Hildur Björnsdóttir, oddviti Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík:
Á dögunum birtist í Kastljósi Ríkisútvarpsins vönduð umfjöllun Maríu Sigrúnar Hilmarsdóttur um umdeilda samninga Reykjavíkurborgar við olíufélögin. Varpaði umfjöllunin ljósi á þau umfangsmiklu verðmæti sem borgin færði olíufélögunum þegar þeim voru veittar ríflegar uppbyggingarheimildir á verðmætum lóðum, án hefðbundins endurgjalds.
Veltum við hverjum steini
Forsögu málsins má rekja aftur til ársins 2019 þegar þverpólitísk sátt náðist í borgarráði um það markmið að fækka bensínstöðvum í borgarlandinu um helming. Ekkert heyrðist svo af framgangi málsins fyrr en tveimur árum síðar, þegar meirihlutinn lagði uppbyggingarsamninga við olíufélögin fyrir borgarráð, í sumarleyfi borgarstjórnar. Hafði meirihlutinn þá þegar boðið olíufélögunum umfangsmiklar uppbyggingarheimildir á lóðum bensínstöðvanna, án þess að fyrir uppbygginguna yrðu greidd hefðbundin byggingarréttargjöld eða innviðagjöld.
Fulltrúar Sjálfstæðisflokks samþykktu samningana ekki á neinu stigi málsins, enda um að ræða fráleitt framsal á verðmætum borgarinnar án endurgjalds. Ekki síst eru varhugaverðir þeir samningar sem veittu olíufélögum gjaldfrjálsar uppbyggingarheimildir á lóðum með þegar útrunnum lóðarleigusamningum. Samkvæmt umfjöllun Kastljóss nam verðmæti uppbyggingarheimildanna allra samanlagt um 10 milljörðum króna!
Tillaga um úttekt innri endurskoðunar á samningunum var felld vorið 2022 af meirihluta borgarstjórnar. Fulltrúar Sjálfstæðisflokks fluttu tillöguna aftur á dögunum í kjölfar umfjöllunar Kastljóss. Átti þá meirihluti borgarstjórnar engra annarra kosta völ en að samþykkja úttektina, enda komin fram skýr krafa frá almenningi um rannsókn málsins. Við þá athugun verður mikilvægt að velta við hverjum steini, kryfja aðdragandann og innihald samninganna. Skal þar ekkert undanskilið.
Fúskað í þágu RÚV
En samningarnir við olíufélögin eru því miður ekkert einsdæmi. Árið 2015, snemma í borgarstjóratíð Dags B. Eggertssonar, veitti Reykjavíkurborg Ríkisútvarpinu umfangsmiklar uppbyggingarheimildir fyrir íbúðarhúsnæði í Efstaleiti án þess að greidd yrðu hefðbundin gjöld fyrir. Skilaði lóðasalan RÚV tæpum 2,2 milljörðum króna að núvirði sem segja má að hafi bjargað ríkismiðlinum frá greiðsluþroti.
Árið 2019 gerði Ríkisendurskoðun athugasemdir við þennan gjafagjörning borgarinnar og varpaði því fram hvort með gjöfinni hefði Reykjavíkurborg veitt Ríkisútvarpinu ólögmæta opinbera aðstoð. Í ljósi þeirra takmarkana sem ríkisaðstoðarreglur setja á fjármögnun ríkisstyrktra fjölmiðla er atburðarásin bæði athyglisverð og varhugaverð. Þær tekjutuskur sem ríkismiðillinn vindur eru nægilega margar, svo ekki þurfi samhliða að ganga á verðmæti í eigu borgarinnar.
Degi eftir útgáfu skýrslunnar lagði undirrituð til við borgarráð að lóðasamningnum yrði vísað til innri endurskoðunar. Ærin ástæða væri til að fara ofan í saumana á málinu. Það tók meirihlutann tvö ár að taka tillöguna til afgreiðslu og fella hana.
Dæmin hrannast upp
Það er morgunljóst að hér hefur málast upp mynstur gjafagjörninga við úthlutun uppbyggingarheimilda í borginni. Dæmin hrannast upp – og verður það áfram hlutverk okkar sjálfstæðismanna að draga fram mynstrið og gæta þess að málin fái umfangsmikla og óháða skoðun.