Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík:
Gífurlegur útgjaldavöxtur hins opinbera undanfarin ár er ósjálfbær. Vöxturinn hefur leitt til þess að heildarútgjöld hins opinbera, sem hlutfall af landsframleiðslu, eru sennilega hæst á Íslandi meðal aðildarríkja OECD. Brýnasta verkefni stjórnmálanna er því að ná tökum á útgjöldum og koma rekstrinum í jafnvægi að nýju. Með því að koma böndum á opinber fjármál munu þau styðja við verðstöðugleika í stað þess að ógna honum. Á það jafnt við um rekstur ríkis og sveitarfélaga.
Mikil og vaxandi skuldsetning hins opinbera er afar óæskileg enda stuðlar hún að verðbólgu og vaxtahækkunum. Hún dregur einnig úr getu hins opinbera til að mæta óvæntum áföllum, sem sagan sýnir að eru regla fremur en undantekning í íslensku efnahagslífi.
Athyglisverðar ábendingar koma fram í álitsgerð fjármálaráðs um tillögu til þingsályktunar um fjármálaáætlun fyrir árin 2025-2029. Þar er einkum fjallað um rekstur ríkisins en ábendingar ráðsins eiga ekki síður erindi til sveitarfélaga.
Ríkið og Reykjavíkurborg hafa verið rekin með miklum halla undanfarin ár þrátt fyrir mikinn hagvöxt og lítið atvinnuleysi. Er fyrst og fremst um útgjaldavanda að ræða.
Ábendingar fjármálaráðs
Staða íslensks efnahagslífs og opinberra fjármála er sterk í samanburði við flest önnur Evrópuríki að mati fjármálaráðs. Kaupmáttur hefur vaxið mikið, atvinnuleysi er lítið, jöfnuður mikill og lífskjör almennt með hinu besta sem þekkist. Skuldir ríkisins eru ekki mjög háar í alþjóðlegum samanburði en vaxtakostnaður er þó hár.
Staða opinberra fjármála einkennist af viðbrögðum við þeim áföllum sem riðið hafa yfir á síðustu árum, sérstaklega covid-19-faraldrinum og nú síðast eldsumbrotum á Reykjanesskaga. Fjármálaráð bendir á að útgjöld hins opinbera séu nú hærri en þau voru fyrir covid-19-áfallið og auknum tekjum hafi að hluta til verið eytt í ný útgjöld. Minna aðhald er því í ríkisrekstri á Íslandi en í samanburðarlöndum.
Veik afkoma
Miklar áskoranir blasa við í ríkisfjármálum og vísar fjármálaráð m.a. til öldrunar þjóðarinnar, minnkandi vaxtar verðmætasköpunar og kostnaðar við aðgerðir í umhverfismálum. „Fjárhagsleg afkoma hins opinbera er veik, ekki síst vegna mikils útgjaldavaxtar undanfarin ár. Meiri hagvöxtur og hærri tekjur hins opinbera en ráð var fyrir gert í fyrri áætlunum sköpuðu svigrúm til að auka útgjöld, sem er ekki sjálfbært þegar til lengdar lætur. Hagkerfið verður betur í stakk búið til að takast á við næstu efnahagslegu áraun ef haldið er aftur af útgjöldum þegar betur árar en áætlanir gerðu ráð fyrir. Aðstæður kalla á aukið aðhald, a.m.k. í hagstjórnarlegu tilliti,“ segir í álitsgerðinni.
Ófjármagnaðar útgjaldahugmyndir
Í fjármálaáætlun ríkisins er fjöldi nýrra verkefna kynntur til sögunnar en á móti er gert ráð fyrir óútfærðum sparnaði. „Aðgerðir, sem ætlað er að draga úr útgjaldavexti og auka tekjur, hrökkva skammt til að mæta þeim auknu útgjöldum, sem eru boðuð,“ segir í áliti ráðsins.
Þrýstihópar gera endalausar kröfur til hins opinbera um aukin útgjöld. Þessar kröfur eru oftar en ekki studdar af stjórnarandstöðunni á Alþingi. Flestar þessar útgjaldakröfur eru ófjármagnaðar og ljóst að þær ógna markmiðum um stöðugleika og sjálfbærni, þ.m.t. lækkun verðbólgu og
vaxta.
Við slíkar aðstæður væri óviðunandi að velta fleiri óarðbærum og ófjármögnuðum stórverkefnum yfir á íslenska skattgreiðendur en gert hefur verið. Má þar t.d. nefna framkvæmdahluta borgarlínu, sem mun ekki kosta undir 130 milljörðum króna og er þá rekstrarkostnaður ekki meðtalinn.
Opinberum útgjöldum hefur verið leyft að vaxa með óábyrgum hætti undanfarin ár. Nú verður að grípa til víðtæks aðhalds og sparnaðar í því skyni að gera opinber fjármál sjálfbær að nýju.