Óli Björn Kárason alþingismaður:
Vegir stjórnarandstöðunnar eru svo sannanlega oft órannsakanlegir. Að minnsta kosti átti ég erfitt með að átta mig á tilgangi Flokks fólksins og Pírata með því að leggja fram vantrauststillögu á ríkisstjórnina í liðinni viku. Inga Sæland, fyrsti flutningsmaður, var skýr í framsögu sinni með tilgangsleysið: „Bersýnilega mun þessi vantrauststillaga ekki ná fram að ganga, jafnvel þótt hún njóti stuðnings allra stjórnarandstöðuþingmanna, sem ég vona að hún geri.“
Markmið tillögunnar var sem sagt ekki að fella ríkisstjórnina eða láta reyna á hvort hún hefði stuðning meirihluta þingsins (sem enginn efaðist um) og boða til kosninga. Tilgangurinn virðist fyrst og síðast hafa verið tvíþættur: Annars vegar að efna til málfundaæfingar í þingsal (og raunar endurvinnslu á gömlum skammarræðum um ríkisstjórnir síðustu ára). Og hins vegar að komast í fréttir fjölmiðla, ekki síst ljósvaka. Fjölmiðlar brugðust ekki Flokki fólksins og Pírötum sem gátu baðað sig í sviðsljósinu í einn eða tvo sólarhringa án gagnrýni eða áleitinna spurninga fjölmiðlunga.
Fyrir áhugafólk um stjórnmál er það athyglisvert að Flokkur fólksins og Píratar hafi tekið höndum saman um vantrauststillögu á ríkisstjórn. Aðrir flokkar stjórnarandstöðunnar tóku ekki þátt í leiknum en gátu illa gert annað en greiða henni atkvæði. Þeir lögðu nafn sitt hins vegar ekki við tillöguna.
Rétturinn til að leggja fram þingsályktun um vantraust á ríkisstjórn eða á einstaka ráðherra er ótvíræður og mikilvægur. En réttinn ber að nýta varlega, án pólitískrar léttúðar eða til stigasöfnunar í dægurþrasi stjórnmála. Stjórnarandstaðan í öllum löndum veit að hún hefur skyldur til að sýna ábyrgð. Það eru og á að gera kröfur til hennar með sama hætti og gerðar eru kröfur til ríkisstjórnar. Hvorki Flokkur fólksins né Píratar risu undir þessum kröfum í liðinni viku.
Á sama tíma og efnt er til upphlaups á þingi – í hreinu tilgangsleysi að mati flutningsmanna sjálfra – bíða afgreiðslu fjölmörg mál sem skipta almenning miklu. Frumvörp sem styðja við nýgerða langtímasamninga á vinnumarkaði, ekki síst hækkun barna- og vaxtabóta. Frumvörp um einföldun á regluverki orkumála, nauðsynlegar breytingar á útlendingalögum og lögreglulögum, heildarlöggjöf um fiskeldi og síðast en ekki síst frumvarp til breytinga á tryggingakerfi öryrkja sem mun bæta hag þeirra og innleiða í kerfið heilbrigða hvata í stað refsinga. Öllu þessu voru þingmenn Flokks fólksins og Pírata tilbúnir til að tefla í hættu með því sem Bjarni Benediktsson kallaði með réttu glundroðatillögu.
Að nokkru er hægt að hafa samúð með framgöngu hins nýja bandalags Pírata og Flokks fólksins. Hvorugur flokkurinn hefur náð árangri í stjórnarandstöðu – það hefur fremur sigið á ógæfuhliðina. Ekki síst hjá Pírötum sem hafa misst tæplega annan hvern kjósanda frá kosningunum 2016.
Fyrir stjórnarandstöðu sem hjakkar í sama farinu, er föst í formsatriðum eða gömlum skammarræðum með fullyrðingum sem sumar ganga gegn staðreyndum er erfitt að ná fótfestu þegar litið er á stöðu efnahagsmála, sem þrátt fyrir allt er góð þótt mæta þurfi ýmsum áskorunum. Raunar er það töluvert afrek að hafa náð að sigla í gegnum efnahagsþrengingar vegna kórónuveirunnar, stríðsins í Úkraínu og náttúruhamfara í Grindavík með þeim hætti sem gert hefur verið.
Sterk staða
Samkvæmt velsældarvísitölu Sameinuðu þjóðanna er Ísland eitt mesta velmegunarríki heims. Ísland situr í þriðja sæti yfir þau lönd þar sem best er að búa. Aðeins Sviss og Noregur eru ofar. Velsældarvísitalan sýnir allt aðra og jákvæðari mynd af Íslandi en stjórnarandstaðan reynir að draga upp. Depurð, eymd og vonleysi er boðskapur þeirra sem sjá glasið aldrei hálffullt heldur alltaf hálftómt. Svartsýni blindar og menn skynja ekki tækifærin til sóknar.
Verðbólga, sem er á niðurleið, og hátt vaxtastig valda mörgum heimilum og fyrirtækjum erfiðleikum. Fátt skaðar hag launafólks meira en verðbólga. Eitt mikilvægasta verkefni stjórnvalda er að tryggja stöðugleika og að verðbólga haldi áfram að lækka. Það verður aðeins gert með skynsamri stefnu í ríkisfjármálum en ekki glundroðatillögum á Alþingi.
Þrátt fyrir alvarleg áföll og erfiðar ytri aðstæður höfum við Íslendingar notið meiri hagvaxtar á síðustu árum en flestar nágrannaþjóðir okkar. Staða heimila er sterk. Skuldir hafa sjaldan á undanförnum áratugum verið lægri í hlutfalli við ráðstöfunartekjur eða eignir. Eins og sést á meðfylgjandi mynd eru skuldir heimilanna þær lægstu á Norðurlöndunum í hlutfalli af ráðstöfunartekjum. Eigið fé hefur aukist gríðarlega á síðustu árum.
Í nýrri fjármálaáætlun kemur fram að laun á hverja vinnustund hafi hækkað um fjórðung á þremur árum. Þetta er mun meiri vöxtur en í nágrannaríkjum. Að meðaltali var kaupmáttur launa á vinnustund í járnum árið 2023 en hækkaði þó talsvert áfram hjá þeim tekjulægri. Þannig er jöfnuður að aukast hér á landi, ólíkt því sem stjórnarandstæðingar halda fram þegar bölhyggjan ræður för.
Kaupmáttur launa hefur aukist margfalt hér á landi miðað við önnur lönd, eins og glögglega sést á meðfylgjandi mynd. Aukningin er yfir 50% hér frá árinu 2013 en um og undir 6% í löndum Evrópusambandsins og á Norðurlöndunum.
Heimili og fyrirtæki eru í mörgu betur í stakk búin til að mæta efnahagslegum áföllum en hið opinbera, eins og viðurkennt er í fjármálaáætlun: „Fjárhagsleg staða hins opinbera er veikari en oft áður og ábyrgðarhluti að úr því verði bætt eins og lagt er upp með í þessari áætlun.“
Í fjármálaáætluninni sem liggur til afgreiðslu á þingi er stigið mikilvægt skref í að auka viðnámsþrótt ríkisins. Áætlunin ber þess hins vegar merki að vera samstarfsverkefni þriggja flokka. Verkefni þingsins er fyrst og síðast að auka aðhald í ríkisfjármálum, ekki með því að auka álögur á heimili og fyrirtæki eða leita að „útgjaldatækifærum“ heldur með lækkun útgjalda.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 24. apríl 2024.