Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra:
Það er svo margt sem okkur þykir það sjálfsagt að við áttum okkur ekki á því og þaðan af síður tölum um það fyrr en okkur vantar það. Dæmi um slíkt eru góð og örugg fjarskipti, við ætlumst til þess að vera alltaf í góðu síma- eða netsambandi.
Staða fjarskipta á Íslandi er mjög góð. Við erum leiðandi í útbreiðslu á ljósleiðurum, með einstaka stöðu í aðgengi að ljósleiðurum í dreifbýli og útbreiðsla á 4G og 5G er á pari við það sem best gerist í heiminum. Þetta hefur gerst bæði í krafti mikillar samkeppni og rétt stilltrar aðkomu stjórnvalda hverju sinni.
Verkefninu er þó ekki lokið. Þegar ég hef verið á ferð um landið með skrifstofu mína óháð staðsetningu hefur þetta verið eitt af því sem brunnið hefur á fólki. Samkvæmt frumathugun Fjarskiptastofu eru enn um 100 heimili og vinnustaðir í dreifbýli sem eru bæði án ljósleiðaratengingar og farsímasambands sem uppfyllir lágmarksviðmið stjórnvalda um gæði nettengingar. Vegna þessa höfum við ákveðið að ráðast í átak við að bæta fjarskiptasamband á þessum 100 stöðum á landinu innan fárra ára. Verkefnið verður skipulagt af Fjarskiptastofu og framkvæmt af Neyðarlínunni og tryggir þegar upp er staðið að hvert einasta lögheimili landsins hefur að lágmarki aðgang að nothæfu netsambandi og talsíma.
Þegar kemur að vegunum okkar höfum við séð árangur síðustu ár. Frá 2022 til 2023 fækkaði kílómetrum á stofnvegum um 30% þar sem ekki var farsímaþjónusta frá öllum þremur farsímafyrirtækjunum og er markmiðið að útrýma alveg slíkum sambandslausum köflum á stofnvegum landsins. Einungis eru 124 kílómetrar eftir og skýr markmið um að fyrir árslok 2026 verði samfellt háhraðafarsímasamband á hringveginum og öllum öðrum stofnvegum um allt land. Þessi uppbygging byggist á samstarfi farsímafyrirtækjanna með aðkomu stjórnvalda, þar sem helstu samgönguæðar eru settar í forgang.
Það yrði annað og stærra mál að ráðast í sambærilegt átak gagnvart öllum lögheimilum og vinnustöðum sem eru með ljósleiðara en tæpt eða ekkert farsímasamband, eða þá öllum tengivegum. Slíkri uppbyggingu með núverandi 4G/5G-kerfum myndi fylgja gríðarlegur kostnaður en með hröðum tækniframförum, einkum í tal- og netsambandi um gervihnetti, geta komið fram lausnir sem gera slíkar úrbætur raunhæfar.
Fjarskipti skipta gríðarlega miklu máli fyrir íslensk heimili og vinnustaði. Við ætlum að vera áfram í fremstu röð á heimsvísu þegar kemur að stafrænum innviðum. Öflug fjarskipti gera stafræna þróun og verðmætasköpun á grunni hennar mögulega og eru einnig mikið öryggismál.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 25. maí 2024.