tal- og net­sam­bandi um gervi­hnetti, geta komið fram lausn­ir sem gera slík­ar úr­bæt­ur raun­hæf­ar.

Fjar­skipti skipta gríðarlega miklu máli fyr­ir ís­lensk heim­ili og vinnustaði. Við ætl­um að vera áfram í fremstu röð á heimsvísu þegar kem­ur að sta­f­ræn­um innviðum. Öflug fjar­skipti gera sta­f­ræna þróun og verðmæta­sköp­un á grunni henn­ar mögu­lega og eru einnig mikið ör­ygg­is­mál.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 25. maí 2024.