Marta Guðjónsdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík:
Kastljósþáttur Maríu Sigrúnar Hilmarsdóttur um bensínstöðvalóðirnar hefur vakið meiri athygli en nokkur sambærileg þáttagerð hjá RÚV. Sú greinargóða umfjöllun skilur eftir áleitnar spurningar sem enn er ósvarað.
Endurvakin forsjárhyggja
Það er vert að spyrja þessara spurninga í ljósi ríkjandi skipulagsstefnu borgaryfirvalda frá 2010. Sú stefna snýst um mikla þéttingu íbúðabyggðar í eldri hverfum og uppbyggingu þéttra fjölbýlisklasa meðfram stofnbrautum og ásum borgarlínu. Hugmyndafræði stefnunnar álítur heiminn á heljarþröm vegna loftslagsbreytinga. Hún hafnar því að frjáls samkeppni og tækniþróun bæti umhverfi okkar, samgöngur og lífsgæði, en krefst forsjárhyggju yfirvalda sem eiga að hafa vit fyrir almenningi og skammta fólki umfang íbúðabyggðar og umferð ökutækja.
Þéttingarstefnan gekk miklu hægar fyrir sig en gert var ráð fyrir. Nýtt byggingarland í eldri hverfum var af skornum skammti og það varð býsna flókið að vinna deiliskipulag þéttingarreita í eldri byggð: ganga á útsýni og græn svæði, auka álag á innviði eldri hverfa, samhæfa ásetning handhafa eldri lóða, stuðla að kaupum og sölu lóða sem voru miklu dýrari en óbyggt land borgarinnar og stuðla að niðurrifi og förgun eldri mannvirkja, áður en hægt yrði að reisa þar nýja byggð. Þéttingarstefnan olli því lóðaskorti.
Þéttingarstefnan olli fasteignaverðbólgu
Þéttingarstefnan hækkaði svo lóðaverð vegna verðmætari staðsetningar lóða í grónum hverfum, vegna flóknari undirbúnings á byggingarlóðum og síðan vegna vaxandi lóðaskorts og húsnæðiseklu. Húsnæðisskorturinn var heimatilbúinn. Með því að útiloka nýjar lóðir á óbyggðu landsvæði margfaldaðist lóðaverð, sem hefur sums staðar farið upp í 30-40% af byggingarkostnaði: Skipulagður skortur dregur úr eðlilegu framboði. Minna framboð eykur eftirspurn sem aftur hækkar lóðaverð og þar með íbúðaverð og húsaleigu. Borgaryfirvöld skópu þannig forsendur fyrir mestu fasteignaverðbólgu Íslandssögunnar.
Lóðaskortur fyrr og síðar
Áður fyrr fengu almenningur og samtök einstaklinga í Reykjavík úthlutaðar byggingarlóðir á óbyggðum svæðum, milliliðalaust. Borgaryfirvöld gættu þess þá að lóðaverð færi ekki yfir fjögur prósent af byggingarkostnaði. Engu að síður voru lóðaúthlutanir áður fyrr færri en eftirspurnin krafðist, þegar landsbyggðarfólk flykktist til Reykjavíkur. Sú staðreynd olli pólitískri spillingu. Það þótti betra að þekkja einhvern borgarfulltrúa ef menn vildu fá lóð. En sú spilling hvarf í borgarstjórnartíð Davíðs Oddssonar þegar hann lýsti því yfir að allir Reykvíkingar fengju úthlutaða byggingarlóð, óháð pólitískri fyrirgreiðslu.
Skortur, skömmtun …
Nú hefur stefnan frá 2010 endurvakið og aukið mjög lóðaskortinn með skipulegum hætti. Bein og óbein afskipti borgaryfirvalda af lóðaúthlutunum og byggingaráformum verða sífellt meiri og flóknari. Skipulagður skortur krefst skömmtunar og þegar borgin er handhafi þéttingarsvæða, eins og í Gufunesi og á bensínstöðvarlóðum með útrunna lóðarleigusamninga, skammtar sá sem veldur skortinum.
Í stað þess að breyta óbyggðum svæðum í byggingarlóðir og dreifa þeim verðmætum á borgarbúa og samtök þeirra fá nú örfáir fjársterkir fésýslumenn og verktakar – útvaldir af borgaryfirvöldum – að hirða gróðann af sífellt dýrari íbúðum.
… og pólitísk spilling
Auðvitað talar fyrrverandi borgarstjóri, Dagur B. Eggertsson, fjálglega um „faglegt val“ á hinum útvöldu, enda allt „grænt“ og „faglegt“ sem hefur hans fingraför. En slíkar klisjur breyta ekki þeirri staðreynd að skipulagður skortur og pólitísk skömmtun auka völd og flækjustig stjórnmálamanna, og eru gróðrarstía spillingar.
Það er liðin tíð að byggingarlóðir fari um hendur almennings í Reykjavík. Þær ganga kaupum og sölum milli stórfyrirtækja, sjóða og fjársterkra fésýslumanna á meðan íbúðakaupendur blæða. Ýmsir hinna útvöldu líta ekki á nýjar byggingarlóðir sem möguleika á að draga úr húsnæðisskorti heldur sem verðbréf og vafninga sem auka gróða þeirra. Almenningur þarf þak yfir höfuðið, borgaryfirvöld einblína á þéttingaráform, en handhafar byggingarréttar á þéttingarreitum vilja hámarka gróðann.
Það er við þessar aðstæður sem borgaryfirvöld gerðu samninga við olíufélögin um bensínstöðvalóðirnar. Samninga sem bæjarstjórar Akureyrar, Kópavogs, Garðabæjar, Hafnarfjarðar og Seltjarnarness segjast aldrei myndu taka í mál: samninga sem enn virðast gjörsamlega glórulausir og jafnvel ólöglegir.