Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, Troels Lund Poulsen, Antti Häkkänen, Bjørn Arild Gram, Pål Jonson, varnarmálaráðherrar Norðurlandanna:
Varnarmálaráðherrar Norðurlandanna undirrituðu á þriðjudaginn nýja langtímastefnu fyrir norrænt varnarmálasamstarf til ársins 2030 og mörkuðu þar með tímamót í sögu samstarfsins. Með þessu vilja Norðurlöndin bregðast við þeim alvarlegu öryggisáskorunum sem heimsbyggðin stendur frammi fyrir með tilheyrandi álagi á alþjóðakerfið. Norðurlöndin hyggjast efla varnarsamstarf þjóðanna með metnaðarfullum og umfangsmiklum verkefnum til að styrkja sameiginlega norræna varnargetu, bandalagsríkjum Atlantshafsbandalagsins til heilla.
Norðurlöndin deila sömu grunngildum og öryggishagsmunum. Varnarsamstarf okkar hefur þróast og eflst á liðnum árum og varð til stofnunar NORDEFCO-samstarfsins árið 2009. Síðan þá höfum við séð blikur á lofti varðandi okkar sameiginlega öryggi, nú síðast með ólöglegu innrásarstríði Rússlands í Úkraínu. Nú eru rúm tvö ár frá allsherjarinnrás Rússlands í Úkraínu og tíu ár frá ólöglegri innlimun Krímskaga. Íbúar Úkraínu hafa sýnt óbilandi þrautseigju, hugrekki og mikla útsjónarsemi frammi fyrir grimmdarverkum Rússa. Barátta þeirra er barátta okkar allra; fyrir frelsi, fyrir sjálfsákvörðunarréttinum og lýðræðinu. Það er því skylda okkar að styðja áfram við varnarbaráttu Úkraínu; með hergögnum, þjálfun, mannúðar- og fjárhagsaðstoð, eins lengi og þörf krefur.
Það er sameiginlegt mat Norðurlandanna að Rússland verði áfram stærsta ógn við öryggi okkar heimshluta, sem og heimsins alls, um fyrirsjáanlega framtíð. Við erum jafnframt sammála um mikilvægi þess að efla sameiginlegar aðgerðir okkar til að mæta þessari ógn. Í fyrsta sinn, með aðild Finnlands og Svíþjóðar að Atlantshafsbandalaginu, hafa Norðurlöndin ákveðið að standa sameinuð þegar kemur að öryggis- og varnarstefnu þjóðanna.
Norðurlöndin eru staðráðin í að efla framlög til sameiginlegra varna Atlantshafsbandalagsins og, að Íslandi undanskildu, ætla að fjárfesta að lágmarki 2% af vergri landsframleiðslu þeirra til herafla sinna. Við deilum einstakri sérþekkingu á Norður-Atlantshafinu, norðurslóðum og Eystrasaltinu og eigum nærri 1.500 kílómetra landamæri að Rússlandi. Samanlagt búa Norðurlöndin yfir 250 herþotum og 350 þúsund hermönnum á Norðurlöndunum. Saman höfum við auk þess getu til að styðja við móttöku, aðkomu og tilfærslu liðsafla bandalagsríkja okkar. Sameiginleg reynsla okkar og þekking, samhliða frekari eflingu heildrænna varna (e. total defense) og norræns hátækniiðnaðar á sviði hergagna, er mikilvægt framlag til að auka viðnámsþol og viðbragðsgetu. Sem bandalagsríki erum við reiðubúin til að standa vörð um gjörvallt svæði Norðurlandanna.
Flutningaleiðin yfir Atlantshafið þjónar lykilhlutverki fyrir öryggi Evrópu og Norður-Ameríku. Af þeim sökum leggja tvíhliða varnar- og samstarfssamningar Norðurlandanna við Bandaríkin grunn að öflugra samstarfi ríkjanna, sem eykur um leið framlag okkar til sameiginlegra öryggis- og varnarmála.
Norðurlöndin eru reiðubúin til að takast á við núverandi og komandi áskoranir, sameiginlega og með öðrum bandalagsríkjum, og nýta þannig norrænt varnarsamstarf til að efla öryggi Atlantshafsbandalagsins. Við lítum á norðurslóðir og Eystrasaltið sem sameiginlegt aðgerðasvæði okkar og varnir þess eru hornsteinn samvinnu okkar.
Með ofangreint og markmið okkar til ársins 2030 í huga, höfum við ákveðið að styrkja norræna varnarsamstarfið í takt við langtímastefnu þess, sem er aðgengileg á vef utanríkisráðuneytisins.
Sameiginlegt framlag okkar til fælingarmáttar og öryggis Atlantshafsbandalagsins, með hliðsjón af landfræðilegri legu landa okkar, getu og herafla, er verulegt. Það styður ekki einvörðungu við áætlanagerð og vinnu Atlantshafsbandalagsins, heldur styrkir norræna samstarfið sömuleiðis stöðu bandalagsins í Norður-Evrópu. Þannig leggja Norðurlöndin sín lóð á vogarskálarnar til sameiginlegra varna allra aðildarríkja bandalagsins.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 2. maí 2024.