Óli Björn Kárason, alþingismaður:
Þeim fjölgar sem hringja viðvörunarbjöllunum. Evrópa er að verða undir í samkeppni þjóðanna. Dregið hefur úr aðlögunarhæfni efnahagslífsins. Þung reglubyrði er að kæfa frumkvæði og hugvit. Kolvitlaus stefna í orkumálum hefur leitt til stöðnunar.
Haustið 2022 varaði Ralph Schoellhammer, lektor í hagfræði og stjórnmálafræði við Webster-háskólann í Vín, við því í blaðagrein að aðstæður sem gerðu löndum Evrópu kleift að vinna sig út úr kreppum hefðu gjörbreyst til hins verra. Ekki væri lengur hægt að reikna með því að myndarlegt vaxtarskeið og nýsköpun fylgdi í kjölfar samdráttar. Skortur á orku og minnkandi samkeppnishæfni á flestum sviðum, allt frá menntun til tækni og nýsköpunar, leiddi óhjákvæmilega til efnahagslegrar hnignunar. Til væri að verða vítahringur eða spírall samdráttar. Hætta væri á að fjárfestar misstu trú á efnahagslífi landa Evrópu. Þeir leituðu því annað eftir tækifærum. Afleiðingin yrði skortur á fjármagni til fjárfestinga í atvinnulífinu og hærri fjármagnskostnaður ríkja sem mörg hver eru gríðarlega skuldsett. Á sama tíma væru þjóðir Evrópu að eldast og lífeyriskerfi flestra illa eða lítt fjármagnað.
Evrópa breytist í safn
Innherji vakti fyrir nokkru athygli á frétt Financial Times þar sem haft er eftir Börje Ekholm, forstjóra Ericsson, sænska framleiðandans á fjarskiptabúnaði, að regluvæðing sé að leiða til þess að Evrópa muni „ekki skipta máli“ í framtíðinni. Grafið sé undan samkeppnishæfni álfunnar og stafrænum innviðum stefnt í hættu. Áherslan á regluvæðingu leiði til þess að Evrópa verði í „síðasta sæti“ og þróist í að verða nokkurs konar „safn – með góðan mat, glæsilegan arkitektúr, fallegt landslag og bragðgóð vín en engan iðnað“.
Börje Ekholm og Ralph Schoellhammer eru ekki einir um að hafa áhyggjur. Emmanuel Macron Frakklandsforseti hefur varað við efnahagslegri hnignun Evrópu. Í viðtali við Financial Times benti Nicolai Tangen, forstjóri norska olíusjóðsins, á að regluverk í Evrópu væri þyngra en í Bandaríkjunum. Þá legðu Evrópubúar sig ekki jafn mikið fram og væru ekki jafn metnaðarfullir og Bandaríkjamenn.
Við Íslendingar eigum og verðum að þekkja hljóminn í viðvörunarbjöllunum. Við eigum allt okkar undir samkeppnishæfni landsins. Samkeppnishæfni er spurning um lífskjör almennings og möguleika okkar til að halda áfram að byggja upp velferðarsamfélag. Ég hef haldið því ítrekað fram að frumskylda stjórnvalda á hverjum tíma sé að verja samkeppnishæfni og styrkja efnahagslegar stoðir.
Verkefnið er ekki að flækjast fyrir með sífellt flóknari reglum, kröfu um opinbera skráningu leigusamninga með tilheyrandi eftirlitskerfi, kröfum um sjálfbærniskýrslur sem fáir skilja, flóknu og tímafreku leyfisveitingaferli til flestra verklegra framkvæmda, jafnlaunavottun eða öðrum reglum sem gera líf einstaklinga flókið, hægir á ákvarðanatöku og dregur úr náttúrulegum sveigjanleika íslensks samfélags. Verkefnið er að ryðja úr vegi sem flestum hindrunum, straumlínulaga stjórnsýsluna með skilvirkri ákvarðanatöku.
„Afhúðun“ er nauðsynleg
Við höfum fetað í fótspor Evrópusambandsins í regluvæðingu samfélagsins, í nokkru vegna alþjóðlegra skuldbindinga en í öðru vegna misskilnings. Svokölluð gullhúðun (væri réttara að segja blýhúðun) við innleiðingu á regluverki Evrópusambandsins í gegnum EES-samninginn hefur reynst íslenskum fyrirtækjum kostnaðarsöm og dregið úr samkeppnisfærni þeirra. Það er því fagnaðarefni að Bjarni Benediktsson forsætisráðherra og Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra hafi skorið upp herör gegn gullhúðun í íslenskum rétti. Það þarf að vinna skipulega á komandi mánuðum og misserum að því að „afhúða“ stóra hluta af íslenskra lagasafninu.
Ísland stendur í sumu höllum fæti gagnvart öðrum þjóðum vegna fjarlægðar frá mörkuðum og fámennis. En við höfum eða eigum að eiga gott forskot á ýmsum sviðum. Fámennið gerir okkur betur kleift að byggja upp einfalda og skilvirka stjórnsýslu og koma upp gegnsæju, sanngjörnu og einföldu regluverki. Einfaldleiki og snerpa í allri ákvörðunartöku gefur forskot sem getur reynst ómetanlegt í náinni framtíð.
Við eigum gríðarlega möguleika til að stórauka græna orkuframleiðslu, ólíkt flestum öðrum þjóðum. Orka er forsenda verðmætasköpunar. En við erum búin að smíða svo flókið og allt að því ókleift kerfi til að nýta skynsamlega orkukosti að við stöndum frammi fyrir skorti. Guðlaugur Þór Þórðarson umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra hefur lagt grunn að einföldun stofnanakerfisins með sameiningum og nú er unnið að því að innleiða skilvirkari leyfisveitingar á sviði umhverfis- og orkumála. Þá hefur ráðherrann birt áformaskjal um endurskoðun laga um verndar- og orkunýtingaráætlun – svokallaða rammaáætlun. Í umsögn StormOrku sem birtist á samráðsgátt stjórnvalda er því haldið fram að rammaáætlun þverbrjóti, ítrekað, 9. gr. stjórnsýslulaga um málshraða. Afleiðingarnar: „Það er auðveldara að byggja olíuknúin orkuver á Íslandi í dag en græn orkuver því að hin fyrrnefndu þurfa ekki að fara í gegnum rammaáætlun því ekki er um innlendar auðlindir að ræða.“
Tvö mál til einföldunar
Frumvarp Teits Björns Einarssonar og fimm annarra þingmanna Sjálfstæðisflokksins um breytingu á lögum um umhverfismat framkvæmda og áætlana og skipulagslögum miðar að því að einfalda regluverk, sem eykur skilvirkni í framkvæmd laganna, og festir málshraðareglu stjórnsýsluréttar betur í sessi. Nái frumvarpið fram að ganga verða umsagnaraðilar að virða tímafrest – sem er átta vikur. Berist ekki umsögn áður en frestur rennur út skal líta svo á að viðkomandi stofnun samþykki efnislega umsóknina. Þannig verður ekki hægt að tefja framvindu mála í kerfinu, líkt og nú er því miður algengt. Þetta á jafnt við um virkjanir sem aðrar framkvæmdir.
Diljá Mist Einarsdóttir hefur ásamt fleiri þingmönnum Sjálfstæðisflokksins lagt fram frumvarp um breytingar á lögum um ársreikninga þar sem stærðarmörk örfyrirtækja eru hækkuð. Þetta þýðir að þungum kostnaði verður létt af mörgum litlum fyrirtækjum. Kerfið virðist ætla að streitast á móti, en allt atvinnulífið hvetur þingið til dáða. Fyrir mörg fyrirtæki gæti þessi breyting skipt meira máli í rekstri en lækkun tekjuskatts!
Hér skal það fullyrt að eitt stærsta hagsmunamál Íslendinga á komandi árum sé að skera upp regluverkið, einfalda það og gera skiljanlegra. Tryggja að „kerfið“ vinni með atvinnulífinu og þjóni fyrirtækjum og einstaklingum. Alveg með sama hætti og nauðsynlegt er að hugað sé að samkeppnishæfni landsins þegar teknar eru ákvarðanir um skatta og gjöld er lífsnauðsynlegt að sama hugsun ráði för við laga- og reglusetningu. Auðveldasta leið okkar til að auka samkeppnishæfni samfélagsins er að tryggja einfaldara og skilvirkara regluverk en í öðrum löndum Evrópu.