Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra:
Varnir og skipulagt aðgengi útlendinga að landamærum er nauðsynlegt til að treysta og viðhalda stjórnskipulagi hvers ríkis og tryggja öryggi íbúa. Stór hluti af sjálfstæði hvers ríkis felst í möguleikum þess til að stjórna eigin landamærum og á það legg ég áherslu.
Ljóst er að íslensk stjórnvöld, sem og reyndar öll ríki í Evrópu, standa frammi fyrir miklum áskorunum hvað varðar landamæri og mikla fólksflutninga. Frá árinu 2015, eða í kjölfar hryðjuverka í Evrópu og aukins straums flóttamanna til álfunnar, hefur regluverk og framkvæmd á sviði landamæra gjörbreyst. Schengen-samstarfið hefur tekið þar miklum breytingum og voru nú síðast tekin stór skref með samþykkt hælispakka Evrópusambandsins sem hefur það markmið að ná betri yfirsýn og stjórn á einstaklingum í ólögmætri för innan Schengen-svæðisins og umsækjendum um alþjóðlega vernd.
Mikilvægt er að vinna stöðugt að því að auka skilvirkni og gæði landamæra- og löggæslueftirlits á landamærum Íslands. Síðastliðin ár hefur verið unnið markvisst að því að auka samræmda og skipulega stjórnun á landamærum Íslands og var stórt skref tekið með fyrstu heildstæðu stefnunni í málefnum landamæranna árið 2019, með 40 aðgerða aðgerðaáætlun. Í kjölfar þeirrar stefnumörkunar hafa átt sér stað umtalsverðar umbætur í landamæraeftirliti. Má þar nefna setningu fyrstu heildstæðu laga um landamæri, stóreflingu greiningargetu á landamærunum, aukna sjálfvirkni- og tæknivæðingu í landamæraeftirliti, reglubundið áhættumat á landamærum og verulega fjölgun landamæravarða og aukna sérhæfingu og menntun í landamæraeftirliti. Í öllum samanburði Schengen-ríkjanna er staðan góð á landamærunum hér á landi og erum við að fá upplýsingar um 93% allra farþega sem hingað koma. Stefnt er að því að þetta hlutfall verði nálægt 100% síðar á árinu.
Mikið mæðir á íslenskum landamærum og hefur gert um árabil. Um 98% af öllum þeim sem koma til landsins koma í gegnum Keflavíkurflugvöll og hafa ferðamenn sem fara um flugvöllinn verið rúmlega 2 milljónir á ári. Ef við horfum á frávísanir á landamærunum vegna löggæslueftirlits þá hefur það stóraukist síðastliðin ár og var metfjöldi frávísana í fyrra en þá var á fimmta hundrað útlendinga, sem ekki uppfylla skilyrði komu til landsins, vísað frá landinu Það stefnir í annað metár í ár þar sem rúmlega 300 manns hefur þegar verið vísað frá landinu. Við höfum enn fremur aldrei fengið fleiri skemmtiferðaskip til landsins en þau leggjast við hafnir um allt land. Þá höfum við aldrei fengið fleiri umsækjendur um vernd til Íslands en síðustu tvö ár og kostnaður við verndarkerfið stefnir í um 25 ma. kr., ef ekkert er að gert.
Það er mikilvægt að vinna stöðugt að því að auka skilvirkni og gæði landamæra- og löggæslueftirlits enda er þessi málaflokkur síkvikur og þarf stöðugt að vera í endurskoðun. Hafin er vinna við gerð nýrrar stefnu í málefnum landamæra sem kynnt verður í sumar en hún verður unnin í breiðu samráði þar sem áhersla verður lögð á að ná auknum árangri í landamæra- og löggæslueftirliti og færa íslenskt regluverk nær því sem gildir í nágrannaríkjum okkar.
Með nýrri stefnu munum við taka stærri og markvissari skref í málefnum landamæranna. Styrkja og efla þær öflugu stofnanir sem nú sinna landamæraeftirliti og löggæslu, koma á fót móttökumiðstöð á eða við Keflavíkurflugvöll, búsetuúrræði fyrir útlendinga í ólögmætri dvöl sem ber að yfirgefa landið, samræma verklag enn frekar og stytta afgreiðslutíma mála. Verkefnið er mikilvægt og við þurfum að ganga hratt og örugglega til verks. Í störfum mínum sem dómsmálaráðherra er það forgangsmál að styrkja landamæri Íslands. Það er einn helsti þátturinn í því að halda uppi lögum og reglu í landinu.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 11. maí 2024.