Styrkjum landamæri Íslands

Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra:

Varn­ir og skipu­lagt aðgengi út­lend­inga að landa­mær­um er nauðsyn­legt til að treysta og viðhalda stjórn­skipu­lagi hvers rík­is og tryggja ör­yggi íbúa. Stór hluti af sjálf­stæði hvers rík­is felst í mögu­leik­um þess til að stjórna eig­in landa­mær­um og á það legg ég áherslu.

Ljóst er að ís­lensk stjórn­völd, sem og reynd­ar öll ríki í Evr­ópu, standa frammi fyr­ir mikl­um áskor­un­um hvað varðar landa­mæri og mikla fólks­flutn­inga. Frá ár­inu 2015, eða í kjöl­far hryðju­verka í Evr­ópu og auk­ins straums flótta­manna til álf­unn­ar, hef­ur reglu­verk og fram­kvæmd á sviði landa­mæra gjör­breyst. Schengen-sam­starfið hef­ur tekið þar mikl­um breyt­ing­um og voru nú síðast tek­in stór skref með samþykkt hæl­ispakka Evr­ópu­sam­bands­ins sem hef­ur það mark­mið að ná betri yf­ir­sýn og stjórn á ein­stak­ling­um í ólög­mætri för inn­an Schengen-svæðis­ins og um­sækj­end­um um alþjóðlega vernd.

Mik­il­vægt er að vinna stöðugt að því að auka skil­virkni og gæði landa­mæra- og lög­gæslu­eft­ir­lits á landa­mær­um Íslands. Síðastliðin ár hef­ur verið unnið mark­visst að því að auka sam­ræmda og skipu­lega stjórn­un á landa­mær­um Íslands og var stórt skref tekið með fyrstu heild­stæðu stefn­unni í mál­efn­um landa­mær­anna árið 2019, með 40 aðgerða aðgerðaáætl­un. Í kjöl­far þeirr­ar stefnu­mörk­un­ar hafa átt sér stað um­tals­verðar um­bæt­ur í landa­mæra­eft­ir­liti. Má þar nefna setn­ingu fyrstu heild­stæðu laga um landa­mæri, stór­efl­ingu grein­ing­ar­getu á landa­mær­un­um, aukna sjálf­virkni- og tækni­væðingu í landa­mæra­eft­ir­liti, reglu­bundið áhættumat á landa­mær­um og veru­lega fjölg­un landa­mæra­varða og aukna sér­hæf­ingu og mennt­un í landa­mæra­eft­ir­liti. Í öll­um sam­an­b­urði Schengen-ríkj­anna er staðan góð á landa­mær­un­um hér á landi og erum við að fá upp­lýs­ing­ar um 93% allra farþega sem hingað koma. Stefnt er að því að þetta hlut­fall verði ná­lægt 100% síðar á ár­inu.

Mikið mæðir á ís­lensk­um landa­mær­um og hef­ur gert um ára­bil. Um 98% af öll­um þeim sem koma til lands­ins koma í gegn­um Kefla­vík­ur­flug­völl og hafa ferðamenn sem fara um flug­völl­inn verið rúm­lega 2 millj­ón­ir á ári. Ef við horf­um á frá­vís­an­ir á landa­mær­un­um vegna lög­gæslu­eft­ir­lits þá hef­ur það stór­auk­ist síðastliðin ár og var met­fjöldi frá­vís­ana í fyrra en þá var á fimmta hundrað út­lend­inga, sem ekki upp­fylla skil­yrði komu til lands­ins, vísað frá land­inu Það stefn­ir í annað metár í ár þar sem rúm­lega 300 manns hef­ur þegar verið vísað frá land­inu. Við höf­um enn frem­ur aldrei fengið fleiri skemmti­ferðaskip til lands­ins en þau leggj­ast við hafn­ir um allt land. Þá höf­um við aldrei fengið fleiri um­sækj­end­ur um vernd til Íslands en síðustu tvö ár og kostnaður við vernd­ar­kerfið stefn­ir í um 25 ma. kr., ef ekk­ert er að gert.

Það er mik­il­vægt að vinna stöðugt að því að auka skil­virkni og gæði landa­mæra- og lög­gæslu­eft­ir­lits enda er þessi mála­flokk­ur síkvik­ur og þarf stöðugt að vera í end­ur­skoðun. Haf­in er vinna við gerð nýrr­ar stefnu í mál­efn­um landa­mæra sem kynnt verður í sum­ar en hún verður unn­in í breiðu sam­ráði þar sem áhersla verður lögð á að ná aukn­um ár­angri í landa­mæra- og lög­gæslu­eft­ir­liti og færa ís­lenskt reglu­verk nær því sem gild­ir í ná­granna­ríkj­um okk­ar.

Með nýrri stefnu mun­um við taka stærri og mark­viss­ari skref í mál­efn­um landa­mær­anna. Styrkja og efla þær öfl­ugu stofn­an­ir sem nú sinna landa­mæra­eft­ir­liti og lög­gæslu, koma á fót mót­tökumiðstöð á eða við Kefla­vík­ur­flug­völl, bú­setu­úr­ræði fyr­ir út­lend­inga í ólög­mætri dvöl sem ber að yf­ir­gefa landið, sam­ræma verklag enn frek­ar og stytta af­greiðslu­tíma mála. Verk­efnið er mik­il­vægt og við þurf­um að ganga hratt og ör­ugg­lega til verks. Í störf­um mín­um sem dóms­málaráðherra er það for­gangs­mál að styrkja landa­mæri Íslands. Það er einn helsti þátt­ur­inn í því að halda uppi lög­um og reglu í land­inu.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 11. maí 2024.