Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla- iðnaðar og nýsköpunarráðherra:
Ég heyrði því einhvern tímann fleygt að skrifræði væri listin að gera hið mögulega ómögulegt. Það er dálítið til í því og þess vegna er stjórnsýslan oft gagnrýnd fyrir að þvælast fyrir fólki og fyrirtækjum í stað þess að leysa málin. Kerfið geri tilveruna flóknari en hún þurfi að vera. Sói tíma og peningum. Stjórnmálamenn ná ekki tilætluðum árangri og kerfin virka ekki eins og best verður á kosið.
Fyrir rúmlega tveimur árum fékk ég tækifæri til að leiða ráðuneyti háskóla, iðnaðar og nýsköpunar. Ég ákvað strax að mig langaði til að slíkt ráðuneyti væri í takti við tímann. Ábyrgðin er mikil enda er það okkar að tengja saman málaflokka sem skipta miklu máli fyrir framtíð Íslands. Tækifærin í menntakerfinu, rannsóknum, vísindum, nýsköpun og tækni eru gríðarleg til að auka lífsgæðin á Íslandi og mæta samfélagslegum áskorunum. Það er okkar að ýta undir ný störf, ný tækifæri og gera betur í gamalgrónum atvinnugreinum og opinberri þjónustu. Við höfum séð hvernig iðnaður sem byggist á nýrri þekkingu hefur vaxið sem útflutningsgrein og enn eru tækifæri til að gera betur. Þessi sýn er leiðarljósið í starfinu okkar.
Á þessum tíma höfum við búið til nýtt og annars konar ráðuneyti. Á þeirri vegferð höfum við lært margt af innlendum og alþjóðlegum fyrirtækjum og stofnunum. Tekið brot af því besta héðan og þaðan. Við höfum klárað mikilvæg verkefni, forgangsraðað öðruvísi svo verkefni sem skipta máli og stjórnmálin kalla eftir að séu kláruð kafni ekki alltaf í hinu hversdagslega amstri. Stjórnmálin og stjórnsýslan starfa náið saman að þróun nýs verklags og starfsfólk ráðuneytisins hefur unnið þrekvirki við að innleiða það. Við höfum breytt kerfinu, innleitt nýsköpun í stjórnkerfinu og náð árangri.
En hvers vegna eru kerfisbreytingar nauðsynlegar til að hægt sé að ná meiri árangri? Getum við notað aðferðafræði nýsköpunar betur í stjórnkerfinu? Hvernig vinnum við hraðar, forgangsröðum, gerum meira fyrir minna, klárum málin, fækkum verkefnum og hættum jafnvel við einhver?
Ef þér finnst áhugavert að heyra svörin við þessum spurningum þá hvet ég þig til að kíkja á kynningu sem ég verð með í Kolaportinu í Nýsköpunarvikunni miðvikudaginn 15. maí kl. 16. Hægt er að skrá sig á hvin.is.
Það er hlutverk okkar sem erum í stjórnmálum að hafa skýra sýn á það hvert við stefnum. Þess vegna gaf ég út rit í upphafi kjörtímabilsins með sýn og aðgerðum sem þyrfti að ráðast í til að ná árangri fyrir Ísland. Að þeim höfum við unnið hörðum höndum og gerum áfram á grundvelli breytinga á stjórnkerfinu sem ég vonast eftir að geti skilað meiri og betri árangri og minnkað skrifræði, yfirbyggingu og farið betur með fé.
Nýsköpunarvikan í næstu viku er full af spennandi viðburðum þar sem við sjáum hvernig íslenskt hugvit leikur lykilhlutverk víða í samfélaginu okkar. Líka í stjórnkerfinu. Hlakka til að sjá þig!