Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík:
Heildarskuldir Reykjavíkurborgar hækkuðu um fimmtíu milljarða króna árið 2023 og námu 495 milljörðum í lok þess. Þar af hækkuðu skuldir borgarsjóðs um 24 milljarða króna og námu skuldir hans 198 milljörðum króna í árslok.
Ýmsir eiga erfitt með að átta sig á fjárhagsstöðu Reykjavíkurborgar þar sem rekstri hennar er skipt í A- og B-hluta.
A-hluti (borgarsjóður) samanstendur af aðalsjóði, eignasjóði og bílastæðasjóði. Rekstur A-hluta er að mestu leyti fjármagnaður með skatttekjum. Til B-hluta teljast hins vegar fyrirtæki, sem eru a.m.k. í helmingseigu borgarinnar.
Borgarsjóður eða samstæðan?
Við umræður um ársreikning Reykjavíkurborgar leggja fulltrúar meirihluta Samfylkingar, Framsóknarflokks, Pírata og Viðreisnar áherslu á að fjalla um A-hlutann, ekki síst þegar um er að ræða samanburð við fjárhag annarra sveitarfélaga. Slíkur samanburður getur þó verið villandi.
Þeir, sem einblína á stöðu A-hluta þegar rætt er um fjármál Reykjavíkurborgar, halda því gjarnan fram að undir B-hlutanum séu borgarfyrirtæki, sem séu fjárhagslega sjálfstæð, sem afli sjálf tekna og muni þannig sjálf standa undir lánum sínum. Þess vegna sé eðlilegra að horfa aðallega til A-hluta þegar farið sé yfir rekstur og skuldastöðu borgarinnar. Með því að einblína á skuldir borgarsjóðs en horfa markvisst fram hjá rúmlega 300 milljarða skuldum borgarfyrirtækja, er auðveldara en ella að halda því fram að ekki þurfi að hafa áhyggjur af skuldastöðunni.
Staðreyndin er hins vegar sú að fjárhagur borgarsjóðs og borgarfyrirtækja er svo nátengdur að samstæðureikningur Reykjavíkurborgar sýnir raunhæfasta yfirlitið yfir fjárhag hennar. Borgarsjóður ber á endanum ábyrgð á skuldum borgarfyrirtækja og sum þeirra eru rekin með beinum fjárframlögum úr honum.
Miklar skuldir Félagsbústaða
Í gegnum tíðina hafa miklir fjármunir verið færðir frá ýmsum fyrirtækjum borgarinnar til að sýna betri stöðu borgarsjóðs. Að mestu leyti með arðgreiðslum en einnig með tilfærslu eigna.
Með stofnun Félagsbústaða hf. á sínum tíma, seldi borgin sjálfri sér t.d. fjölda leiguíbúða og fékk þannig háar fjárhæðir inn í borgarsjóð. B-hluta-fyrirtækið var skuldsett fyrir kaupverðinu og borgarsjóður „græddi“.
Skuldir Félagsbústaða hf. hafa vaxið mikið á undanförnum árum. Námu þær um 63 milljörðum króna um síðustu áramót og hækkuðu um sex milljarða á milli ára. Ljóst er að félagið á erfitt um vik með að greiða af skuldum sínum. Í endurskoðunarskýrslu með ársreikningi borgarinnar er bent á að félagið muni ekki geta staðið undir greiðslubyrði lána næstu tíu ára að öllu óbreyttu.
Vaxandi skuldir OR
Skuldir Orkuveitu Reykjavíkur (OR) námu rúmlega 222 milljörðum króna um síðustu áramót og hækkuðu þær um 18 milljarða á milli ára. Verulegur hluti þessara skulda er tilkominn vegna pólitískra ákvarðana um fjárfestingar OR utan kjarnastarfsemi. T.d. hefur OR lagt a.m.k. 27 milljarða króna í fjarskiptarekstur á samkeppnismarkaði, rekstur sem átti upphaflega að standa undir sér og vera sjálfbær.
Í áðurnefndri endurskoðunarskýrslu eru gerðar athugasemdir við rekstrarhæfi Ljósleiðarans, fjarskiptafyrirtækis OR. Bent er á að fyrirtækið sé mjög skuldsett og lán þess með íþyngjandi skilmálum. „Miðað við núverandi rekstrar-, efnahagsreikning og sjóðstreymisyfirlit er ekki séð að félagið geti staðið við skammtímaskuldbindingar sínar með handbæru fé frá rekstri,“ segir í skýrslunni.
Íþyngjandi arðgreiðslur
Núverandi borgarstjórnarmeirihluti leggur mikla áherslu á að kreista sem mesta fjármuni út úr Orkuveitunni til að bæta rekstur borgarsjóðs. Er ætlunin að OR greiði eigendum sínum sex milljarða króna arð vegna ársins 2023 en sú upphæð nemur nær öllum hagnaði fyrirtækisins á því ári. Ljóst er að svo há arðgreiðsla bindur hendur OR og gerir því óhægt um vik að greiða niður skuldir og fjármagna viðhald veitukerfa eins og þörf er á.
Allt borgarkerfið er nátengt fjárhagslega, hvort sem um er að ræða borgarsjóð eða borgarfyrirtæki. Til að átta sig á rekstri og skuldum A- og B-hluta er því best að skoða heildarmyndina, þ.e. samstæðureikning borgarinnar.