Færum staka frídaga að helgum

Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík:

Nú er árstími hinna stöku frídaga. Víða erlendis hafa slíkir frídagar verið færðir í því skyni að fjölga þriggja daga fríhelgum. Fyrir launafólk verður þannig meira úr fríinu, starfsánægjan eykst og afköstin aukast. Þar sem slíkt hefur verið gert erlendis, dettur engum í hug að snúa til gamla fyrirkomulagsins með því að gera frídagana staka á ný.

Ósamfelldar vinnuvikur

Sumardagurinn fyrsti og uppstigningardagur eru alltaf á fimmtudegi. Þessir stöku frídagar á fimmtudegi slíta í sundur vinnuvikuna og valda þannig margvíslegu óhagræði. Til verður svonefndur klemmudagur, þegar almennt launafólk þarf að mæta til vinnu á föstudag, eftir frídaginn.

Á mörgum vinnustöðum er starfið skipulagt í fimm daga lotum. Það dregur úr framleiðni þegar slíta þarf lotuna í sundur vegna staks frídags á fimmtudegi. Oft tekur því vart að hefja nýja lotu á föstudegi eftir stakan frídag og getur þá orðið lítið úr verki. Fækkun klemmudaga myndi leiða til aukinnar framleiðni og verðmætasköpunar, sem kæmi öllum vel.

Fyrsti maí færist hins vegar á milli vikudaga þannig að almennt launafólk fær ekki frí þegar hann lendir á helgi. Nú lenti fyrsti maí á miðvikudegi svo fyrir marga varð vinnuvikan að tveimur tveggja daga lotum.

Meira og samfelldara frí

Með samkomulagi um að færa frídaginn vegna 1. maí að helgi og festa hann þar, myndi þessum frídögum fjölga um tvo á hverju sjö ára tímabili eða um 40%. Slík fjölgun frídaga hefði umtalsverða kjarabót í för með sér og því er erfitt að skilja af hverju verkalýðshreyfingin hefur ekki tekið þessa hugmynd upp á sína arma. Það munar um minna.

Svipað má segja um fimmtudags-frídagana ef þeir yrðu færðir að helgi. Þeir yrðu launafólki kærkomnir enda gæti það gert meira úr fríinu en ella. Margir myndu nota langa fríhelgi til ferðalaga en aðrir verja tímanum heima við með fjölskyldu og vinum.

Allir þekkja hvað hvítasunnuhelgin og verslunarmannahelgin eru vinsælar vegna þess að þá er þriggja daga frí frá brauðstritinu. Með tilflutningi áðurnefndra frídaga yrði þessum kærkomnu helgum fjölgað og ekki er ólíklegt að það myndi auka gildi viðkomandi hátíða.

Fyrsta helgin í maí yrði þannig kennd við verkalýðinn eins og fyrsta helgin í ágúst er nú kennd við verslunarmenn. Við fengjum einnig þriggja daga sumarkomuhelgi og uppstigningarhelgi. Með langri helgi myndu skapast tækifæri til að glæða viðkomandi hátíðarhöld meira lífi en nú er.

Taka verður af skarið

Þessi góða hugmynd hefur oft verið rædd á Alþingi og í borgarstjórn, oftast við ágætar undirtektir, en það vantar að taka af skarið. Vissulega verður slík breyting varla gerð nema í tengslum við kjarasamninga og gott væri ef frumkvæðið kæmi frá launþegahreyfingunni.

Ef fram kæmi óvænt andstaða við slíkar hugmyndir mætti auðvitað gera breytingu í tilraunaskyni. Þeirri breytingu yrði eflaust vel tekið af þorra þjóðarinnar eins og alls staðar þar sem slíkt hefur verið reynt erlendis.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 2. maí 2024.