Í dag verður borinn til grafar Guðmundur H. Garðarsson fyrrverandi þingmaður Sjálfstæðisflokksins sem lést í hárri elli 95 ára.
Guðmundur sat á þingi fyrir Sjálfstæðisflokkinn á árunum 1974-1978 og 1987-1991 og tók auk þess alloft sæti sem varaþingmaður á alls 18 löggjafarþingum. Við vorum ekki samtíða á þingi, en ekki fór hann fram hjá mér fremur en öðrum ungum sjálfstæðismönnum á sínum tíma.
Rökfastur stjórnmálamaður, baráttumaður fyrir frelsi einstaklingsins, verslunarfrelsi og ekki síst vestrænni samvinnu. Stjórnmálamaður sem lét hag launþega sig varða og fór fyrir hagsmunabaráttu þeirra. Bæði innan Sjálfstæðisflokksins sem og innan samtaka launþega. Ég var svo heppinn að kynnast Guðmundi vel og tókst með okkur góð vinátta.
Guðmundur var öflugur félagsmálamaður. Hann var prúður í framkomu en jafnframt fylginn sér. Hann starfaði að bættum kjörum launafólks sem formaður Verzlunarmannafélags Reykjavíkur um langt árabil. Hann var fyrsti sjálfstæðismaðurinn sem tók sæti í miðstjórn ASÍ eftir að hafa ásamt öðrum lagt mikla baráttu í að VR yrði aðili að sambandinu. Guðmundur var einn þeirra brautryðjenda sem lögðu grunninn að Lífeyrissjóði verslunarmanna og uppbyggingu lífeyrissjóðakerfisins á Íslandi. Í hans formannstíð varð VR að einum öflugustu launþegasamtökum landsins. Guðmundur þekkti atvinnulífið vel og starfaði m.a. í um 40 ár hjá Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna. Sú reynsla nýttist vel í hans störfum, hvort sem var á þingi eða í baráttu fyrir launafólk.
Auk þingmennsku var Guðmundur lengi virkur í grasrótarstarfi Sjálfstæðisflokksins. Hann sat um árabil í miðstjórn flokksins, var formaður Varðar – fulltrúaráðsins í Reykjavík og virkur á vettvangi Verkalýðsráðs Sjálfstæðisflokksins, svo fátt eitt sé nefnt. Störf hans voru vel metin af samflokksmönnum hans og leituðu margir til hans um góð ráð.
Guðmundur var afar vel liðinn í þingflokki Sjálfstæðisflokksins. Á Alþingi hafði hann forystu í umræðum um lífeyrismál og mikilvæg mál sem sneru að vinnumarkaðnum. Hann barðist einnig fyrir afnámi einokunar ríkisins á rekstri ljósvakamiðla og átti jafnframt töluverðan þátt í lausn landhelgisdeilunnar. Þá sat hann í þingmannasamtökum NATO og var fyrsti formaður Varðbergs, samtaka um vestræna samvinnu og alþjóðamál.
Guðmundur naut mikils trausts samferðafólks síns og var valinn til trúnaðarstarfa víða. Í störfum sínum kom hann mörgu í verk og var farsæll. Hann var einarður fylgismaður grunngilda Sjálfstæðisflokksins og lá ekki á liði sínu í baráttunni fyrir framgangi þeirra.
Skömmu eftir að ég tók fyrst þingsæti fyrir Sjálfstæðisflokkinn, árið 2003, kom Guðmundur að máli við mig við Austurvöll mjög áhugasamur um þingstörfin og vildi leggja gott til málanna. Hann hvatti mig einnig til að gerast áskrifandi að The Sunday Times í Eymundsson í Austurstræti. Það væri gagnlegt til að fylgjast vel með straumum og stefnum í bresku þjóðlífi og á alþjóðavísu. Ég fylgdi þessum ráðum og mun ávallt hugsa til Guðmundar með hlýhug fyrir fjölmörg uppbyggileg samtöl og skemmtilegar sögur úr stjórnmála- og atvinnulífi síðustu aldar.
Fyrir hönd Sjálfstæðisflokksins þakka ég Guðmundi gott ævistarf í þágu sjálfstæðisstefnunnar og votta fjölskyldu hans innilega samúð við fráfall hans.
Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokksins og forsætisráðherra.
Minningargreinin birtist í Morgunblaðinu 3. maí 2024 á útfarardegi Guðmundar.