Hugmyndir einstaklinga forsenda framfara
'}}

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla- iðnaðar og nýsköpunarráðherra:

Við getum ekki stjórnað framtíðinni en við getum stjórnað með hliðsjón af augljósum staðreyndum. Fjárfesting í mannauði, nýsköpun og þekkingu skilar sér í auknum hagvexti til framtíðar. Það er ágætt að rifja þetta upp af því tilefni að þessa vikuna fer fram Nýsköpunarvika Íslands – Iceland Innovation Week.

Nýsköpunarvikan er hátíð sem leiðir meðal annars saman sprotafyrirtæki, frumkvöðla og íslenska og erlenda fjárfesta. Vekur athygli á nýjum og spennandi lausnum og stórum áskorunum. Markmiðið að auka sýnileika og aðgengi að nýsköpun þvert á atvinnugreinar og fyrirtæki.

Nýsköpunarvikan er líka mikilvæg áminning fyrir okkur sem störfum á vettvangi stjórnmálanna. Kerfin sem við vinnum í eru mannanna verk. Við megum ekki missa sjónar á því að umhverfið sem við sköpum skiptir fólk máli, meðal annars frumkvöðla með stórar hugmyndir. Það skiptir Ísland máli að umhverfi þeirra sé eins og best verður á kosið.

Nýsköpunin þarf hagfellt og samkeppnishæft umhverfi til þess að geta blómstrað og er ólík hefðbundnu atvinnugreinunum okkar að því leytinu til að hún reiðir sig ekki á staðbundnar auðlindir. Allur heimurinn er undir, og allt kerfið okkar er undir; menntun, innviðirnir og skatta- og fjármálaumgjörð ásamt öllu öðru regluverki. Hagstætt umhverfi til nýsköpunar og fyrirtækjarekstrar leiðir af sér fleiri og betri tækifæri, en með hraðari tækniþróun þarf stöðuga endurskoðun.

Á undanförnum árum höfum við gjörbylt og eflt umhverfi nýsköpunar. Við höfum hlustað á hugmyndir fólks og stóreflt fjárfestingu í rannsóknum og þróun ásamt stuðningsumhverfinu öllu. Tryggðum skattaafslátt einstaklinga vegna fjárfestinga í nýsköpunarfyrirtækjum, einfölduðum ráðningar á alþjóðlegum sérfræðingum og svo mætti áfram telja.

Árangurinn hefur ekki látið á sér standa. Útflutningstekjur af tækni- og hugverkaiðnaði nema nú rúmlega 20 prósentum af útflutningi þjóðarinnar og nema nú rúmlega 266 milljörðum. Um er að ræða 90% aukningu á rúmum áratug sem skiptir hagkerfið okkar miklu máli og hefur verið sveiflujafnari á erfiðum tímum. Fjárfesting í rannsóknum og þróun meðal fyrirtækja hefur stóraukist sem og hafa spennandi og vel launuð störf í hugverka- og tækniiðnaði aldrei verið fleiri.

Þessi stefna hefur borið ríkulegan ávöxt sem mikilvægt er að hlúa vel að. Áfram verðum við að tryggja að hugmyndir fólks verði að veruleika. Áfram er það okkar hlutverk að tryggja að ekki verði settar auknar kvaðir á umhverfið heldur að einfalda kerfin og draga úr hömlum og hindrunum.

Það skiptir öllu máli að hér búi einstaklingar sem eru til í að taka áhættu með stórar hugmyndir. Það eru þessir einstaklingar sem búa til lífsgæði og fleiri tækifæri. Gleðilega nýsköpunarviku.

Morgunblaðið, 15.maí. 2024.